trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 18/12/2014

Boðun, pólitík og kirkjuheimsóknir

Sigríður GuðmarsdóttirEftir séra Sigríði Guðmarsdóttur

Ég hef fylgst úr fjarlægð með allri umræðunni um kirkjuheimsóknir á aðventunni. Hún hefur verið hvöss og inn í hana blandast pólitískar hræringar sem erfitt er að henda reiður á. Þessi umræða snertir mig tilfinningalega. Ég veit að mörgu fólki þykir vænt um kirkjuheimsóknirnar. Ég á vini og ættingja sem eru trúlausir og þekki hversu ósátt þau eru við kirkjuheimsóknirnar. Það gerir mig vansæla að börn skuli stríða hvert öðru á trú og trúleysieins og nýlegt dæmi sannar af dreng í Grafarvoginum sem ekki valdi að fara í kirkjuheimsókn. Þessi ljóta saga af stríðni minnti mig á strákana mína sem stundum var strítt af því að mamma þeirra væri prestur og var sagt að þeir ættu að þegja og fara heim og lesa Biblíuna.

Mér finnst það sárt og leiðinlegt að einmitt á þessum tíma ársins í desembermyrkrinu, þar sem við þurfum svo innilega á friði, gleði og náungakærleik að halda, skuli hann vera undirlagður af árvissum deilum í samfélaginu, bloggheimum, borgarstjórnarfundum, samfélagsmiðlum og kommentakerfum. Með þessu er ég ekki að segja að umræðan um kirkjuheimsóknirnar sé ekki mikilvæg, því hún er það. Umræða um tengsl trúfélaga og skóla, mannréttindi, trúfrelsi, eðli skólastarfs og þróun samfélagssáttmála er mikilvæg. Ég er hins vegar ekki viss um að allar myndir þessarar umræðu séu mjög gefandi eða þoki okkur í átt til lausnar og sáttar sem samfélags. Deilumálið Kirkjuheimsóknir er að mínu viti fast í hjólfari og flokkadráttum til hægri og vinstri.

Ég hef áhyggjur af þessu hjólfari, vegna þess að spólið í hjólfarinu getur leitt til þess að fólk í samfélaginu verði ónæmt fyrir veigamiklu spurningum um menntun, skólaskyldu, mannréttindi, menningararf og trú. Nú þegar verða margir grænir í framan þegar minnst er á kirkjuheimsóknir, af því að þeim finnst þetta svo hrikalega leiðinleg, tilfinningahlaðin og eitruð umræða. Ég er örugglega búin að missa helminginn af lesendum bloggsins nú þegar vegna þess að fólk vill miklu frekar gera eitthvað jólalegt eins og að kaupa jólatré en að hlusta á enn eitt röflið um kirkjuheimsóknir skólabarna á aðventu. Sem er auðvitað mjög dapurlegt af því að ég er rétt að komast að efninu og því sem mér finnst sjálfri um þessar heimsóknir.

Sko….

  • Kirkjuheimsóknir á aðventu eru ekki hluti af skírnarfræðslu kirkjunnar. Kirkjan sinnir skírnarfræðslu sinni með stuðningi við fjölskyldur og með barnastarfi í kirkjunni sem börn og unglingar sækja með foreldrum sínum eða með frístundatilboðum og fermingarstarfi sem börn hafa verið skráð í af forráðamönnum sínum.
  • Ef kirkjuheimsóknir eru stundaðar á annað borð er þar um að ræða vettvangsferðir á forsendum skólans.

Þessi tvö atriði útheimta yfirvegaða umræðu um samstarf kirkju og skóla. Það þarf að liggja fyrir hver mörk skírnarfræðslu og fræðslu um trúarbrögð eru. Og það þarf að liggja fyrir hvað átt er við með vettvangsferð.

Kannski finnst mörgum að þetta liggi allt saman morgunljóst fyrir. En það flækir umræðuna að við notum mörg hver orðið boðun á ólíkan hátt. Boðun í sinni víðustu mynd fjallar um allt það sem er boðandi eða normatíft á erlendum tungumálum. Boðun í merkingunni normatíft fjallar um það hvernig mér finnst að hlutirnir eigi að vera í andstöðu við það sem er lýsandi eða deskríftíft. Þegar ég segi börnum að þau eigi að vera góð hvert við annað, að þau eigi ekki að henda rusli eða stríða hvert öðru sendi ég frá mér normatíf, boðandi skilaboð. Boðun í þessari víðu merkingu er mikilvægur þáttur í uppeldi og skólastarfi. En það er líka hægt að nota orðið boðun í þrengri merkingu um boðun tiltekins trúararfs og trúarsannfæringar, sem prédikun og trúboð, eða það sem enskan kallar evangelization. Slík boðun er ekki hluti af aðalnámskrá grunnskóla og leikskóla en heyrir til heimilisguðrækni, skírnarfræðslu og fullorðinsfræðslu hvers trúfélags.

Hin fjöruga umræða á borgarstjórnarfundi í gær spratt m.a. út af statusuppfærslu Lífar Magneudóttur varaborgarfulltrúa og formanns Mannréttindaráðs þar sem hún gagnrýndi harðlega kirkjuheimsókn skóla og kallaði trúboð. Í kirkjuheimsókninni átti sóknarpresturinn í Langholtskirkju að flytja hugvekju. Líf er kona sem ég ber traust til og er oft sammála. En ég er ósammála henni um það að hugvekja prests sé endilega trúboð. Hugvekja hlýtur alltaf að byggjast á normatífri boðun, að hugvekjarinn flytji boð um það hvernig hlutirnir eigi að vera. En hún þarf ekki nauðsynlega að vera evangelísk í þeirri merkingu að hún boði trú eða trúarsannfæringu. Hugvekja getur til dæmis auðveldlega fjallað um umhverfismál, friðarmál, sættir og náungakærleik, eða rifjað upp jólasögu sem tengist því hversu mikilvægt það er að berjast gegn fátækt og óréttlæti. Þegar skóli velur að fara í vettvangsferð í kirkju getur prestur tekið á móti börnunum fyrir hönd kirkjunnar. Ef skólinn velur að biðja prestinn um að segja einhver orð eða halda hugvekju, þá ber prestinum að gera það á forsendum skólans og á þann hátt að ekki sé um evangelíska boðun að ræða.

Ég ber líka traust og hlýju til skólastjórans í Valsársskóla, Ingu Sigrúnar Atladóttur sem í statusuppfærslu ræðir mikilvægi þess að miðla fræðslu um kristinn trúararf í samræmi við námskrá grunnskóla. Hinn kristni trúararfur hefur fylgt íslenskri menningu í þúsund ár og sem skólanum ber að fræða nemendur sína um sem lið í menningarlæsi. Ég er hins vegar ósammála henni um það að það séu rök í málinu að allir nemendur grunnskólans séu meðlimir í Þjóðkirkjunni. Lögbundið skólastarf á ekki að tengjast trúfélagsaðild. Það á að vera normatíft og deskríptíft, boðandi og lýsandi, en ekki evangelískt án tillits til þess hvort við búum í sveit og borg og hvort og hvar börnin okkar eru skráð í trúfélög.

Í morgun las ég grein eftir Siggeir Ævarsson um upplifun hans af kirkjuheimsókn leikskólabarnsins síns. Færslan er reyndar fjögurra ára gömul, en dúkkaði aftur upp núna á Facebook í tengslum við umræðuna um kirkjuheimsóknir á aðventu. Í lýsingu Siggeirs byrjaði kirkjuheimsóknin á því að allir voru beðnir um að signa sig og síðan báðu allir saman Faðir vor. Þvínæst hafi presturinn sagt frá því að sagan af fæðingu Jesúbarnsins væri merkilegasta saga í heimi. Sjálfur lýsir faðirinn þeirri skoðun sinni að honum finnist það jákvætt og sjálfsagt að kristinn trúararfur og fræðsla um trúarbrögð sé hluti af starfi skólans en er óánægður með trúboðið sem hann taldi sig verða vitni að í kirkjunni. Hann vill trúfræðslu barni sínu til handa, ekki trúboð.

Lýsing Siggeirs er fjögurra ára gömul og vonandi hefur eitthvað breyst. Sjálf viðurkenni ég fúslega að hafa stjórnað kirkjuheimsóknum með þeim hætti sem hann lýsir hér áður og fyrr. En ég geri það ekki lengur. Ég geri greinarmun á þeim stöðum þar sem ég flyt evangelíska og normatífa boðun. Ég er prestur og prédika að sjálfsögðu, bið bænir og vitna um trúna í skírnarfræðslu og helgihaldi kirkjunnar. En því fer fjarri að ég þurfi að gera það á öllum stöðum og tímum. Ég er ekki foss eða gosbrunnur. Í vettvangsheimsóknum flyt ég ekki evangelíska boðun. Ég bið ekki lengur bænir í vettvangsheimsóknum eða ber fram hinn kristna trúararf sem hinn eina rétta og merkilegasta á þeim vettvangi. Ég geri mér far um það að þau orð sem ég segi í slíkum heimsóknum innihaldi frekar normatífa boðun en evangelíska, vegna þess að hin síðarnefnda boðunin heyrir til skírnarfræðslu kirkjunnar, ekki vettvangsheimsóknum skóla. Skólarnir eru velkomnir í kirkjuna og ef þau vilja flytja helgileikinn sinn þar þá er það líka velkomið. Ég virði líka ákvörðunarrétt skóla til að gera eitthvað annað á aðventunni en að heimsækja kirkju, eða vilja frekar koma í mars. Það er líka fínt, vegna þess að vettvangsferðir eiga að vera á forsendum skóla, ekki kirkju. Og skólinn er skóli allra barna, ekki aðeins hinna kristnu.

Þetta er nú svona það sem ég vildi segja um þetta mál. Getum við ekki sannmælst um það að taka þessa umræðu upp í janúar þegar jólaskjálftinn er runnin úr okkur?  Getum við ekki haldið áfram að fjalla um samstarf kirkju og skóla og gert það á einhvern hátt sem skilar okkur áfram?  Og getum við ekki sleppt því að gera þessar kirkjuheimsóknir að pólitísku þrætuepli?  Ég er pólitísk portkona sem hef kosið flesta flokka í kosningum. Ég set krossinn minn í kosningum við þann flokk sem ég treysti best hverju sinni til að huga að hag almennings, byggja upp heilbrigðis-, félags- og menningarlíf og standa vörð um mannréttindi og umhverfi. Ég hef nákvæmlega engan áhuga á því hvort Sjálfstæðisflokkurinn styður kirkjuheimsóknir eða hvort VG sé á móti þeim. Ég er hvorki með eða á móti kirkjuheimsóknum frekar en öðrum vettvangsferðum skóla. Mér finnst þetta ekki vera flokkspólitískt mál. Þetta er mál sem fjallar um það hvernig námsskrá grunnskóla verði best komið til skila og um samstarf kirkju og skóla. Slíkt samstarf á að vinnast á faglegum forsendum og á grundvelli menningar og trúarfræðslu.

Og að lokum, verum nú góð á aðventunni, elskum hvert annað og tölum fallega hvert um annað. Tölum af virðingu um trú, trúleysi og lífsskoðanir fólks og forðumst að búa til staðalímyndir hvert af öðru. Tölum við börn, systkini og barnabörn um mannvirðingu og manngildi. Skólabörn eiga ekki að þurfa að sæta stríðni vegna trúar og trúleysis. Trúuð og trúlaus eigum við jól saman, og ljósin okkar lýsa upp desembermyrkrið. Það er gott og það er nóg.

Sigríður Guðmarsdóttir, 18. desember 2014

 

1,497