trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 14/03/2014

Bjargið okkur frá Reykjavík

Eftir Björgvin Val Guðmundsson

Það yrði allra hagur ef Ísland gengi í Evrópusambandið, en einkum og sér í lagi myndi landsbyggðin hagnast á inngöngunni. Hún myndi nefnilega losna undan allt að því óvinveittum öflum sem lengi hafa ráðið ríkjum á Íslandi; ákvörðunarvaldið myndi að stórum hluta færast frá skilningsvana embættismönnum í Reykjavík til kollega þeirra í Brussel, þar sem ekki er litið á íbúa jaðarbyggða sem annars flokks fólk heldur er kappkostað að halda afskekktum svæðum í byggð. Hugtökin „afskekkt“ og „jaðarbyggð“ eru ekki skilgreind á sama hátt á Íslandi og meginlandi Evrópu, ekki frekar en hugtakið „stórborg“ í New York og Reykjavík.

Fólki á landsbyggðinni stendur flestu mikill stuggur af Evrópusambandinu og það bregst ókvæða við þegar rætt er um aðild að því og skal engan undra, þegar hafður er í huga sá skefjalausi áróður þjóðernissinnaðra íhaldsafla beggja kanta stjórnmálanna sem rekinn hefur verið gegn sambandinu. Ég er eindregið fylgjandi aðild að Evrópusambandinu, hef verið það lengi og styrkist í trúnni með hverjum deginum. Þessi afstaða mín á ekki að koma neinum á óvart því að vel ígrunduðu máli er erfitt að vera landsbyggðarmaður og andvígur aðild með málefnalegum rökum.

Sjórán

Fiskveiðistjórnunarkerfið, kvótakerfið svokallaða, er ónýtt stjórntæki til allra hluta nema að raka auði á fárra hendur. Það er ríkisverndað apparat til þess eins hannað af fjarstýrðum stjórnmálamönnum, að færa LÍÚ-genginu allan fisk við Íslandsstrendur, auðlindina alla, á silfurfati og hefur virkni þess til slíks verið hreint með ágætum, en þá er það líka upptalið. Eftir sitja þorp og bæir, hringinn í kringum landið, efnahagur þeirra hruninn og fólksflótti brostinn á en Samherjar og Grandar hlæja hástöfum á leið sinni í bankann.

Sem verkfæri til uppbyggingar fiskistofna hefur kerfið líka brugðist. Ég skal ekki segja hvort svo væri ef stjórnmálamenn hefðu haft kjark og sjálfstæði til að hlíta ráðleggingum Hafró frá upphafi í stað þess að selja sálir sínar LÍÚ, en niðurstaðan er samt sem áður þessi: Þorskstofninn er hruninn og þar með einnig helstu rök andstæðinga aðildar að Evrópusambandinu, yfirráðin yfir fiskimiðunum; við höfum sýnt og sannað að þau er síst betur komin hjá okkur en t.d. Spánverjum. Það skiptir mig engu máli hvort fiskurinn sem syndir í sjónum fyrir framan húsið mitt er merktur útgerðarrisa á Akureyri eða á Spáni; þeir eru jafnfjarlægir mér og þeim stendur nákvæmlega jafn mikið á sama um okkur þorparana.

Stokkhólmsheilkennið

Hvað með bændur, kann einhver að spyrja; yrði innganga í Evrópsambandið ekki rothögg fyrir íslenska sauðfjárbændur? Ég spyr á móti: Geta kjör sauðfjárbænda gert annað en að batna? Mér sýnist sem sauðfjárbúskapur á Íslandi sé í flestum tilfellum bölvað hokur og milliliðalínan öll keppist um að hirða fúlgurnar sem neytendur borga fyrir lambakjöt og bændurnir fá ekki nema brot af þeirri upphæð sem við greiðum. Bændum hefur löngum verið talin trú um að jafnaðarfólk, kratar, sé þeirra verstu óvinir en ég leyfi mér að fullyrða að svo sé ekki. Þvert á móti bendir allt til þess að bændur myndu hagnast verulega á inngöngu í Evrópusambandið, þótt ekki væri nema vegna þess að samkvæmt skilgreiningu þess er Ísland heimskautasvæði og fengi þar af leiðindi væna styrki til hefðbundins og þjóðlegs búskapar – sauðfjárræktar. Reynsla Finna og Svía er þar rækast dæmi. Bændur hafa ekkert að óttast, en eftir öll árin undir Framsókn eru þeir eins og lúbarðir þrælar sem óttast ekkert meira en að svíkja húsbændur sína; þetta jaðrar við Stokkhólmsheilkenni.

Glugginn að umheiminum

Fjarskiptavæðing landsbyggðarinnar hefur verið mikil þrautaganga, kannski aðallega vegna þess að samgönguráðherra íhaldsins vildi lítið um málið vita og tókst það með ágætum. Um svipað leyti og við stóðum í stappi við Símann og samgönguyfirvöld um ADSL tengingar í þorpum, bárust þær fréttir frá Brussel að Evrópusambandið ætlaði að bjóða öllum íbúum jaðarsvæða ókeypis háhraða nettengingar í eitt til tvö ár, en eftir það réði fólkið hvort það keypti áframhaldandi áskrift. M.ö.o. þá kostaði Evrópusambandið uppsetningu nauðsynlegs búnaðar til að þessar tengingar yrðu að veruleika, á meðan stjórnvöld og fjarskiptafyrirtæki á Íslandi annaðhvort hunsuðu landsbyggðina eða beittu fyrir sig lélegum útúrsnúningum. Það er enginn vafi í mínum huga hvort viðmótið var hlýlegra. Ekki svo að skilja að landsbyggðarfólk hafi farið fram á ókeypis netsamband – það er reiðubúið að greiða fullt verð fyrir fulla þjónustu og nú gleðjumst við þegar okkar maður Möller er kominn með fjarskiptamálin í sínar hendur. Hann veit sem er að þessi gluggi að umheiminum og tækifærunum er fáum nauðsynlegri en fólki sem býr fjarri skarkala borgarlífsins.

Evrópusambandið hefur kappkostað að halda jaðarsvæðum í byggð á meðan lýðveldið Ísland hefur með skeytingarleysi og hálfvitagangi gert sitt besta til að eyða byggð á jaðarsvæðum. Þar hefur sovétfyrirbærið Byggðastofnun leikið stórt hlutverk en hún hefur komið mörgum þorpum og svæðum á Íslandi fyrirhafnarlítið úr öskunni í eldinn. Nú mun eiga að leggja aukið fé til stofnunarinnar og um mig fer nettur hrollur því upp í hugann koma loðdýraraækt og byggðakvóti, sameining frystihúsa og þvinguð skipakaup, ásamt fleiru skemmtilegu.

Það er úr vöndu að ráða. Bankar vilja ekki lána fé að neinu marki til landsbyggðarinnar og mér er minnisstætt þegar Skotlandsbanki lánaði Bílddælingum fé til kalkþörungaverksmiðju eftir að íslensku bankarnir runnu af hólmi því steinsteypa á Bíldudal þykir víst ekki nógu verðmæt. Skotarnir fjárfestu í hugmynd og viðskiptatækifæri og bankastjórinn þeirra var yfir sig bit á áhugaleysi íslenskra banka. Við þurfum á erlendum bönkum að halda á Íslandi eða íslenskum bönkum með innrásarhneigð. En fyrst og fremst er það landsbyggðinni lífsnauðsynlegt að Ísland gangi í Evrópusambandið svo hún losni undan duttlungum og innbyggðum fordómum íslenska stjórnkerfisins.

Evrópusambandið er mun landsbyggðarvænna en íslenska ríkið sem hefur haft það að áhugamáli undanfarin ár að slátra landsbyggðinni hægt og bítandi en þó alltaf undir yfirskini góðmennsku og hjálpfýsi; óþarfa afskipti af atvinnumálum hafa verið stunduð gegnum árin en þau mál eru alltaf heitustu kosningamálin á Íslandi. Landsbyggðin er grátt leikin af atvinnustefnu stjórnvalda undanfarinna ára, en guð láti gott á vita um breytingar á næstu misserum. Í það minnsta er samhljómur með frjálslynda jafnaðarfólkinu sem komið er í ríkisstjórn og því í Evrópu – það er von um betri tíma framundan.

Ágústhefti 2007

1,330