trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 19/01/2016

Draumurinn um Þorstein Má

Eftir Margréti KristmannsdótturMargrét Kristmannsdóttir

Við viljum trúa því að hér á landi ríki jöfnuður – að við búum við sömu tækifæri og að mörgu leyti er það rétt.  En hins vegar er ljóst að sumir eru jafnari en aðrir því að á meðan heimilum og langflestum fyrirtækjum á landinu er gert að greiða óheyrilega háan fjármagnskostnað búa aðrir við allt aðra og mun betri stöðu.

Til að taka erlent lán og njóta eðlilegs vaxtaumhverfis þurfa tekjur fyrirtækja að vera að mestu í erlendri mynt.  Það á einkum við fyrirtæki í útgerð, orkusölu eða farþegaflutningum svo dæmi séu tekin.   Fæstum fyrirtækjum stendur hins vegar til boða að taka erlend lán og verða að taka lán í íslenskum krónum.   Þegar þessir tveir ólíku vaxtaheimar eru settir í excel birtist hrópandi ósanngirni og ekki frá því að eitt andartak blóti maður því að vera bundinn á klafa „stöðugasta og sterkasta gjaldmiðils í heimi“.

En nú berast fréttir af því að til standi að rýmka þær reglur sem fyrirtæki og einstaklingar þurfi að uppfylla til að fá erlend lán.  Það þarf hins vegar ekki að lesa lengi til að átta sig á því að reglurnar eru það þröngar að þær munu litlu breyta.  Ljóst er að kröfurnar eru þannig útfærðar að venjulegur Íslendingur þarf að eiga töluvert undir sér til að komast í gegnum það nálarauga.

En því er ekki að neita að þessar reglur eru skynsamar enda flestum enn í fersku minni sá skaði sem erlend lán ollu heimilum og fyrirtækjum þegar krónan hrundi 2008.  Það breytir hins vegar ekki því að við viljum öll komast í vaxtaumhverfi sem við sjáum að sumir njóta hér á landi og bjóðast í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við.

Að lifa að mestu utan krónuhagkerfisins eru mikil forréttindi sem fáir njóta og áhyggjur af íþyngjandi vaxtagreiðslum eru vart að halda fyrir þeim vöku.  Það hendir mig því stundum eins og væntanlega aðra að ég læt mig dreyma um að tilheyra þessum forréttindahópi. Þetta gerist einkum þegar ég ligg andvaka og er ég svíf stundum inn í draumaheiminn hefur það gerst að ég óski mér að vera Þorsteinn Már.  Fram til þessa hefur sú ósk hins vegar bráð af mér þegar ég vakna.

En draumurinn um að lifa og taka lán í lágvaxta gjaldmiðli án verðtryggingar lifir hins vegar góðu lífi.  Handa okkur öllum – ekki bara sumum.   Við viljum einfaldlega gjaldmiðil og vaxtakjör sem venjuleg heimili og fyrirtæki standa undir.  Þjóðaratkvæðagreiðsla um afnám verðtryggingar mun því miður engu breyta um ofurvexti á óverðtryggðum lánum sem verður þá eini valkosturinn.  Þeir vextir eru í dag um 8% á meðan þeir eru um 2% í nágrannalöndunum.

Án verðtryggingarinnar verður  vaxtamunurinn hins vegar öllum ljós – krónan verður þá í nýju fötum keisarans.   Hún verður berrössuð, berskjölduð og áfram rándýr.

Margrét Kristmannsdóttir, Hringbraut, 18. janúar 2016

1,390