trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 01/11/2017

Björn Karlsson – Bjössi Karls (1950-2017): Töframaður

Hann var töframaður. Galdraði að vísu ekki kanínur upp úr hatti eða sagaði í sundur glæsimeyjar.

Nei, hann töfraði mann upp úr skónum.

Kom með sinn stóra hramm og faðmaði mann, fangaði mann með sjarmanum, hlýjunni, fjörinu og gleðinni.

Hann var stærsti vinurinn, kom með gusti upp stigann, hafði hringt fyrir augnabliki, sagst vera í Vesturbænum og spurt hvort við ættum að fá okkur tíu. Ketillinn settur yfir og fuglar með vængjaþyt og ævintýrum flugu um stofuna.

Það var árið 1987 að hann tók mig tali á bar og spurði hvort vantaði ekki sviðskarl á Stöð 2. Hann var tekinn á orðinu og brátt var hann kominn í hringiðuna á stöðinni og naut sín í botn. Hann elskaði Stöð 2 og Jón Óttar, ekki síst ef Johnny mætti í bítlaskónum og rauða lúðrasveitarjakkanum. Hann var líka settur fyrir framan myndavélina, keypt á hann móðins jakkaföt og stillt upp með sjálfri Bryndísi Schram. Hann var ekki hræddur við neitt, settur þar sem bardaginn var harðastur.

Enda brást hann ekki þegar hann tók ákveðið um axlirnar á sjálfum Garrí Kasparov og skellti honum í stól við hliðina á Palla Magg og púðraði hann fínlega eins og fegurðardrottningu. Heimsmeistarinn, sem hafði aldrei fengið svona trakteringar, vissi hvorki upp né niður, en Bjössi taldi niður.

Bjössi kaldi.

Börnin mín elskuðu hann. Hann sagði Vala svala og hljóp með hana um húsið í þvottabala og hún kallaði hann Bjössa kalda.

Ein fallegasta sagan af Bjössa er þegar hann var sviðsstjóri í Gamla bíói. Þá komu þar eitt sinn útlendir tónlistarmenn. Bjössi tekur elskulega á móti þeim og sá sem heilsar fyrst stamar svona rosalega. Á einhvern undarlegan hátt byrjar Bjössi að stama á móti „og þar með var ég lentur í bobba“ sagði Bjössi.

„Ég gat ekki hætt að stama því þá hefði aumingjans maðurinn haldið að ég væri að gera grín að honum svo ég bara stamaði alla helgina meðan þeir voru í húsinu og það get ég sagt að aldrei hef ég verið kvaddur með meiri virktum og elskulegheitum en af þessum manni sem stamaði svona svakalega. Þarna hafði hann nefnilega hitt þjáningarbróður sinn sem skildi hann! En það get ég svarið að ég hef sjaldan verið eins þreyttur og eftir að hafa þurft að stama heila helgi.“

Svona gat hann glatt mann endalaust með fljúgandi sögum og skellandi fjöri.

En svo þagna fuglarnir.

Ó, hvað við ætluðum að verða skemmtilegir gamlir karlar, fara saman á kaffihús og röfla, ganga niður að höfn og skoða bátana, sæúlfurinn Björn og landkrabbinn ég. „Þú ert nú lélegur drykkjumaður, Eyi minn, jessörí bob,“ sagði hann stundum. Kallaði mig iðulega „Árnason og Melsteð“, var ekki sérlega smámunasamur með sumt, stríddi fólki með því að segja að það væri „fint følende“, horfði á stóru myndina, elskaði dætur sínar og dóttursyni, nennti ekki löngu símasnakki og nennti ekki að tefla við mig af því ég er lélegur í skák. Svo var ekki gerð almennileg íslensk bíómynd öðruvísi en Bjössa brygði þar fyrir.

Og nú finnst mér hann sitja hér í sófanum. Hann skellir í sig restinni úr bollanum, strýkur sér í framan, stendur upp og fyllir upp í stofuna. Svo er hann farinn og ég sit eftir í þögninni.

Við förum ekki framar saman á heimsenda, ég loka leynihólfinu, helli í glas og skála við myrkrið.

Hann kveikti ljós og gleði svo hraustlega að maður var utan við sig af kátínu og langaði til að dansa.

Hann var töframaður, töframaður í þeirri list að vera manneskja.

Eyþór Árnason

1,308