Draumar og tragedíur. Fróðlegt og vel skrifað stórvirki
Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Ég hef verið að lesa undanfarið bók Kjartans Ólafssonar, „Draumar og veruleiki“ um sögu íslenskra kommúnista og flokkanna sem til urðu upp úr hreyfingu þeirra, og nær sagan til þess er Alþýðubandalagið var stofnað, þó einstökum mönnum og köflum sé fylgt lengra. Þessi bók er mikið stórvirki og vitnar um dæmafáa elju – en líka það sem meira er um vert: prinsipp sagnaritarans sem hefur í heiðri reglu Voltaires sem einhverju sinni var orðuð svo: Maður skuldar þeim sem lifa virðingu, en sannleikann einan hinum látnu.
Sjálfur er Kjartan næstum í svipuðum sporum og Sturla Þórðarson í Íslendinga sögu: sagnaritari sem sjálfur var þátttakandi í þeim atburðum sem hann segir frá. Hann er því ekki hlutlaus og læst ekki vera það, en hann leitast við að sýna sanngirni, líka þeim sem hann hefur ekki átt skap saman við – hann tekur það beinlínis fram þegar svo hefur háttað en reynir alltaf að láta menn njóta sannmælis og skilja hvað þeim gekk til. Hann lýsir atvikum þar sem menn missa stjórn á sér, gerðum manna sem þeir hefðu síður viljað að kæmust í hámæli, sýnir menn í sigrum sínum og ósigrum, en kannski er þetta fyrst og fremst saga um menn á valdi hugmynda.
Hann byrjar verkið á því að lýsa mjög vel hugmyndafræði marxismans og hvernig hin trúarlega nauðhyggja um óhjákvæmlega sögulega framvindu sem þar er innbyggð knúði áfram hugsjónamóð þessara manna – sumir kynnu að segja ofstækið. Hann lýsir líka þeirri óbærilegu fátækt sem ríkti hér víða og þessir menn töldu að væri ekki náttúrulögmál heldur þvert á móti hnigju öll vísindaleg rök til þess að hana mætti og yrði að uppræta með skynsamlegu skipulagi.
Þarna eru af næmi raktar örlagasögur manna eins og Kristins E. og Þóru og Sigfúsar Daðasonar, Einars Olgeirssonar, Brynjólfs Bjarnasonar, Magnúsar Kjartanssonar og fleiri; þarna eru ótal aðrar mannlýsingar og maður verður margs vísari um þessa hreyfingu og þetta fólk.
Stóra tragedían þarna er auðvitað takmarkalaus fylgispekt þessara manna við Sovétríkin löngu eftir að þeir eru sjálfir orðnir lýðræðissinnar og fráhverfir lenínisma; þá láta þeir afstöðuna til þessa einræðisríkis kljúfa íslenska sósíalista og dreifa kröftum þeirra svo að íslenskt samfélag sýpur enn seyðið af þessum eindregna sundrungarvilja; og er enn til fólk sem lítur svo á að íslenskir jafnaðarmenn eigi helst að starfa í sem allra flestum sérfylkingum í stað þess að stilla saman strengi sína.
Þessi frámunalega Moskvuhollusta verður ekki skilin öðru vísi en með því að líta á hana sem trúarbrögð sem engin skynsemisglóra fékk lýst upp. Hún ríkti furðu lengi hjá furðulegustu mönnum, ekki bara Kristni E. sem gekk með betlistaf milli Kommúnistaflokka Austur-Evrópu heldur líka Inga R., helsta fjármálasérfræðingi flokksins og sjálfum Lúðvík, sem var fjarri því að vera kommúnisti en sá í Rússum tækifæri til að spila á stórveldin í sjálfstæðisbaráttunni. Sjálfur kynntist ég gömlum og sovéthollum mönnum í nágrenni mínu sem töluðu um „þvottabirni“ og vitnuðu í Þórberg í tíma og ótíma: „Ég er orðinn hundleiður á þessum Soltsénítsín og þessum eilífa rógi um Stalín“. (Ég skrifaði raunar skáldsögu fyrir mörgum árum um þetta sálarástand, sem hét Náðarkraftur, og vart mátti á milli sjá hvorum þótti verri, kommunum eða atvinnu-andkommúnistunum.)
Tragedían kristallast í vináttu þeirra Einars Olgeirssonar og Stefáns Pjeturssonar, sem lengi fylgdust að í þessari hreyfingu og áttu samleið gegn stalínískum ofstækisöflum innan hreyfingarinnar. Stefán var svo kvaddur til Moskvu í endurhæfingu þaðan sem hann átti fótum fjör að launa og gerðist eftir það einn eindregnasti andkommúnisti kratanna en Einar forhertist í stuðningi sínum við kúgun og alræði.
Einar var lýðræðissinnaður sósíalisti. Hefðu kratarnir nú aðeins borið gæfu til að nýta sér forystuhæfileika og persónutöfra Einars Olgeirssonar meðan enn var færð á vegum og áður en aurskriðum Kalda stríðsins lokuðu öllum leiðum – þá hefði margt þróast á annan og betri veg í okkar samfélagi …
Einar lifði svo að horfa upp á algera niðurlægingu og hrun þessa kerfis og hefur Kjartan eftir honum orðin: „Og á þetta trúði maður …“ Sjálfur upplifði ég það á fyrstu dögum mínum sem ritstjóri TMM – hálfgerður unglingur árið 1987 – að Einar Olgeirsson hringdi til mín og vildi að við stilltum saman strengi hjá TMM og Rétti sem hann hélt þá enn úti. Ég hummaði það fram af mér …
Í ritinu er töluverð bókmenntasaga – enda bjó þessi hreyfing yfir umtalsverðu menningarlegu auðmagni. Kjartan rekur af skilningi og nærfærni sögu sem ég þekki úr föðurhúsum: Hvernig Birtingsmenn voru sjálfstæðir sósíalistar sem fordæmdu Sovét-alræðið en töldu tjáningar- og skoðanafrelsi frumforsendu sósíalismans; mér þótti heldur leiðinlegt að sjá hvernig Sigfús Daðason hefur skrifað um þá viðleitni í bréfi til fóstra síns Kristins E. í tengslum við innrás Sovétmanna í Ungó, og lágkúruleg er glósa Sigfúsar um föður minn og meinta stéttarstöðu hans – og virðist Daðason ekki hafa endurgoldið aðdáun Thors, sem sagði mér að hann hefði stundað það í París að lesa upphátt ljóð Sigfúsar með sjálfum sér, svo hrifinn var hann af Sigfúsi sem skáldi. Maklega. En Thor gat nú svo sem farið í taugarnar á mönnum. Það sem svo kannski flækir málið er að bækur Thors komu út hjá Máli og menningu um hríð og gott var á milli hans og Kristins E. – um hríð.
Hitt er svo annað að þótt Sigfús væri kannski eitt besta skáld sinnar kynslóðar og einstakur esseyisti þá voru honum mislagðar hendur sem útgefanda. Frásögnin af viðskilnaði hans við Mál og menningu er ekki alveg nákvæm, því að vitað er að Landsbankamenn komu að máli við Magnús Kjartansson og sögðu honum að innsiglað yrði hjá MM ef ekki yrði fenginn þar til verka rekstrarmaður við hlið Sigfúsar. Raunar var Sigfús með skringilegar hugmyndir um verðug verk til útgáfu: hann hafnaði verkum Guðrúnar Helgadóttur sem fyrir vikið fór til Iðunnar og hann kom ekki auga á snilldarverkið Fátækt fólk sem leyndist á bak við mikið ættfræðirit hjá Tryggva Emilssyni …
Svona vakna nú ýmsir þankar við að lesa þetta mikla og vel skrifaða rit hans Kjartans Ólafssonar.
Guðmundur Andri Thorsson
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021