trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 27/12/2015

Bréf til Jónasar

Heill sértu, ævinlega elskaði og í hvívetna elskulegi, Jónas.Egill Ólafsson

Nú vildi ég geta sent þér óslitinn lafafrakka og ljósan jakka af flóneli, sem hvoru tveggja eru flíkur mér of naumar. Ég held þig geta notað þessar eðaldulur, þykist vita að þær passi þínum vexti. Þú gætir þá setið, loksins, fyrir og látið mynda þig.

Þannig fengjum við séð þitt fríða og skáldlega andlit óuppdiktað.

En ég er ekki Finnur og því síður kær Konráð eða Tómas (Tumi) og því veit ég ekki hvort þú getur eða vilt með nokkru móti meðtaka gjöf frá manni sem þú þekkir ekkert til. En engu að síður set ég þetta í póst, svo þú ættir að fá þetta í hendur með fyrstu skipum héðan, ef pósturinn leyfir.

Héðan er fátt eitt í fréttum, en þó er það af málfari að segja, að unga fallega þulan; sem hefur kastljós fjölmiðils á sér og er því leiðandi fyrirmynd í mörgu – hefur ekki fyrir því að mæla broddhljóðin; hún segir „astin“ og þá segir hún gjarnan „akki“ í stað „ekki“ það merkir, að í ákveðnu samhengi er sérhljóðinn e, sem er gleiðmælt hljóð, orðinn að gaphljóðinu a. Eflaust merkir þetta að fleiri gleiðmælt hljóð verði að gaphljóðum og á endanum verði ungviðið gapandi yfir einu og öllu. Málið færist nú enn framar í átt að tönnum og framgómi, engu líkara en við séum að missa orðin út úr okkur. Málfarsráðunautar yppa eða yppta öxlum og tala um þróun málsins. En hvað veit ég, hitt er ljóst að linmælgi og flatneskja ræður tungutaki nútíðar hér heima í haustnæðingi á Fróni. Ég heyri að svipað sé að gerast í Köben; danskir kunni best að tala hratt og tungumálið sé við það „at falde, ud af munden og ned paa gulvet“.

Að endingu, með bestu kveðjum, kæri Jónas – sonnettulíki í anda Nýársdagskvæðis.

Ég á þér Jónas, játningu að færa,
játningu er kemur nokkuð seint.
En hún er sönn – frá hjarta mínu beint,
um líf þitt allt og ljóðamálið tæra.

Ekki er það til, sem eins mig hefur nært;
sem ofurvald og máttur þinnar tungu.
Og enn þá geta þjóðarmerkin ungu
af næmi þínu, numið vel og lært.

Ég man þú sagðir; tregan vera tímann,
að tengjast við þitt verk og andagift,
þó ekki flæktist það allt fyrir þér.

Ó, ef ég gæti aðeins gripið símann
og grátið með þér, huga þínum lyft –
ég höfuð bæri hátt, sem eftir er.

(egill ólafsson)

Post Scriptum. Bara að ég gæti lært af þér – að veiða loftanda.

Egill Ólafsson (birtist í Herðubreið árið 2008)

2,303