trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 22/06/2017

Brestir

Hún var skammvinn ánægjan sem vaknaði vegna hugmynda ASÍ og VS um það hvernig vinna mætti bug á kennitöluflakki. Nú er ljóst að til þess að fjármálaráðherra fáist til þess að setja það skammrif í lög mun böggull fylgja. Hann er sá, að landsmenn allir gerist áskrifendur að viðskiptakortum og hætti að mestu að nota peninga; efli þannig þegar vænan gróða kortafyrirtækja á kostnað almennings. Að sjálfsögðu.

Þegar ánægjan leið útaf vaknaði vonarneisti; ríkisstjórnin gæti verið að liðast í sundur vegna ósamkomulags. Þingmenn stjórnarflokkanna hafa, sumir hverjir, lýst sig andvíga hugmyndum fjármálaráðherra um afnám peninga. Reyndar eru ráðherrar líka ósammála, að vísu um annað mál; sveitastjórnaráðherrann vill byggja nýja flugstöð á Reykjavíkurflugvelli til þess að viðhalda illdeilum um framtíð hans, en sjávarútvegsráðherrann telur það óráð, tíma- og peningasóun. Þetta, og ýmislegt annað smálegt. bendir til þess að komnir séu brestir í stjórnarsamstarfið. Ráðherrar tala ekki við þingmenn sína áður en þeir gefa út digurbarkalegar yfirlýsingar, hringja ekki í þá, halda ekki fundi með þeim. Og ráðherrar tala ekki hver við annan áður en þeir ríða á vað sem reynast kann ófært þegar út í er komið.

En ef til vill var vonarneistinn um að stjórnin sé að geispa golunni útafdauður um leið og hann vaknaði. Ráðherrar hafa áður vaðið fram undir háværum mótmæli sinna eign manna, en hafa svo koðnað niður þegar herrar þeirra reiða upp keyrin. Þeir mega ekki vera á móti. Þá þornar límið í stjórnarbúknum og limirnir brotna af. Það vilja forréttindamennirnir ekki, þeir sem borgað hafa sætin sem margir þingmenn sitja í. En samt. Það kostar hvorki krónu né kort að vona.

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,353