trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 13/04/2014

Eftirmæli: Guðmundur Hallvarðsson: Róttæklingurinn sem fór upp á fjöll

Eftir Erling Ólafsson

Heimurinn okkar er merkilegt fyrirbrigði. Við teljum okkur búa við frelsi, allsnægtir, lífsfullnægju. Mikill hluti af tíma okkar fer í að dýrka neysluguðinn. Þá á okkur að líða vel, við dýrkum hluti, búið er að skapa kerfi þar sem öll orka okkar fer í þessa allsnægtaþörf og sjálfsdýrkun. Spegill, spegill herm þú mér.Guðmundur Hallvarðsson

Auðvitað búum við vel, í sælusamfélagi ef við berum okkar saman við aðra heima, þar sem ríkir fátækt, hungur og umfram allt kúgun. En þegar betur að er gáð er margt umhverfis okkur sem eru kúgunarþættir, kúgun valdsins, fjármagnsins, trúarinnar feðranna, karlanna, hinna sterkari. Við teljum að okkur séu allir vegir færir á lífsins braut, kerfið býður okkur svo margt, við eigum að hafa það fínt og ekki að vera með óánægjunag og uppreisnarhug.

Lífið er ekki svo einfalt. Það er enn margt sem hindrar okkur í að vera jöfn og eiga jöfn tækifæri. Við fæðumst ekki jöfn, genin okkar ráða miklu, jafnvel fæðingin sjálf getur skipt sköpum, efnahagur foreldra ræður miklu. Svo er spurningin um lífsins veg, hvernig ber okkur áfram, með áhrifum frá fjölskyldu, vinum, skóla og samfélagi? Hvernig meðhöndlum við þá gjöf sem lífið er sem við fáum bara gefins einu sinni?

Guðmundur og ég

Hvert er maðurinn að fara, spyr nú einhver, á hvaða leið er hann? Þessar hugleiðingar komu upp í huga minn þegar ég hugleiddi lífsbrautir okkar Guðmundar Jóhanns Hallvarðssonar, en hann lést um aldur fram fyrir nokkrum vikum.

Við vorum nærri því jafn gamlir. Hann fæddist í lok janúar 1947, ég fæddist í byrjun mars sama árið. Rétt á eftir gaus Hekla, ekki veit ég hvort eitthvert samband er þar á milli. Við komum báðir úr verkalýðsstétt, faðir hans lýkur trésmíðanámi, varð meistari og framkvæmdamaður; faðir minn var sjómaður, verkstjóri, afgreiðslustjóri, kokkur, lagerstjóri, svo að eitthvað sé nefnt. Við ólumst upp á Reykjavíkursvæðinu, gengum í barna- og gagnfræðaskóla, hann fer síðan strax í vinnuskóla lífsins, ég sit á skólabekk langt fram á þrítugsaldur. Við endum síðan báðir sem kennarar. Við förum að hittast í sambandi við stjórnmálastarfsemi og mótmæli á tímum Víetnamsstríðsins. Hann sem fulltrúi og þátttakandi í Fylkingunni, ég afturámóti í stúdentahreyfingunni, Stúdentaráði og Verðandi.

Guðmund þekkti maður af göngulaginu og limaburðinum, það var enginn eins og hann. Skemmtilega luralegur og þéttur fyrir. Heill á skoðunum sínum og lagði sitt af mörkum til að breyta heiminum. Það eru allir búnir að gleyma því að til var fólk sem vildi breyta heiminum, skapa ríki jafnaðar og sósíalisma. Ungt fólk á tímum kalda stríðsins og nýlendukúgunar ræddi leiðir og bjó sér jafnvel líf sem var öðru vísi en líf Meðal-Jónsins. Ungt fólk sem vitnaði í Karl Marx, Rósu Luxembourg, Lenin, Stalin, Gramsci, Maó formann, Sartre, Althusser, Meinhof, Dutschke og Cohn-Bendit! Sem vildi láta taka sig alvarlega.

Sumir vildu ganga langt í aðgerðum sínum, vildu alvöru uppreisn. Guðmundur var einn af þeim, tók meira að segja þátt í einstakri aðgerð hérlendis sem að vísu misheppnaðist eins og flestar slíkar tilraunir. Það var þegar Kópavogsdeild Fylkingarinnar ætlaði að sprengja upp bragga í Hvalfirði. Þráinn Bertelsson skrifaði síðar um það skáldsöguna Kópamaros.

Það var líka hópur ungs fólks sem fór í nám til Sovétríkjanna fékk uppfræðslu í hugmyndum heimamanna þar, upplifði sælu Sovétríkjanna. Þangað fór Guðmundur, einnig Anna Margrét sem seinna varð eiginkona hans. Ég ræddi fyrir nokkrum árum að taka viðtal við hann um veru hans í Sovét en hann var ekkert hrifinn af því, þetta var liðinn og fjarlægur tími í augum hans. Meira um það síðar.

Aðrir fóru til Kúbu í vinnuferðir til að kynnast sósíaliska ríkinu í vestri. Sem var ævintýri í huga þeirra. Seinna voru aðrir, ekki margir, sem tóku upp hugmyndafræði Kína, Norður-Kóreu og Albaníu. Ýmislegt furðulegt kom út úr þeim pælingum en eflaust hefur það hjálpað flestum sem gengu í gegnum þetta ferli á einhvern hátt í lífinu. Það er hollt að feta nýjar brautir. Mörgu af þessu fólki hefur vegnað vel í lífinu. Við höfum fengið forsetaframbjóðanda, Seðlabankastjóra, Alþingismenn og svo framvegis sem tóku þátt í þessu tímabili og lifðu af.

Guðmundur var líka ötull að koma róttækum sjónarmiðum inn í verkalýðshreyfinguna, hann stundaði byggingavinnu og var seinna starfandi í Áburðarverksmiðjunni, var virkur á vinnustöðum sínum, allt sem hann tók sér fyrir hendur gerði hann af þrótti og dugnaði og var oftast valinn til forystu.

Samskipti

Ég kynnist Guðmundi síðan nokkrum árum síðar náið þegar hann fór í samband við Önnu Margréti Jónsdóttur, fyrrum mágkonu konu minnar, Bergþóru Gísladóttur. Eftir það var umgengni alltaf í föstum skorðum hjá okkar fjölskyldum, við með 3 börn, hann og Anna Margrét með 1 svo 2 og loks 3 heima, með matarboðum, kaffidrykkjum, afmælum, göngutúrum, stuttum og lengri, ferðalögum, heimsóknum og gistingum þegar við bjuggum úti á landi í 15 ár.

Þannig vildi Guðmundur hafa hlutina, og við, hann var maður hefða og festu. Við hittumst alltaf á gamlárskvöld frá því að við fluttum til Reykjavíkur fyrir 14 árum, þar var fjölskylda Guðmundar, faðir hans og móðir meðan þau lifðu, Einar Már bróðir Önnu Margrétar og kona hans, auk annarra ættmenna þegar svo bar við. Það var merkilegt hversu uppeldi hans í Kópavogi mótaði hugmyndir hans og lífsmið, hann var að mörgu leyti patríark, eins og Hallvarður eldri, það er merkilegt hvernig róttækar stjórnmálaskoðanir hafa ekki djúpstæð áhrif á margt í lífi fólks.

Það er hætt við að áramótin verði ekki söm eftir fráfall hans. Þeim fækkar í hópnum okkar. Fyrst foreldrar hans og nú hann.

Að láta drauminn rætast

Eitt var svo hrífandi í fari Guðmundar: Það var að fá dellur, hugmyndir og láta þær rætast. Hann framkvæmdi þær!! Þannig varð upphafið að Hornstrandaferðum, hann vildi ná sambandi við uppruna föðurfjölskyldu sinnar sem var upprunnin á Hornströndum, líklega var hann í leit að sjálfum sér. Í Hlöðuvík og Hælavík.

Vinum og kunningjum var smalað saman og farið í hetjulega göngu frá Dröngum norður allar Hornstrandir um miðjan níunda áratuginn og ekki numið staðar fyrr en í Hlöðuvík, ættaróðali Guðmundar á Hornströndum. Þar hafði Hallvarður faðir Guðmundar reist veglegt hús. Ekki skipti máli þótt nær enginn hefði stundað svona göngur áður i þessum hópi og útbúnaður var ekki eins og síðar varð.

Guðmundur Hallvarðsson 2Síðan fórum við öðru hverju í ferðir í þennan dásamlega heim, Hornstrandir, sem maður verður bergnuminn af.  Og Guðmundur gerði það að sumarstarfi sínu í meira en 20 ár að leiða ferðalanga um Hornstrandirnar. Hann þróaði hópferðir þar sem ríkti meiri gleði og samhugur en áður hafði þekkst á þessum vettvangi. Þetta voru með tímanum ferðir áreynslu og erfiðis sem voru kryddaðar með matarveislum þar sem meðlimir hópanna matreiddu og sýndu sína hæfileika. Svo var spilað á gítar og sungið meðan miðnætursólin sökk í hafið. Þetta var næst því að komast í Paradís að margra mati, það er að segja í góðu veðri! Í einni ferðinni sem við fórum var harmonikukonsert í Fljótavík þar sem samkennari hans spilaði klassískan harmonikkukonsert í einn og hálfan tíma. Ég heyri enn tónana í huga mér þar sem við sátum úti á palli undir Kögri.

Maður verður aldrei samur á eftir.

Sama var með hlaupadellu. Við hjónin byrjum að trimma á 9. áratugnum sem varð með tímanum að góðri fíkn. Ekki er hægt að segja að Guðmundur hafi verið með sportlegt útlit, honum þótti gott að eta góðan mat og drekka ljúfar veigar svo hann varð ansi þungur oft á veturna. En hann vildi samt reyna að hlaupa með okkur, prófa eitthvað nýtt, svo hann byrjaði, hann léttist um nokkra tugi kílóa og hljóp í nokkur ár í almenningshlaupum.

Í fyrsta sinnið, það var hálfmaraþon, beið maður milli vonar og ótta að hann kæmist í mark, en hann seiglaðist á sinn hátt og skeiðaði yfir línuna í Lækjargötunni við mikinn fögnuð. En hann gat líka verið fljótur að verða leiður á einhverju; einn góðan veðurdag varð hann leiður á hlaupum. Þau voru kannski of erfið fyrir hann. Þá fann hann hlaupum allt til foráttu. Þvílíkir vitleysingar þessir hlauparar!

Í staðinn fór hann að stunda Hreyfingu og var ár eftir ár á fullu þar á veturna að æfa sig fyrir göngurnar næsta sumar. Þó átti hann til að verða þyngri á veturna, lífsnautnamaðurinn og reglumaðurinn háðu oft harða baráttu hjá honum.

Það var samt í tónlistinni sem Guðmundur fann sig best þegar hann eltist. Hann hafði spilað á gítar frá unga aldri. Ég man að ég heyrði upptöku með honum og Megasi, ég fékk hana á kassettu hjá Halla S. Blöndal, ég held ég eigi hana ennþá þar sem hljóma harðbannaðir textar með öðrum klassíkerum. Og Guðmundur átti sér i alltaf draum í puði hvunndagsins að fara í almennilegt tónlistarnám.

Hann lét líka af því verða, fór í Tónskóla Sigursveins og kláraði gítarnám og svo tónlistarkennaranám með fullri vinnu. Við vorum meira að segja á útskriftartónleikum hans. Mörgum þótti ótrúlegt að þessi maður með þessar stóru hendur gæti spilað klassík á gítar en það gerði hann með heiðri og sóma. Seinasta árið sem hann lifði hélt hann þó nokkra konserta fyrir aðra sjúklinga hjá Krabbameinsfélaginu og Ljósinu. Alltaf var gítarinn með í Hornstrandaleiðöngrum og hámarkið var ef hann fékkst til að syngja og spila ljótu söngvana þeirra Kristjáns Eldjárns og Helga Hálfdanarsonar. Þá kom þessi ógleymanlegi hamingjusvipur yfir Guðmund, það gneistaði úr augum hans.

Tónlistin varð svo hans lífsstarf. Hann var afbragðskennari náði einstöku sambandi við krakka og unglinga.

Veikindi og draumsýn

Við erum svo sjálfhverf í þessum velsældarheimi okkar, við höldum að allt sé óendanlegt. Við ætlumst til þess að við fáum gott og áfallalaust líf fram á níræðisaldur. En þegar við erum komin á sjötugsaldur þá fer þeim að fjölga sem verða fyrir áföllum. Lífið er ekki svona einfalt.  Veikindi, skrokkurinn lætur undan, sjúkdómalegur, endalok. En okkur finnst það óréttlæti þegar það kemur of nálægt okkur sjálfum, þetta hendir bara aðra.

Svo var um okkur þegar Guðmundur veiktist á aðfangadag 2012. Hann varð fárveikur þá, fór í skurðaðgerð meðan aðrir snæddu jólasteikina og síðar kom í ljós hann var með krabbamein í lifur. Ég vissi hvert stefndi, nú til dags les maður sjúkdómslýsingar á Gúgglinu. Hann fékk í rauninni gott eitt ár, fór í margar góðar ferðir, lifði heilbrigðu lífi, stundaði menningu meir en oft áður. Eiginlega trúði hann ekki að þessi fáránlegi sjúkdómur gæti komið nálægt honum. Gerði ýmislegt til þess að reyna að losna við hann, sumt að mínu skapi annað ekki. Það var hans val.

En í lok 2013 vissi maður að hverju stefndi, samt kom það á óvart hvað allt gekk hratt fyrir sig í lokin. Brottafarartíminn var kominn og það var ekki mikill tími að pakka niður. Svo var hann horfinn, sömu leið og við öll förum.

Ég sé hann fyrir mér, hann hallar sér fram á göngustaf með gönguhirð sína umhverfis sig. Pétur Ármanns, Eddurnar, Kristinn, Sigga Lóa, Habba, Jónína, Eygló, Elsa, Gunnar, Bragarnir, Magnús og Snúlla, Badda, Ólöf, Gísli, Bergþóra, það má lengi telja upp. Hópurinn horfir yfir víkur, í fjarska, skýjatjásur og þoka.

Ég hugsa að hann hefði ekki verið hrifinn af því að vera kallaður umhverfissinni, seinni árin vildi hann ekki láta draga sig í dilk, hann var ekki spenntur að ræða pólitík, ég þrasaði við hann um þetta áhugaleysi, reyndi að sannfæra hann um að þátttaka skipti máli. Mér finnst ég hafa orðið pólitískari með aldrinum.

Þrátt fyrir afneitun á hugmyndafræði þá gerði Guðmundur marga að umhverfissinnum meðan hann brunaði áfram með hópinn, ekki alltaf fyrstur en aldrei gafst hann upp, vildi komast á næsta áfangastað upp á Hælavíkurbjarg, Kálfatinda, yfir Kýrskarð niður að Vita, yfir í Reykjafjörð þar sem veisla og laug beið manns, frá Grunnavík yfir Snæfjallaheiði ofan í Djúpið þar sem lambalæri er grafið í grillgröf og snætt um ellefuleytið um kvöldið í 20 stiga hita…

Það voru ekki haldnar langar ræður um náttúruna hjá Guðmundi en oft voru aðrir í hópum hans sem gerðu það, læddu að fróðleiksmolum. Margir stunduðu líka heimanám allt árið. Nokkrir hafa tekið við og leiða hópa um aldingarðinn. En upplifunin í ferðunum var svo sterk. Maður naut umhverfisins og náttúrunnar, félagsskaparins, þurfti að hafa fyrir hlutunum sjálfur. Enginn gengur fyrir mann.  Lífið hefur upp á svo margt að bjóða, við höfum valið.

Við upplifum ljúfar stundir, þótt sá miskunnarlausi banki öðru hverju að dyrum. Við uppgötvum með tímanum það sem skiptir máli í lífinu. Fjölskylda, vinir, vinna sem gefur eitthvað, er ekki bara mæld með silfri. Það væri gott að lifa í fullkomnari heimi, við breytum ekki honum svona einn tveir og þrír. Við erum heldur ekki tilbúin að gefa eftir okkar hugmyndir þótt hægt gangi. En við förum aðrar leiðir en þegar við vorum ung. Við skiljum vonandi eitthvað eftir hjá afkomendum okkar, einhverja þrá og þrjósku um betra líf.

Guðmundur skildi margt eftir hjá okkur. Hann er gott fordæmi fyrir okkur að mörgu leyti, ekki öllu. Við söknum hans. Hann var ekki fullkominn. Við erum það ekki heldur.Guðmundur Hallvarðsson 3

Lokadagurinn 

Reykurinn af glæðunum

morgnar pokarnir skórnir nestið

enn er lagt af stað seinasti

áfanginn reykurinn sem líður

upp í loftið svo mjúkt svo þýtt

 

seinasti dagurinn jökullinn kastar

kuldagjólu niður heiðina árnar

hjartakaldar og stingandi reykurinn

röðin seiglast upp skarðið grjótríkið

steinaveldið um kvöldið mannaríki

mannalíf pizzur orlý túborg spánarvín

reykurinn af glæðunum glæðum

minninga glæðum trega gnúpurinn

tignarlegur heilagur brimið svo eilíft

óhagganlegt jökullinn svo beinhvítur

lokadagur  reykur glæður sviði augu

lokadagur þau lokast

 

Erling Ólafsson

1,399