trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 14/09/2018

Böðlarnir

Karl Th. Birgisson skrifar

Allir vita að dómarnir í Guðmundar- og Geirfinnsmálum voru rangir og óendanlega óréttlátir.

Endurupptaka málsins núna snýst hins vegar ekki um réttlæti. Hún snýst um lögfræði, hvort dómarnir og það hvernig hæstiréttur komst að niðurstöðu uppfyllir tiltekin skilyrði og kröfur sem gerðar eru.

Þess vegna bíð ég ekki beinlínis með öndina í hálsinum eftir niðurstöðu í endurupptökumálinu. Auðvitað vonum við hið bezta, en það ætti ekki að koma neinum á óvart þótt hæstiréttur fyndi einhverja lagatæknilegar krókaleiðir til þess að komast ekki að niðurstöðu eða jafnvel rangri niðurstöðu. Annað eins höfum við upplifað.

Af því að málið snýst um lögfræði, en ekki réttlæti.

Það snýst heldur ekki um það sem er alvarlegast í sögunni allri, fyrir utan örlög þessara saklausu ungmenna.

Hvernig gat hæstiréttur komizt að svona fáránlega rangri niðurstöðu? Það getum við þakkað þeim einu sem eru raunverulega sekir í málinu öllu, sumir glæpsamlega sekir.

Það eru rannsóknarlögreglumennirnir sem beittu hótunum, fagurgala, sefjun og sálrænu ofbeldi, harðræði og beinlínis pyntingum til að knýja fram „niðurstöðu“ í málunum. Bara einhverja niðurstöðu.

Það eru líka sakadómararnir sem heimiluðu einangrunarvist í allt að tveimur árum yfir fólki sem hafði ekkert til saka unnið.

Það voru þessir böðlar sem eyðilögðu líf þessa unga fólks og hafa aldrei þurft að svara fyrir það, hvað þá sæta einhverri ábyrgð.

Það voru þessir böðlar sem sendu saklaust fólk í fangelsi og myrtu sálina í sumum þeirra.

Úr því sem komið er þjónar engum tilgangi að elta þessa fanta uppi með refsingum enda eru glæpir þeirra eflaust fyrndir.

Það er hins vegar ekki hægt setja punkt aftan við Guðmundar- og Geirfinnsmál fyrr en hlutur þessara manna (þetta voru auðvitað allt kallar) hefur verið rakinn skilmerkilega og gerður upp.

Til þess arna ætti dómsmálaráðherra að fá tvær til þrjár góðar og hreinlyndar manneskjur til að skrifa greinargóða skýrslu. Enga lögfræðinga, takk, heldur blaðamenn og sagnfræðinga. Jón Daníelsson ætti sannarlega að vera einn þeirra.

Væntanleg niðurstaða hæstaréttar í endurupptökumálinu verður aldrei neitt lokaskref eða endalok í þessari ömurlegu sögu, sama hver hún verður.

Þau verða ekki fyrr en gert hefur verið upp við böðlana.

1,368