trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 14/12/2016

Brúnegg sálarinnar

Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða. En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ (Mrk 13.31-37)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Af umræðunni á samfélagsmiðlum að dæma nú í þessari viku, að minnsta kosti af stöðuuppfærslum þeirra sem ég hef valið að að vera umkringdur af á þeim vettvangi, mætti ætla að þjóðin lifði nánast einvörðungu á hænsnaeggjum og að öllum þessum gríðarlegu viðskiptum verði í framtíðinni svo sannarlega beint annað en þeim hefur verið beint til þessa í ljósi nýrra afhjúpana um blekkingar og dýraníð hjá íslensku eggjabúi.egg

Auðvitað er gott eitt um það að segja.

Þetta er mikið til sama fólkið og sór þess dýran eið á þessum sama vettvangi ekki alls fyrir löngu að versla aldrei framar við Ölgerðina eftir að í ljós kom að þar hafði iðnaðarsalt verið selt til matvælaframleiðslu í rúman áratug án þess að það væri gert heyrinkunnugt. Auðvitað hvarflar ekki að mér að þetta fólk kynni nú samt að drekka malt og appelsín um jólin þrátt fyrir eldheitar yfirlýsingar um annað.

Þetta sama fólk er auðvitað löngu hætt að kaupa nokkurn skapaðan hlut sem Mjólkursamsalan framleiðir í mótmælaskyni við ólögmæt bolabrögð fyrirtækisins við að hrekja smærri samkeppnisaðila af markaði þar sem það hefur frá upphafi vega haft ráðandi stöðu. Eftir yfirlýsingarnar í kjölfar þeirra afhjúpana grunar mig ekki einu sinni að þessir vinir mínir kynnu nú samt að freistast til að kaupa rjóma í möndlugrautinn sinn frá MS ef sama vara frá samkeppnisaðila er ekki í boði heldur neiti sér frekar um möndlugraut á jólunum.

Eða hvað?

Svik og prettir

Það er ekki ætlun mín að gera lítið úr þeim brotum sem eggjabúið Brúnegg hefur orðið uppvíst að. Þaðan af síður langar mig að láta eins og þær óafsakanlegu brotalamir, bæði á dýravernd og neytendavernd á Íslandi sem sú hryllingssaga öll sýnir, skipti engu máli. Og síst af öllu vil ég hæða viðleitni fólks til að vera meðvitaðir neytendur og sjálfur geri ég mitt besta til þess.

En mig langar að beina sjónum okkar að bræðinni sem umfjöllun Kastljóssins kallaði fram og hvaða brotalamir í okkur sjálfum hún afhjúpar.

Af hverju urðum við svona reið? Nú er ekki eins og við höfum upp til hópa staðið í þeirri trú að hvergi væri farið illa með hænur á Íslandi eða að íslenskir bisnesmenn væru upp til hópa flekklausir kórdrengir þegar kemur að viðskiptasiðferði.

Nei, við vorum svikin. Við settum traust okkar á eitthvað sem ekki var treystandi. Og þeir sem áttu að vera á vaktinni … að vaka yfir velferð okkar … brugðust skyldum sínum – sváfu á verðinum. Hvort það var vegna mannlegra mistaka, hreinræktaðrar spillingar eða ónýtra reglugerða um starfshætti þeirra er aukaatriði – í þessu samhengi.

Kjarni málsins er að um árabil voru okkur seld egg, sem framleidd voru með einbeittum og ítrekuðum brotum á dýraverndarlögum, á uppsprengdu verði vegna einhvers sem við héldum að væri opinber vottun um vistvæna framleiðsluhætti en var í raun aðeins merkingarlaust lógó sem rafgeymasýruframleiðendum hefði þess vegna verið heimilt að setja á sína vöru hefðu þeir haft hugmyndaflug til þess.

Það er sárt að vera svikinn svona. Enda láta viðbrögðin ekki á sér standa.

Sem betur fer virðist sem þessi ákveðni framleiðandi muni ekki komast upp með að treysta á gullfiskaminni Íslendinga, einfaldlega vegna þess að ólíklegt er við sjáum Brúnegg í mörgum verslunum í náinni framtíð. Siðleysið var slíkt að flestir smásalar hafa lýst því yfir að þeir hafi ekki geð í sér til að bjóða upp á þau í bráð.

En Mjólkursamsalan dælir enn út sinni framleiðslu og Egils malt og appelsín er enn blandan mín og blandan þín, hvað sem líður þrettán ára samfelldri sölu á iðnaðarsalti til matvælaframleiðslu.

Sofnuðum við kannski sjálf á verðinum?

Að halda vöku sinni

Skilaboð Jesú til okkar í dag eru þessi: „Vakið! Gætið yðar, vakið! Það segi ég öllum: Vakið!“

Það verður að segjast eins og er að þessi skilaboð eiga brýnt erindi til okkar í dag.

Það er erfitt að halda vöku sinni. Við erum verur vanans. Smám saman fer nýjabrumið af öllu. Það er auðvelt að svíða óréttlæti og fólska en svo verðum við ónæm fyrir því og hrökkvum í sama farið, gerum hlutina eins og við erum vön, hreiðrum um okkur í þægindarammanum okkar.

„Vakið!“ segir Jesús Kristur.

Við erum nefnilega ekki í mikilli hættu þegar við erum allsgáð og vakandi og með hugann við það sem við erum að gera. Það er þegar við erum hálfsofandi og með hugann annars staðar, að gera hlutina af gömlum vana – nánast á sjálfstýringu – sem slysin verða. Við vitum nefnilega aldrei fyrirfram hvenær við þurfum á árvekni okkar að halda. Ögurstundina sér enginn fyrir. Eða eins og Jesús orðar það í guðspjalli dagsins: „Þér vitið ekki nær tíminn er kominn.“

Vökum.

Að verða leiður á þessu

Um daginn átti ég spjall við mann sem deilir þeirri lífsreynslu með mér að hafa misst stjórn á lífi sínu og þurft að endurskoða viðhorf sín og gildismat til að öðlast frelsi frá áþján áfengisfíknar. Hann var með nokkurra mánaða reynslu af bataferlinu og leitaði því til mín sem manns með ellefu og hálfs árs reynslu af því í von um að ég gæti miðlað honum einhverju hjálplegu. Honum gekk allt í haginn, hann var heill og sannur í allri sinni viðleitni til að ná bata, var iðinn og duglegur og gerði allt rétt.

„Hvert er þá vandamálið?“ spurði ég.

„Ég kvíði því svo hvað gerist þegar ég verð leiður á þessu,“ var svarið.

Ég er þessum unga manni svo innilega þakklátur, því þótt svarið kæmi mér í svip á óvart þá rifjaði það skyndilega upp fyrir mér kvíða sem ég sjálfur var gagntekinn af fyrir ellefu og hálfu ári þegar mér gekk í fyrsta skipti í langan tíma allt í haginn: „Hvað gerist þegar ég verð leiður á þessu?“

Ef það er eitthvað sem alkóhólistinn þekkir þá er það nefnilega að halda ekki dampi. Nógu oft hefur hann svarið og sárt við lagt að snúa við blaðinu, að hafa stjórn á lífi sínu, að bæta sig … til þess eins að sjá allt fara í sama farið aftur – reyndar yfirleitt í aðeins verra far – eftir nokkra daga, vikur eða í besta falli mánuði. Alkóhólistinn er svo heima í vanlíðaninni og aumkvunarverðu niðurlægingunum sem fylgja neyslunni að þægindaramminn hans nær utan um það. Að allt gangi honum í hag, að vera edrú og með hlutina á hreinu, að vera að vinna ötult uppbyggingarstarf á lífi sínu og andlegri heilsu … er framandi fyrir honum og fyllir hann óöryggi og kvíða. Hann kann það ekki, hann þekkir ekki þessa líðan, hún er utan við þægindarammann hans. Eiginlega líður honum ekki vel nema honum líði illa því það er hans eðlilega ástand.

Að halda ekki dampi

Ég held að það að halda ekki dampi sé ekki sérstakur alkóhólískur eiginleiki heldur sammannlegur veikleiki. Munurinn er kannski fyrst og fremst í því fólginn hvað þægindarammi alkóhólistans er orðinn sjúkur. Þannig verða það ekki upp til hópa alkóhólistar sem kaupa sér árskort á líkamsræktarstöð í byrjun janúar næstkomandi og hætta að nota þau um mánaðamótin janúar febrúar. Það er allt heilbrigða fólkið sem gerir það.

En  hvernig fer maður að því að halda dampi? Hvernig fer maður að því að verða ekki „leiður á þessu“? Að halda vöku sinni.

Ég get aðeins svarað því fyrir sjálfan mig að mín leið var í gegnum trúna. Að játa Jesú Krist sem leiðtoga lífs míns og taka þá ákvörðun að leitast við að láta líf mitt og vilja lúta handleiðslu Guðs eins og ég er fær um að skilja hann. Takið eftir því að ég segi ekki „að láta“ heldur „að leitast við að láta“. Í mínu tilviki nægði einlæg viðleitni, sem oft var bágborin, ásamt því að leitast við að viðurkenna það sem út af bar undanbragðalaust.

Kannski dugar einhver önnur trú, til dæmis trúin á málstaðinn, á markmiðið eða á árangurinn.

Súrsaðir hrútspungar eða brún egg?

Í Ofvitanum segir Þórbergur Þórðarson eitthvað á þá leið að hugsanir séu „súrsaðir hrútspungar sálarinnar“. Af líkingunni má ráða að Þórbergi hafi þótt súrsaðir hrútspungar mikill herramannsmatur því hugsanir hans voru háleitar og snerust um menningu, skáldskap og listir, eilífðarmálin og æðstu rök tilverunnar.

Þessi prédikun er ekki um súrsaða hrútspunga sálarinnar. Og hún er ekki heldur um Brúnegg. En kannski er hún um eitthvað sem við getum kallað „brúnegg sálarinnar“.

Hvenær eru hugsanir okkar og gjörðir því marki brenndar að það sem stendur á umbúðunum er ekki í nokkru samræmi við innihaldið? Hvenær gerist það að við leggjum af stað full fagurra fyrirheita um góðan aðbúnað og vistvæna hætti en missum einbeitinguna á leiðinni – eða trúna – og látum sinnuleysið og letina; þægindin – ef ekki beinlínis gróðafíkninina – blása öllum fögru fyrirætlununum út úr hausnum á okkur með þeim afleiðingum að ekkert er eftir nema merkingarlaust lógó, klisjur án innihalds og slagorð sem ekkert er á bakvið? Hvenær erum við sjálf að reiða fram brúnegg sálarinnar?

„Vakið!“ segir Jesús Kristur við okkur í dag. Og við skulum hlýða því kalli.

Annars er hætt við að innihaldslýsing okkar sjálfra verði ekkert annað en svikið loforð.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

———-

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 4. 12. 2016

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,397