trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 31/08/2016

Ég elska alla

Mér er sama hvar ég lendi er ég dey.Shady Owens

Þetta sungum við hér áður í skátunum og niðurlagið skýrði upphafið: Ég á vini á báðum stöðum / sem að bíða mín í röðum.

Í pólitísku tilliti er þetta líka satt. Ég á vini í öllum flokkum og væri til í að kjósa þá alla. Það gæti ég líka, ef við hefðum haft vit á að taka hér upp persónukjör þvert á flokka, eins og Vilmundur lagði til forðum og fjölmargir aðrir síðar.

En við höfum ekki borið gæfu til þess.

Hvaða fólk er þetta? heyri ég ykkur spyrja. Ó boj. Innan Vg nefni ég Katrínu Jakobsdóttur og Björn Val Gíslason, af því að þau þola að ég nefni þau opinberlega. Af sömu ástæðu nefni ég engan innan stjórnarflokkanna – mér þykir vænt um þau og vil þeim vel.

Ég hef áður skrifað svo vel um suma frambjóðendur pírata að meiraðsegja mér þótti nóg um. En þau áttu það skilið. Engum þarf að dyljast ást mín á Óttari Proppé. Ég mun gráta Gumma Steingríms og Róbert Marshall lengur en tárin endast.

Í flokknum mínum fylgi ég reglu Shadyar Owens: Ég elska alla.

En sú pólitíska ást nær sums staðar lengra en annars staðar. Það er í Valgerði Bjarnadóttur (sorrí Össur, Helgi og þið hin – mér finnst þið mjög sæt og sexí líka).

Ástæðurnar eru fjölmargar, en verða trúlega bezt soðnar niður í þessar: Valgerður hefur ekki gefið tommu eftir í átökum um stærstu framtíðarmálin, stjórnarskrána og auðlindirnar, sem ráða svo miklu um öll hin. Þar eru prinsipp sem þarf að verja og hún gerir það. Alveg afsláttarlaust. Það eitt gerir hana að nauðsynlegum þingmanni.

Hún hefur líka framsæknari afstöðu í fíkniefnamálum en margir yngri frambjóðendur í árum talið.

Hitt er svo nauðsynlegur karakterstyrkur, að Valgerður hefur afar takmarkaða þolinmæði gagnvart vitleysingum og enn minni fyrir dellu, hvað þá undirmálum og baktjaldamakki. Og hún er ekki í pólitík vegna eigin hagsmuna eða framadrauma. Það er ótrúlega mikilvægt.

(Trúið mér svo: Ég þekki þetta um vitleysingana og delluna á eigin skinni. Algerlega verðskuldað.)

Ég nefndi persónukjörið í upphafi – það myndi nefnilega frelsa kjósendur úr flokkafjötrunum meira en margar aðrar umbætur.

Nú vill svo til, að flokkurinn minn (ég þori ekki að nefna hann af ótta við ´computer says no´) gefur fólki utan flokks kost á að hafa áhrif á hverjir verða frambjóðendur hans. Það þarf ekki einu sinni að ganga í flokkinn, bara skrá nafnið sitt hér. Og svo er nóg að vera orðinn sextán ára.

Margrét Tryggvadóttir lýsir reyndar mikilvægi slíkrar þátttöku vel í þessari grein.

Mig grunar sterklega að ég sé ekki einn um að eiga vini á báðum stöðum og sem hafa áhuga á svipuðum framfaramálum. Nú fáið þið sénsinn.

Ef þið notið hann ekki þýðir ekkert að koma vælandi til mín þegar Birgir Ármannsson verður kosinn einu sinni enn. Þá endið þið bara þar sem þið eigið skilið.

Við vitum hvar það er.

1,825