trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 21/06/2015

Brautryðjandi í íslenskri blaðamennsku – eftirmæli um Halldór Halldórsson

Eftir Ólaf Þ. HarðarsonHalldór Halldórsson

Halldór Halldórsson – oftast kallaður Dóri Dór – hóf starfsferil á Alþýðublaðinu 1965 þegar hann var sextán ára, las fyrst prófarkir, en fékk fljótlega blaðamennskuverkefni líka. Þarna naut hann handleiðslu eins merkasta blaðamanns Íslendinga fyrr og síðar, Gísla J. Ástþórssonar, sem var ritstjóri Alþýðublaðsins.

Á sokkabandsárum Dóra í blaðamennsku hafði íslensk pólitík enn að mestu sömu einkenni og hún hafði haft lengstan hluta 20. aldar: stjórnmálin einkenndust af forsjárhyggju og fyrirgreiðslupólitík – stjórnmálaflokkarnir skiptu sér af flestum sviðum mannlífsins og úthlutuðu gæðum eftir flokkslit: pólitík réð lánum í bönkum og fjárfestingasjóðum, barnakennararstöðuveitingum, útgáfusamningum við rithöfunda og skáld, ákvörðunum um fiskverð, embættaveitingum í ráðuneytum, úthlutun húsnæðis í Reykjavík – svo fáein dæmi um flokksræðið séu nefnd. Viðreisnarstjórnin hafði að vísu rýmkað innflutningshömlur og beitt sér fyrir inngöngu Íslands í EFTA – en fyrir kaldhæðni örlaganna var markaðsbúskapur á Íslandi enn miklu minni en í Skandinavíu, þar sem ríkisstjórnir undir forystu sósíaldemókrata höfðu skapað nútímalega blöndu markaðskerfis og velferðarkerfis strax upp úr síðari heimsstyrjöld. Á Íslandi – þar sem Sjálfstæðisflokkur hafði áratugum saman haft yfirburðastöðu í pólitík og forystu fyrir ríkisstjórnum – ríktu hins vegar enn gríðarleg ríkisafskipti af atvinnulífi og fjármálum – og fyrirgreiðslupólitík þessara tíma flokkast vafalaust undir pólitíska spillingu á flesta mælikvarða stjórnmálafræðinnar. Einkar læsilega og greinargóða lýsingu á þessu gamla kerfi er að finna í ævisögu Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson.

Íslensk blaðamennska var líka í pólitískum fjötrum mestalla tuttugustu öld. Dagblöðin voru flokkspólitísk og birtu augljóslega hlutdrægar fréttir: oft var lítill munur á ritstjórnargreinum og svokölluðu fréttaefni. Blöðin birtu ekki pólitískar greinar eftir andstæðinga. Þau voru fyrst og fremst málgögn sinna flokka – skömmuðu pólitíska andstæðinga og lofsungu eigin flokksmenn. Allir flokkar reiddu sig á pólitísk blöð. Ríkisútvarpinu var stjórnað af pólitískt kjörnu útvarpsráði – þar sem þingmenn og ritstjórar flokksblaðanna áttu gjarnan sæti: sjálfstæð umfjöllun um stjórnmál og samfélag á faglegum nótum var bönnuð. Upplestur stjórnmálayfirlýsinga flokkanna var hins vegar leyfður. Einstaklingar máttu líka reifa skoðanir sínar í pistlum á borð við „Um daginn og veginn“. En stjórnmálamönnum stóð engin ógn af faglegri og gagnrýninni umfjöllun sjálfstæðra blaðamanna – hún var ekki til.

Það varð hlutverk Halldórs Halldórssonar í lífinu að berjast gegn þessu gamla og spillta kerfi. Hann varð frumkvöðull gagnrýninnar og sjálfstæðrar rannsóknarblaðamennsku á Íslandi. Sú blaðamennska beindist ekki síst gegn gamla fyrirgreiðslukerfinu, sem enn var býsna sterkt í stjórnmálum, atvinnulífi og þjóðlífinu almennt.

Breytingar lágu reyndar í loftinu á árunum í kringum 1970. Á síðari hluta sjöunda áratugar höfðu Magnús Torfi Ólafsson og Ólafur Ragnar Grímsson verið þáttastjórnendur um erlend málefni og íslenskt þjóðlíf í Ríkisútvarpinu: báðir voru reknir fyrir að fjalla um pólitík. Á fyrri hluta áttunda áratugar fengu hins vegar bæði Ólafur Ragnar og Vilmundur Gylfason – góður vinur Dóra – að halda úti gagnrýnum umræðuþáttum um stjórnmál í sjónvarpinu. Útvarpsráðið 1971-74 tók upp alveg nýja stefnu, þar sem áhersla var lögð á sjálfstæða og gagnrýna blaðamennsku.

Gömlu flokksblöðin tóku líka breytingum. Faglegir blaðamenn höfðu að vísu ekki verið óþekktir á blómatíma flokksblaðanna: Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðs, átti góða spretti – og Gísli J. Ástþórsson, ritstjóri Alþýðublaðs, gerði harðar kröfur um aðskilnað faglegrar blaðamennsku í almennum fréttum annars vegar og ritstjórnarefnis og pólitískra frétta hins vegar. Jónas Kristjánsson gerði Vísi – og síðar Dagblaðið – að óháðum dagblöðum. Morgunblaðið undir ritstjórn Matthíasar Johannessen og Styrmis Gunnarssonar tók hægfara breytingum. Fagleg blaðamennska á flokksblöðum vann á síðustu þrjá áratugi 20. aldar – en tími þeirra var liðinn. Við aldarlok voru þau öll dauð, nema Morgunblaðið, sem hélt velli, en hafði að mestu látið af pólitískri blaðamennsku. Það hefur að vísu gengið í endurnýjun lífdaga síðustu árin sem pólitískt málgagn – en eigi að síður eru þar margir faglegir blaðamenn sem stunda vandaða og óhlutdræga fréttamennsku.

Halldór HalldórssonHalldór Halldórsson fæddist á Akureyri 1. júlí 1949, sonur Sigríðar Guðmundsdóttur og Halldórs Halldórssonar. Halldór eldri var íslenskuprófessor við Háskóla Íslands: til hans sótti Halldór yngri vafalítið virðingu fyrir gagnrýnum, vísindalegum vinnubrögðum, nákvæmni og óþægilegum staðreyndum. Hann lauk stúdentsprófi frá MH 1970, stundaði nám í þjóðfræði í Lundi 1970-71 og lauk BA prófi frá HÍ í heimspeki og bókmenntafræði 1977. Árið 1980 lauk Halldór MA prófi í fjölmiðlafræði frá University of North Carolina at Chapel Hill í Bandaríkjunum. Hann sótti jafnframt námskeið í Washington D.C. um samskipti stjórnvalda og fjölmiðla, dómstóla og fjölmiðla og þjálfun vegna gerðar daglegs fréttaþáttar hjá Public Broadcasting Service (PBS) á vegum Foreign Student Service Council í Washington D.C.

Heimspekinámið í HÍ og meistaranámið í fjölmiðlafræði í Chapel Hill höfðu mótandi áhrif á störf og lífsviðhorf Dóra. Hann kom víða við í íslenskri blaðamennsku: prófarkalesari og blaðamaður á Alþýðublaði á sumrin 1965-75, fréttamaður hjá RÚV á sumrin 1975-78, blaðamaður á Helgarpósti sumarið 1979, fréttaritari útvarpsins í Bandaríkjunum 1977-80, fréttamaður hjá RÚV 1980-81, dagskrárritari hjá RÚV-Sjónvarpi 1981-82, ritstjóri Íslendings á Akureyri 1982-84, ritstjóri á Helgarpósti 1984-88 og fréttamaður hjá RÚV 1988-92. Eftir það starfaði hann mest í lausamennsku. Hann sat í fyrstu stjórn Félags áhugamanna um heimspeki og átti sæti í siðanefnd Blaðamannafélags Íslands.

Ferill Halldórs í blaðamennsku er glæsilegur. Hann var í fremstu röð þeirra sem breyttu íslenskri blaðamennsku í nútímahorf. Hann stundaði rannsóknarblaðamennsku fyrr og af meiri ástríðu en flestir aðrir – þar sem kröfur um heiðarleika, gegnsæi, upplýsingu og sannleika voru í fyrirrúmi. Hæst reis ferillinn sennilega þegar hann var ritstjóri Helgarpóstsins – sem var merkilegt blað í íslenskri fjölmiðlasögu og sannkallaður boðberi nýrra tíma. Helgarpóstsmenn voru auðvitað skammaðir duglega, ekki síst af gömlum fyrirgreiðslumönnum og flokkshestum – sem sáu enga ástæðu til almenningur væri upplýstur um starfshætti þeirra – uppnefndu gjarnan rannsóknarblaðamennskuna og kölluðu hana æsifréttamennsku. Fréttamennska Helgarpóstsins átti samt ekkert skylt við æsifréttamennsku götublaða á borð við t.d. bresku rennusteins-pressuna. Núna flokka sjálfsagt flestir rannsóknarblaðamennsku Helgarpóstsins sem vandaða blaðamennsku – eða bara venjulega, alvöru blaðamennsku.

Það var Dóra Dór líkt að semja sjálfur eftirmæli sín. Stuttu fyrir dauða hans áttu tveir af merkilegustu nestorum íslenskrar blaðamennsku, Árni Þórarinsson og Halldór Halldórsson, einkar áhugavert samtal í Ríkisútvarpi um líf Dóra og feril – ekki síst um blaðamennsku almennt og rannsóknarblaðamennsku sérstaklega. Báðir fyrr ritstjórar Helgarpósts. Viðtalið má finna í Sarpi Ríkisútvarps: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/segdu-mer/20150507.

Sýn Dóra á blaðamennsku, ástríða hans fyrir sannleikanum, virðing fyrir vísindunum, heimspekilegur þankagangur, hógværð hans og þrjóska – svo ekki sé minnst á kímnigáfuna – kemur þeim ekki á óvart sem þekktu hann – en kannski sumum öðrum.

Halldór Halldórsson var harður nagli í blaðamennsku sinni – en fjarri því að vera bara harður nagli.

Nú er Dóri allur. Hans er sárt saknað, ekki síst af eiginkonu, afkomendum, öðrum ættingjum og vinum. Sagan mun minnast hans með virðingu og þökk.

Ólafur Þ. Harðarson

 

1,328