Bútasaumsteppi eftir blindan mann
Allir vita að búningar skipta miklu máli í fótbolta og geta ráðið úrslitum um það hvernig stemning skapast innan liða og í kringum þau.
Sumir búningar eru fagurrauðir og eins og sérsniðnir til þess að sigra í þeim, aðrir eru beinlínis tilræði við augun, eins og varabúningur Liverpool í ár sem er eins og bútasaumsteppi eftir blindan mann, nú eða bleiku náttfötin sem Everton lék í á útivöllum um árið og grái skítagallinn sem United varð sér gjarnan til skammar í.
Margur ungur drengur hefur valið sér lið til að halda með vegna fegurðar búningsins en það fer ekki alltaf vel.
Frægt er dæmið af piltinum sem fór að halda með Huddersfield Town vegna þess að hann hafði aldrei augum litið fallegri flík en keppnistreyju þessa fornfræga liðs sem er langröndótt, blá og hvít. En Huddersfield hrapaði niður stigatöfluna, deild úr deild, enda er illmögulegt að spila góðan fótbolta í röndóttum treyjum.
Af því er dregin upphrópunin: Hver röndóttur!
Þeir eru margir glæsilegir fótboltabúningarnir en fegurstur þeirra allra er KA-búningurinn guli og blái. Hann er svo fallegur að mörg lið hafa reynt að stæla hann, til dæmis Arsenal og landslið Brasilíu og Svíþjóðar.
Þau spila samt ekki eins og KA, það þarf meira til.
Hvergi í gervöllum fótboltaheiminum hefur tískuvitundin þó risið hærra en hjá Doncaster Rovers. Það var árið 1879, á fyrsta keppnistímabili liðsins. Þeir spiluðu með bláar húfur með rauðum dúski.
Það mættu fótboltalið nútímans, til dæmis gjarnan taka sér til fyrirmyndar. Einkum þegar fátt annað er til að gleðja augu áhorfenda.
- Klefinn hér og þar - 23/01/2016
- Selja Árna Pál. Ókei þá: Gefa hann - 03/01/2016
- 176 sentimetrar af hreinum hæfileikum - 13/06/2015