trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 14/03/2014

Eftirmæli: Listamaður í íslenskum litum

Eftir Jón Proppé

Birgir Andrésson dó fimmtíu og tveggja ára gamall en mun þó teljast með afkastamestu listamönnum síns tíma hvernig sem á það er litið og hann dó í miðju verki. Ferill hans í listinni spannar rétt þrjá áratugi en marga tugi einkasýninga og ótal samsýningar. Heildarverk hans er mjög samfellt og endurspeglar skýra úrvinnslu hugmynda og hugðarefna Birgis og ítarlegar rannsóknir á viðfangsefni og formfræði. Í framsetningu voru verk hans alltaf í senn nýstárleg og aðgengileg, hnyttin eins og líking í ljóði sem varpar öllu því kunnuglegasta í nýtt sjónarhorn. Birgir var líka mikils virtur fyrir verk sín og í fyrra var haldin á þeim yfirlitssýning í Listasafni Íslands. Strax árið 1995 var hann sendur fyrir Íslands hönd til Feneyja á Tvíæringinn og nú síðast í ár var hann tilnefndur til Sjónlistaverðlaunanna og hefði eflaust hampað þeim eitthvert næstu ára hefði hann lifað. Birgir var í framvarðasveit sinnar kynslóðar listamanna en var um leið öðru vísi en allir aðrir.

Sjónarhornið

Fyrsta sýning Birgis sem ég skrifaði um var í Gallerí 11 við Skólarvörðustíg árið 1994 og hét Fundin ný lönd. Þar hafði hann steypt í gips nokkrar lágmyndir af Íslandi en breytt landslaginu: Í einu verkinu lá brattur fjallgarður með allri suðurströndinni, í öðru voru Vestfirðir orðnir að undirlendi. Þessi litla sýning hefur mér alltaf þótt lýsa sérstaklega vel nálgun Birgis og næmi hans. Þarna var öllu umturnað en það gert ofurfínlega og af mikilli nærgætni. Skoski listamaðurinn Mark Boyle sagði að það áhrifamesta sem maður gæti gert til að breyta umhverfi sínu væri að skipta um sjónarhorn á það og þetta sannast í verkum Birgis.

Teikning og formfræði lágu létt fyrir Birgi strax þegar hann var unglingur. Hann hafði líka gott skipulag á vinnu sinni og þolinmæði og vandvirkni til föndurs og frágangs. Mörgum sem komu í listaskóla á áttunda áratugnum urðu slíkir hæfileikar þungbærir þegar hugmyndalistin, Flúxusið og gjörningarnir flæddu inn og það varð hálf-gamaldags að kunna að teikna. Birgir hafði enga slíka komplexa og nýlistin opnaði honum nýjar aðferðir og nálganir sem hann fléttaði að því er virðist áreynslulaust saman við útfærslu sinna eigin hugmynda.

Hann hafði alla tíð gríðarlegan áhuga á öllu form- eða myndrænu umhverfi okkar en hirti minna um fyrirmyndir úr listasögunni eða tilvísanir í hana þótt hann væri þar vel að sér. Sú saga sem hann hrærðist í var saga alþýðufræðanna, skráð í munnmæli, orðtök, mannlýsingar, viðurnefni og örnefni.   Hið myndræna umhverfi þessarar sögu liggur sjaldnast saman við listasöguna og er frekar í nytjahlutum og hversdagssmátteríinu sem hver kynslóð skilur eftir sig og þær næstu reyna svo að rýna í seinna. Birgir fékkst við að formgreina og skrá ýmsa þætti úr þessari menningarsögu þjóðarinnar. Hann sýndi teikningar af fornleifauppgreftri og ljósmyndir af löngu látnum umrenningum, skráði „íslenska liti“, teiknaði upp gömul og þjóðleg frímerki, lét prjóna þjóðfánann í ull í sauðalitunum og skar út stórt asklok til að nota yfir kamar.

Viðfangsefnin voru þannig nær alltaf þjóðleg eða höfðu að minnsta kosti sterka tilvísun í þjóðleg minni en úrvinnslan beindist öðru fremur að formi og byggingu. Að baki hinum tilfinningaþrungnu þjóðminnum greindi Birgir einfalda form- og litafræði sem gæti allt eins átt við önnur viðfangsefni og hefur hugsanlega meira að gera með áhrifamátt myndrænna framsetninga yfirleitt heldur en sjálft „inntakið“. Þannig leysti hann upp táknin sem beitt hefur verið til að skýra fyrir Íslendingum þjóðerni þeirra en fann um leið aðferð sem gerði honum kleift að útvíkka rannsóknir sínar.

Alltaf ný rannsóknarskýrsla

Birgir vissi vel að hann væri góður myndlistarmaður en hann var mjög hógvær þegar kom að þessum rannsóknarþætti í starfi hans og fræðasamfélaginu. „Það skal tekið fram af gefnu tilefni að hér er ekki um að ræða neina sagnfræði,“ skrifaði hann í inngangi að bók sinni um ‘annars vegar fólk’ árið 1991, „heldur fátæklega tilraun myndlistarmanns, til þess eins að varpa daufu ljósi á þann marglita jarðveg og þá sérstöðu er hin svokallaða íslensk [svo] menning er sprottin úr.“ Þetta daufa ljós varð þó alltaf til að teikna fram nýja drætti í viðfangsefninu, nýtt sjónarhorn, nýja liti. Þarna var enda ekki um að ræða neitt handahóf heldur vann Birgir einbeitt og markvisst og mörg viðfangsefni hans birtast aftur og aftur. Hver ný sýning var eins og rannsóknarskýrsla og það var unun að fylgjast með og taka þátt í þessu mikla fræðaverkefni.

Eitt af viðfangsefnum Birgis voru íslensk frímerki frá fyrstu áratugum tuttugustu aldar sem sýndu Gullfoss og Geysi og Fjallkonuna með flúri sem minnir á skreytilist þjóðveldistímans þar sem myndfletinum er vandlega skipt í reiti, myndin í einum, flúrið og letrið í öðrum. Allt frá 1985 fékkst Birgir við að mála upp þessi frímerki og leysti þau upp í punkta, fyrst í einum lit og seinna í mörgum. Í málverkunum verða þessi formhreinu merki illlesanleg, líkt og gullaldardýrkunin og endurreisnarandinn sem þau eru sprottin úr – málverkið verður sjálft tákn um sögulega fjarlægð og vanda þess sem vill leita liðins tíma.

Árið 1996 gekk Birgir enn lengra og sýndi skápa með mörgum hurðum og hólfum sem endurspegla samsetningu reitanna á frímerkjunum þannig að ein skáphurð er fyrir hverjum reit. Formfræðilega eru skáparnir þannig nákvæm eftirlíking af formunum í frímerkjunum en án táknanna sem þar eru færð hvert í sinn reit, myndanna af séríslenskum náttúruundrum, flúrsins og letursins. Í þessum verkum, líkt og svo mörgum sem Birgir lét frá sér, mætast þjóðleg minni og minimalísk framsetning sem er eðli sínu samkvæmt óþjóðleg eða alþjóðleg, táknar ekki neitt og hafnar öllu táknrænu inntaki. Innihaldið í þessari „þjóðlegu“ formbyggingu er falið og hurð sett fyrir. Rúsínan í pulsuendanum er svo auðvitað að þegar hurðirnar eru opnaðar reynast skáparnir tómir.

Klisjur og brandarar

Þessi kaldi húmor, hið afhjúpandi íroníska sjónarhorn, var eitt beittasta vopn Birgis og ef hann hefði ekki verið eins mannelskur og umburðarlyndur og hann var er hætt við að einhvern hefði sviðið undan háði hans. Í verkunum beitti hann kaldhæðninni til að skera á þau bönd sem halda okkur að viðteknum söguskoðunum og gagnrýnislausri endurtekningu á klisjum um sögu okkar og uppruna og um táknmyndir þjóðareðlisins.

Líkt og flestar aðrar vestrænar þjóðir búum við Íslendingar fyrst og fremst að starfi nítjándu aldarinnar þegar kemur að slíkum táknmyndum. Fjallkonan íslenska er systir Britanníu, France og Germaníu – gyðjusveimsins sem á nítjándu öld spratt upp til að tákna hin órjúfanlegu bönd hverrar þjóðar. Formgerð táknmyndanna er líka afrakstur þessa tíma og endurspeglar nýklassíska hugmyndafræði. Sömu formin má að sjálfsögðu finna meðal flestra nálægra þjóða enda má rekja þau allt aftur til fornaldar ef þörf krefur. Hin þjóðlegustu tákn eru þá þegar fjölþjóðleg eða óþjóðleg. Þetta dró Birgir greinilega fram í verkum sínum og þannig urðu hversdagslegar klisjur og heimóttarlegir brandarar honum efni í sönn listaverk.

Íslensku litirnir eru eitt undarlegasta og mótsagnakenndasta viðfangsefnið í list Birgis og eins og svo margir þættir í hugsun hans fléttast þeir saman við ýmis önnur þemu, til dæmis textamálverk þar sem textinn stendur á litfleti og í horn myndarinnar er skráð hvaða litir voru notaðir: „Colours: Icelandic Pantone 173, Icelandic Pantone 533.“ Í aðra röndina er þetta dæmigerð kaldhæðni þar sem grín er gert að þjóðlegum tilhneigingum í innanhússhönnun en seinna urðu litirnir eins konar signatúr sem Birgir gat beitt til að setja nýjan vinkil á nær hvaða viðfangsefni sem er. Þá voru litirnir farnir að virka líkt og stimplarnir sem Flúxuslistamenn bjuggu til og notuðu til að tengja saman dótið í verkum sínum. Loks var auðvitað að baki þessum hugmyndum einlægur áhugi og djúp rannsókn á eðli og eiginleikum lita í öllu samhengi. Fyrir næstum tveimur árum bað Birgir mig að skrifa handa sér ritgerð um blátt en sagði að það lægi ekkert á – hann vissi að þetta væri ekkert áhlaupaverk.

Fresturinn rann út miklu fyrr en ég hafði vonað.

Nóvemberhefti 2007

Flokkun : Menning
1,321