trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 03/07/2014

Don´t Look Back in Anger – af söknuði eftir nýjum tíma og gömlum

Eftir Karl Th. Birgisson

Starkville, Mississippi, um miðjan september 2013

Eina markverða frásögn seinni tíma af heimsókn til Starkville í Mississippi er lag Johnny Cash, Starkville City Jail. Hann söng þar um að vera stungið í fangelsi fyrir að tína blóm við þjóðveginn eftir lögboðinn útivistartíma.

Lítið lag og einfalt, og þó ekki. Það segir svo mikla sögu.

En þetta var einhvern tíma á sjötta áratugnum. Það var þá. Nú er allt breytt. Er það ekki annars?

Nú erum við stödd hér, haustið 2013.

———-

Starkville er smábær á amerískan mælikvarða. Háskólabær fyrst og fremst, en meðfram þjónusta við landbúnaðarhéruðin í kring.

Við höfum fengið okkur síðdegissnarl á einum af örfáum stöðum þar sem hægt er að kalla miðbæinn í Starkville.

Afar viðkunnanlegur ungur starfsmaður á skjalasafni Grants Bandaríkjaforseta hafði sagt mér að hér, á Bin 612, væri hægt að fá „lókal“ mat, annað en keðjumatinn sem tók alls staðar á móti okkur við þjóðveginn.

Þetta reyndist ekki vera alveg nákvæm lýsing — það var hreint ekkert Suðurríkjalegt við matseðilinn.

Hann var samt frumlegur og skemmtilegur. Eða hvernig lízt okkur á þetta?

„Pulled drunken chicken tossed in Abita beer Cajun cream sauce over fettuccini pasta.“ Gaman, en ekki eftirminnilegt. Þetta var beisik pasta með kjúklingi og tilbehör.

Á þessum föstudagseftirmiðdegi var þarna samt fullt af fólki. Að vísu ekki margt „lókal“ fólk, en fjölmargir stúdentar komnir í helgarfrí.

Fylkisháskólinn, Mississippi State University, er sumsé í Starkville og án hans og nemendanna væri fátt annað en hamborgarar og djúpsteiktur kjúklingur með frönskum borið fram í bænum. Eins og í plássunum í kring.

———-

Nú eru rétt um þrjátíu ár síðan ég hóf fyrst nám við bandarískan háskóla í viðlíka smábæ í Miðríkjunum. Það var dæmigerður „upper middle-class“ skóli, stúdentar undantekningalítið hvítir, af tiltölulega vel stæðu fólki, og fastir í gömlum hugsunum eftir því.

Blökkumenn voru kannske fimm, gyðingar engir, þó ein stúlka af kóresku bergi, sem fékk glitrandi hamingjublik í augun þegar ég gaf henni lopapeysuna mína eftir að ég hafði sett hana (peysuna, sumsé) í þvottavélina með nærfötunum.

Þetta var – vel að merkja – þá og í Miðríkjunum, ekki núna og hér í hinu dýpsta suðri Suðurríkjanna, Starkville.

Og það var eiginlega sjokkið núna á þessum annars viðkunnanlega veitingastað. Það hafði fjandakornið ekkert breytzt á þessum þrjátíu árum.

Anna Lilja kom orðum að kjarna málsins: „Það eru engar týpur hérna.“

Nákvæmlega rétt; það voru engar týpur. Strákarnir voru hvítir, stutthærðir og vel greiddir, nema einstaka úfinn nörd innan um, og stelpurnar allar síðhærðar og vel til hafðar. Það lá við að Anna þyrfti að hylja sitt róttæka stutta hár.

Sjálfur var ég í þunnum náttbuxum vegna hitans og fékk með augngotum afdráttarlaus áhorfendaverðlaun fyrir bjánalegustu múnderinguna.

En ég var hugsi. Hvar var eiginlega hin nútímalega Ameríka sem hafði kosið Obama tvisvar og mig langaði svo mikið að hitta? Og hvað með svertingjana? Nóg ætti að vera af þeim – við vorum nú einu sinni í Suðurríkjunum.

Í Mississippi State University er blökkufólk hærra hlutfall nemenda en í flestum öðrum alvöruháskólum Bandaríkjanna. Og MSU er alvöruháskóli með sautján þúsund nemendur og starfsfólk og alvörunám eftir því.

Hvar voru þeir nemendur í þessu föstudags- og helgarfríspartíi?

Hvergi sjáanlegir. Enginn. Zip.

Nema, jú, þegar leið á kvöldið komu tveir myndarlegir þeldökkir drengir og tóku sér stöðu við innganginn. Til að tékka á skilríkjum, svo að barþjónarnir þyrftu ekki að gera það jafnóðum. Þeir voru dyraverðir.

What the f**k? hugsaði ég. Allt er eins og einu sinni var. Það er eins og Reagan sé ennþá forseti. Eins og Obama hafi aldrei verið til.

„Sjáðu þarna niður frá,“ sagði Anna Lilja þá og benti í áttina að Starkville Cigar Lounge, smáverzlun neðar í götunni. Þar virtist fólk vera að bjástra með hljóðfæri, magnara og litla hátalara.

Núnú. Kannske var eitthvað skemmtilegra í vændum en eilífi, gamli tíminn í mannlífinu á Bin 612.

Loks kom reyndar ein týpa. Hann var um sjötugt, horaður, með grátt, kleprað hár niður á herðar og bakpokaskjatta á öxlinni. Skítugur í slitnum skópjötlum, en glaður og reistur. Í augunum var glampi þess sem gerir sér grein fyrir stöðu sinni í lífinu og óttast ekki dóma samferðafólks síns.

Barþjónarnir réttu honum umorðalaust einn Budweiser í flösku án þess að spyrja um greiðslu. Þeir kölluðu hann Mike.

Ég fékk í smástund trú á mannfólkið.

En þar með voru týpurnar upp taldar og frá vindlabúllunni var farinn að berast ómur af tónlist. „Kíkjum á þetta,“ sagði Anna Lilja og það þurfti ekki að segja tvisvar.

Þarna voru sumsé götutónleikar, í bókstaflegri merkingu. Stólar höfðu verið settir út á götu fyrir kannske tuttugu manns, í kring stóðu jafnmargir til viðbótar.

Uppi á pínulitlu sviði voru tvær stelpur, báðar með gítar, og sungu alls konar. Grateful Dead, Talking Heads, meira að segja Oasis. Brit pop var ekki það sem við höfðum átt von á að heyra úti á götu í Starkville.

Þær fluttu frumsamið efni meðfram og voru frábærar.

Þarna voru líka „týpur“ – strákar með sítt hár og stelpur klæddar eins þær vildu ekki vera með í þrjátíu ára gömlu leikriti.

Við ætluðum ekki að staldra lengi við, en þetta var svo óvænt og dásamleg uppákoma að við settumst um leið og tveir stólar losnuðu.

En það er stutt í gamla tímann.

Við hlið okkar sátu hjón, líklega um sextugt. Glaðleg og vingjarnleg.

Af ýmsum ástæðum var augljóst að við vorum ekki bæjarbúar, svo að á milli laga komu hinar óhjákvæmilegu spurningar:

„Hvaðan eruð þið? Og hvað eruð þið að gera hérna?“

„Við erum bara í stuttri heimsókn.“

Sú yfirlýsing dugði ekki alveg fyrir þessa nýju vini okkar. Það kemur ekkert útlenzkt par til Starkville í Mississippi í stutta skemmtiheimsókn bara svona afþvíbara.

Ég varð að útskýra málið frekar: „Ég er að rannsaka gleymt sögubrot þar sem Grant forseti á svolítinn hlut að máli. Ég hef verið að lesa bréf sem eru geymd í skjalasafni forsetans hér.“

Sem var satt. Öll skjöl Grants forseta eru varðveitt í háskólanum hér. Nema hvað það er soldið flókin sambúð. Og nú þarf líklega samhengi.

———-

Suðurríkin verða varla dýpri en Starkville. Og Grant var ekki bara forseti Bandaríkjanna, heldur skömmu þar áður sigursælasti hershöfðinginn í liði Norðanmanna í borgarastyrjöldinni upp úr miðri 19. öld og yfirhershöfðingi áður en yfir lauk.

Ulysses S. GrantÞann titil hafði enginn borið síðan sjálfur George Washington var á dögum.

Hersigrar Grants og orðspor urðu til þess að hann var nánast sjálfkjörinn í næstu forsetakosningum, að Abraham Lincoln föllnum fyrir morðingjahendi. Hann var forseti í átta ár, erfiðasta endurreisnartímann eftir stríðið.

En nú eru öll skjöl Grants semsagt komin hingað til Mississippi, þar sem Norðanmenn unnu suma sína blóðugustu sigra gegn Sunnanmönnum og þar sem grunnurinn að frama hans og forsetatíð var lagður.

Ég hafði hugsað mikið um þetta samhengi, skjalasafn Grants hér í hjarta óvinasvæðisins, en átti ekki von á viðbrögðunum sem ég fékk þegar ég lýsti svo sakleysislega tilgangi ferðarinnar.

Sessunautur minn var ekki mjög lipurlega vaxinn, en hann sneri hálsinum snöggt:

„Grant forseti? Þú meinar Grant hershöfðingi?“

Já, einmitt. Eða forsetinn. That´s the guy.

„Hann var aldrei forsetinn okkar hérna suður frá.“

Ég kinkaði bara kolli – stelpurnar voru byrjaðar á nýju lagi.

Var samt soldið stúmm, því að þessi þankagangur kom flatt upp á mig. Hver hugsar eiginlega svona árið 2013 um leið og hann klappar fyrir kvennadúett að spila stórkostlega akústík útgáfu af Burning Down the House?

———-

En hann var ekki hættur. Í ljós kom – óumspurt – að hann var líka mikill áhugamaður um bandaríska sögu.

Ég naut þess að hlusta á hann – Suðurríkjahreimurinn, „the drawl,“ var svo þykkur að það var hægt að strjúka honum eins og mjúku flaueli. Orðin runnu öll saman, en hann talaði samt svo hægt að hvert atkvæði fékk skýra merkingu.

„Ahh´ve´got a greaat colleeection of ´istorical books ´n´ dooocumints.“

Hann heitir George Hewlett – eða Hewlitt með hans framburði – og á ættir hingað allt aftur til upphafs átjándu aldar. Hann hefur verið í ýmsum rekstri, en nú einkum í fasteignum.

Og hann syrgir mjög afdrif mikils fjölskylduveldis.

Hewlett–familían hafði átt stóran hluta Oktibbehan-sýslunnar hér, en nú var sú Snorrabúð stekkur. Það er allt farið, sagði hann, fyrir utan svolítinn landskika hérna rétt austan við.

Ég stillti mig um að benda á, að nafn sýslunnar merkti „blóðlitað vatn“ á indjánamáli og að kannske hefðu aðrir „átt“ landið fyrrum. Þetta var hvorki staður né stund fyrir slíkar athugasemdir.

Hann rakti fyrir mér raunasögu fjölskyldunnar og kjarni hennar var einfaldur: „Við höfum misst allt, ég er bara nóboddí og á ekki neitt. Einu sinni voru Hewlett-menn mikils metnir hér í sýslunni.“

Þau hjónin litu reyndar ekki út fyrir að vera á horriminni, en ég kinkaði bara kolli. Maður reynir að vera sæmilega kurteis í útlöndum.

„Ya know Jahn Grissem?“

Já, ég vissi eins og flestir hver John Grisham rithöfundur er, og vissi líka að hann er einn fárra „frægra“ sem Starkville getur kallað sína. Hann er að uppruna Suðurríkjamaður, átti lengi heima í Mississippi og útskrifaðist frá MSU hér í Starkville á sínum tíma.

George sagði mér stoltur að Grisham hefði keypt hluta af landi fjölskyldunnar og ætti þar nú hús.

„Ya´ll hearda Hewlitt-Packerd?“ Jú, víst vissi ég líka hvað Hewlett-Packard var.

„Same faamly. Sevinth cousin.“ Með fylgdi upphafið að lýsingunni á því hvernig Packard hafði farið illa með Hewlett frænda. Stelpurnar með gítarana á sviðinu trufluðu frásögnina. Þær voru farnar að spila Grateful Dead.

Í næstu stuttu pásu sagði George mér að eitt sögulegt skjal ætti hann í fórum sínum, sem honum þætti vænna um en nokkurt annað í safninu.

Það var sko ekki ómerkilegur pappír, heldur afsalið fyrir þrælunum sem „ma grit-grit-granfatha was forced to saiign afta we lost tha Civil Waa“ – eftir að Suðurríkin töpuðu borgarastyrjöldinni og þrælunum var gefið frelsi.

Afsalsbréfið fyrir þrælunum. Í þetta sinn var ég sammála mínum ágæta sessunauti. Atarna var sannarlega sögulegt skjal, sem þyrfti að geyma og hugsa vel um í tvennum skilningi orðanna.

Auðvitað var ýmislegt við tungutak George að athuga: Til dæmis að forfaðir hans hefði verið „neyddur til að skrifa undir“ skjalið eftir stríðið og frelsa þrælana. Þjóðverjar voru líka neyddir til að opna útrýmingarbúðirnar í stríðslok og hleypa lifendum út.

En ég nefndi það ekki við George. Þetta var ekki þannig stund. Í svip hans og mæli var heldur hvergi að merkja rasisma, einungis næstum barnslegan söknuð eftir tíma sem í hans huga var glæstari og betri. Í það minnsta fyrir fjölskylduarfinn og hans eigin sjálfsmynd.

Þá rann upp fyrir mér að við George áttum eitt sameiginlegt, þótt með ólíkum hætti væri: Söknuð. Hann saknaði gamalla tíma. Ég saknaði nýrra tíma.

Kannske þess vegna náðum við svona dável saman. Og kannske þess vegna varð stundin svona eftirminnileg.Starkville Cigar Lounge

———-

Við Anna Lilja stóðum upp, þökkuðum fyrir samveruna og óvænt kynni, og kvöddum Hewlett-hjónin með hlýju.

Ég lofaði að fylgjast með því hvenær nýjasta bók Grishams kæmi út. Og að hafa samband þegar ég kæmi aftur til Starkville.

Við röltum af stað, himinlifandi að hafa fundið þessa fallegu kvöldstund, en stoppuðum svo snöggt til að hlusta þegar stelpurnar á sviðinu slógu í eitt lokalag með Oasis:

Don´t Look Back in Anger.

Stundum – en bara stundum – er hægt að koma fyrir mikilli merkingu í einu litlu lagi.

Það tókst Johnny Cash á sínum tíma með Starkville City Jail.

Hinir brezku Gallagher-bræður höfðu gert það líka núna. Með alveg óvart kveðju til George Hewlett, góðlegs fasteignabraskara með langa fjölskyldusögu í Starkville, Mississippi.

1,403