trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 14/11/2016

Cohen. Stefán Máni. Myrkur. Rigning. Dimmur dagur. Þannig dagur. Þannig lag. Og þannig bók.

Ritdómur – Þóra Hallgrímsdóttir skrifar

Stefán Mánistefan-mani-cohen

Svarti galdur (Sögur 2016)

You want it darker
We kill the flame

Þetta stef með röddu Leonards Cohens er í lagi af samnefndri plötu, You want it darker, sem kom út rétt fyrir andlát hans. Hann hljómar um margt eins og hann sé æðstiprestur í svartagaldurssöfnuði og í bárujárnsklæddu timburhúsi í vesturbæ Reykjavíkur spilar húsráðandi þetta lag hvað eftir annað. Þetta er þannig lag. Það er rigning. Það er myrkur. Það er laugardagur. Dagur sem er á einhvern hátt svartur. Þetta er Black Sabbath.

Bókarkápa nýjustu bókar Stefáns Mána, Svarta galdurs, er viðeigandi þegar hún liggur á appelsínugulu eldhúsborði í sama bárujárnsklædda timburhúsinu. Kápan er svört, eins og biblía. Gylltir stafir. Öfugur kross. Fá orð. Blaðsíðuhliðarnar rauðar. Leðurklædd. Sá svarti galdur sem er yrkisefni Stefáns Mána er að miklu leyti trúarbrögð. Með áherslu á orðið brögð. Það vantaði bara, þetta laugardagskvöld, að Cohen kæmi gangandi í svörtum kufli, settist við eldhúsborðið, tæki sér bókina í hönd og segði húsráðandanum, með æðstaprestsröddinni sinni, að hún ætti ganga hinu dekkra á hönd. Húsráðandinn er náttúrulega ég sjálf. Þið voruð kannski búin að fatta það. Þessi svarti galdur var strax búinn að ná einhverjum tökum á mér.

Ég verð að viðurkenna strax að ég hef ekki lesið fyrri bækur Stefáns Mána um Hörð Grímsson. Rauðhærða risann, lögreglumanninn sem er aðalsögupersóna þessarar bókar. Ég grennslaðist aðeins fyrir um Hörð og gat ekki betur séð en að hann kæmi fyrst fyrir, án þess að vera þar aðalpersóna, í bókinni Hyldýpi sem kom út árið 2009. Auk þess er hann aðalmaðurinn í bókunum Húsið, Grimmd og Feigð sem hafa komið út ásamt öðrum bókum Stefáns Mána síðustu ár. Hvílík afköst.

Í Svarta galdri er fjallað um fyrstu skref Harðar á þeirri braut lögreglustarfa. Vissulega orðinn lögreglumaður, en að stíga sín fyrstu skref í rannsóknum lögreglumála. Hún virðist því gerast fyrr í tíma en Húsið, Grimmd og Feigð. Kannski var það einhvers konar galdur að vera að lesa þessa bók um Hörð fyrst, en ekki hinar. Sérstaklega fyrir konu sem spænir upp línulegar sögur með lógískum framgangi eins og hún sé að að hlaupa grindahlaup. Þar sem grindur eru settar upp í röð og hver þeirra í nákvæmri fjarlægð frá þeirri næstu. Þú verður að hlaupa yfir þá fyrstu til að komast að þeirri næstu og í markinu skilur þú svo loksins allt. Þessi tímagaldur hentaði þessari konu.

Þessi kona hefur mögulega sérstaka ánægju af því að finna lógískar línur lífsins í ofurraunsæisheimi. En hún er forvitin um aðrar víddir, hið myrka og ókunna, það sem augað ekki nemur og það sem hugur getur ekki skýrt. Það var því með nokkurri forvitni sem hún byrjaði að lesa þessa bók Stefáns Mána sem er glæpasaga sem fer langt út yfir mörk hins ofurraunsæja. Við kynnumst sálförum og dáleiðslu, viljaleysi og völdum.

Eins og segir á bakhlið bókarinnar þá hefst hún með því að alþingismaður er stunginn til bana á Austurvelli. Það verður að viðurkennast að það kitlaði lögfræðinginn aðeins að sjá hvernig Stefán Máni gat búið til plott sem fer inn á þrígreiningu ríkisvalds og hugmyndafræði stjórnleysis. Það gerir bókina fyllri, pólitískari og áhugaverðari en ella. Það bætir auðvitað að einhverju leyti blaðsíðum við hana líka. Höfundurinn hefur nefnilega mikið að segja og hann velur sér ekki endilega fá orð til að segja það sem hann þarf að segja. Hann útskýrir nákvæmlega aðstæður og hugmyndir. Stundum svo nákvæmlega að maður er kominn inn í aðstæðurnar, stundum svo nákvæmlega að maður missir þráðinn. Hvort um sig er þó þannig að vinnusemi höfundarins, sem felst í því að búa til hinar ýmsu hliðar sögusviðsins, er sýnileg. Hún sýnir óstjórnlegan áhuga höfundar á því að upplýsa lesandann. Að vera upplýsandi án þess að predika, frásagnargleðin, þótt hún sé bundin svörtum lit, er skær.

svarti-galdurÉg vil ekki upplýsa of mikið meira um sjálfan söguþráðinn, ég er nákvæmlega það sjálfhverf að ég er bara að skrifa um mín eigin hughrif. Auk þess er þetta glæpasaga sem ég vil ekki eyðileggja fyrir ykkur með því að rekja hver gerir hvað, þannig að plottið upplýsist fyrirfram. Það er ekki mitt að gera það. Sagan segir það sjálf. Hún gerir það nefnilega vel og hugmyndir um vald og stjórnleysi, sálfarir og dáleiðslu fléttast saman í margar grindur sem Stefán Máni stekkur fumlaust yfir. Hann er stundum aðeins lengur yfir þær en aðrir væru því hann þarf að útskýra nákvæmlega hvernig hann stekkur og hvað hann sér á leiðinni. Auk þess sem þessi síði leðurfrakki tekur náttúrulega aðeins til sín í stökkunum. Hann leiðir lesandann þó í stökkin yfir hverja grind á fætur annarri, örugglega og af krafti.

Þessi glæpasaga er óhefðbundin að nokkru leyti en hefðbundin að því leyti að aðalsögupersónan, lögreglumaðurinn Hörður, er aðeins utangarðs, hann er breyskur og hann er svo óöruggur stundum að mig langar til að öskra á hann. Síðan er hann svo líka svo skiljanlegur í þögninni sinni, einverunni og fjarrænunni. Stóra þögla týpan sem dreymir þannig að hann sé sögupersóna í vestra. Ég skil þá týpu eins og ég get verið reið þegar hún gerir ekki það sem ég vil að hún geri.

Mér fannst Stefáni Mána á margan hátt takast vel upp með persónusköpun Harðar í þessari bók, þó ég verði auðvitað að hafa þann fyrirvara að ég hef ekki lesið hinar, ennþá. Hughrifin voru þau að mig langaði að öskra á þessa ofboðslegu mennsku sem kristallast í lýsingum á hugsunum Harðar. Mennskunni sem er sjálfhverfan sem við mannfólkið verðum stundum svo upptekin af, þessir litlu hlutir sem gerast í heilanum á okkur og hafa engar lógískar skýringar. Hvers vegna við erum óörugg gagnvart öðru fólki, hvers vegna við getum ekki bara sagt það sem okkur finnst því við viljum ekki að fólkið, sem heyrir það sem við segjum, vísi okkur á bug. Því það er okkar einkaréttur; að vísa okkur sjálfum á bug. Það finnst mér Stefán Máni ná ágætlega að fanga í breysku Harðar. Þennan einkarétt sem Hörður vill hafa á sér. Sumpart finnst manni hann eiga þann rétt vegna erfiðrar reynslu í fortíðinni (já hún er þarna) en kannski er hann bara eins margir aðrir sem bæði treysta sér sjálfum best til að sjá um sig sjálfa. En líka verst. Mennskan sem felur í sér að vera í senn sinn besti vinur og sinn eigin versti óvinur. Þegar við fáum að skyggnast aðeins inn í hugmyndir Harðar í samtali við Bíbí, eina af fáum kvenpersónum bókarinnar, fannst mér eins og höfundurinn væri að koma einhverju á framfæri sem hann hefði mikið hugsað um.

Þóra HallgrímsdóttirAð einhverju leyti má þó segja að Hörður sé líka klisjuleg mannpersóna í glæpasögu þegar hann opnar sig síðan í fyrsta skipti fyrir konunni sem hann er skotinn í. Klisjukenndur draumur margra kvenna, að hinn sterki, þögli brotni hjá þeim. Bara hjá þeim. Takk fyrir að viðhalda því Stefán Máni. Broskall.

Dulræni hluti sögunnar finnst mér nokkuð vel útfærður í bókinni þó ég sé reyndar enginn sérfræðingur í slíkum fræðum. Hann er vel útfærður hvað það varðar að hann myndaði einhvern veginn þá stemningu í huganum á mér að ég varð skelkuð. Það sem meira er: Ég fann í fyrsta skipti á ævinni áþreifanlega fyrir orðasambandinu að renna kalt vatn milli skinns og hörunds.

Það er nefnilega það sem gerðist þegar rigningin lamdi bárujárnsklædda timburhúsið mitt, síðustu tónar Cohen þögnuðu og ég var í miðjum kaflanum um Svarta galdur á bls. 293 þetta svarta laugardagskvöld. Alein. Ég raunverulega fann fyrir þessu sem ég hef aldrei alveg skilið í þessu orðasambandi, þið vitið, kalda vatnið, skinnið og hörundið og allt það. Ég vildi gjarnan geta sagt að ég gæti sannað það sem ég fann.

Eins mikið og ég vildi geta sannað að rétt eftir að ég fór að leika mér með orðin svartur laugardagur í hausnum á mér þá fór Hörður Grímsson að hlusta á Black Sabbath. Eins og hann væri að hæðast að mér vegna þessa asnalega orðaleikjar sem ég bjó til þegar ég byrjaði að lesa söguna. Ég get ekki skýrt þetta betur. Það eina sem þið hafið í stöðunni er að trúa mér. Eins og við verðum að trúa brögðum Stefáns Mána í Svarta galdri. Þau draga upp skuggamyndir, ólíkindaaðstæður og kringumstæður sem við viljum almennt ekki viðurkenna að geti verið til. Yfirráð yfir huga og hreyfingum fólks sem við viljum ekki að geti verið til. En er rétt að segja að slíkt geti ekki verið til? Bara vegna þess að við getum ekki sannað það með áþreifanlegum sönnunargögnum? Kalda vatnið sem hríslaðist um mig síðla kvölds við lestur Svarta galdurs fékk mig til að vera ekki viss um neitt. Já, svo varð ég reyndar líka alveg skíthrædd og ákvað að geyma bókina frammi á eldhúsborði á meðan ég reyndi að sofna í ómi rigningarinnar.

Síðustu blaðsíður bókarinnar lagði ég síðan ekki í að lesa fyrr en daginn eftir, í dagsbirtu, á kaffihúsi vestur í bæ, nálægt öðru fólki. Ég komst í mark yfir allar raunverulegar og svartar óraunverulegar grindur á góðum tíma og mig langar að lesa meira. Það er nefnilega fullt tungl.

Þóra Hallgrímsdóttir

1,262