trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 01/01/2017

Auðmenn ársins

Guðspjall: Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr. (Jóh 2.23-25)Kirkja, altari
Náð sé með ykkur og friður frá Guði Föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilegt nýtt ár.

Að þessu sinni byrjum við í kirkjunni nýtt ár á að minna okkur á einlægnina. Jesús þekkir alla, hann veit hvað í hverjum manni býr. Það þýðir ekkert að þykjast frammi fyrir Guði. Enginn blöffar Guð.

Þetta þema heldur áfram í næstu köflum guðspjallsins. Jesús ræðir við hina og þessa og heyrir ekki bara spurningarnar sem hann er spurður heldur sér hann spurningarnar í hjörtum viðmælenda sinna og svarar þeim líka.

Að þeyta lúðra

Það er gott að vera minntur á þetta í samfélagi þar sem það er í tísku að iðka réttlæti sitt fyrir mönnum, eins og segir í hinni helgu bók. Jesús varar okkur við að vera eins og hræsnararnir sem vilja biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum til að menn sjái þá, menn sem láta þeyta lúðra fyrir sér þegar þeir gefa ölmusu.

Auðvitað er gott að láta gott af sér leiða, en þegar góð málefni eru styrkt með fermetra stórum ávísunum að viðstöddum blaðaljósmyndurum er ekki laust við að sá grunur læðist að manni að eitthvað meira hafi vakað fyrir gefandanum en það eitt að láta gott af sér leiða – að góðmennskan sé liður í ímyndarsköpun og sem slík eigingjörn í eðli sínu.

Þess vegna langar mig í tilefni áramótanna að taka upp sið sem mjög tíðkaðist hér á Íslandi á árunum fyrir hrun og einhverjir kynnu jafnvel að sakna og tilnefna auðmann ársins. Mig langar aftur á móti til að gera það á öðrum forsendum en tíðkaðist hér áður fyrr – leyfist mér að segja „kristilegum“ forsendum?

Auðmenn ársins

Í þriðja sæti er maðurinn sem kom hingað í kirkjuna hálfum mánuði fyrir jól og bar inn kassa af jólamat, malti og appelsíni og öðru góðgæti og fól okkur – fyrir hönd hópsins sem hann var í forsvari fyrir – að hafa milligöngu um að koma þessu í hendurnar á fjölskyldum sem ættu erfitt með að veita sér slíkan viðgjörning yfir hátíðirnar fyrir þá peninga sem þær hefðu umleikis. Skilyrðið var að nöfn gefenda yrðu algert leyndarmál sem og nöfn þiggjendanna. Við þessu var orðið. Jólamaturinn komst í góðar hendur og þakklæti þeirra sem tóku við þessum höfðinglegu gjöfum er hér með komið til skila þangað sem það á heima. Þeir vita hverjir þeir eru – og Guð veit það líka.

Í öðru sæti er fjölskyldan sem kom hingað í kirkjuna nokkrum dögum fyrir jól með tvo konfektkassa og tvö umslög með dálítilli fjárhæð í – engu ógurlegu en nógu hárri til að breyta töluverðu fyrir efnalitlar fjölskyldur. Skilyrðið fyrir gjöfinni var það sama: Fullkomin leynd um gefendur og þiggjendur. Við í kirkjunni gátum orðið við þessu og er þakklæti þeirra sem þáðu þessar gjafir hér með komið til skila.

En í fyrsta sæti sem auðmaður ársins í mínum huga er konan sem kom til mín á samkomu hér í sókninni og bað mig að koma með sér afsíðis, því enginn mátti verða vitni að erindi hennar. Þegar hún var viss um að enginn sæi rétti hún mér fimmþúsundkrónaseðil og bað mig að setja hann í einn söfnunarbaukanna niðri í kirkjunni sem hún á svo erfitt með að sækja vegna fötlunar sinnar, en hún er bundin í hjólastól. Ég varð við því og hennar framlag var ekki eyrnamerkt einu né neinu sérstöku heldur rann það saman við þær fjárhæðir sem sóknarbörn létu af hendi rakna í samskotum hér í kirkjunni á aðventunni.

Ég treysti því að með því að greina frá þessu sé ég ekki kominn í þversögn og farinn að þeyta lúðra fyrir fólki sem einmitt vildi láta gott af sér leiða fyrir Guð og náungann en ekki fyrir ímynd sína. En ég tel gagnlegt, jafnvel nauðsynlegt, að greina frá þessu – og tel það hægt án þess að brjóta þau loforð um leynd sem gefin voru.

Heimsósóminn freistar

Það er nefnilega auðvelt að gleyma sér í heimsósómanum. Það er svo gaman að benda fingri á aðra og hrópa: „Vei!  Vei yður, þér hræsnarar og farísear!“ Það lætur manni líða vel, eins og maður sé siðferðilega á hærra plani en annað fólk og á alveg sérstökum „buddy basis“ við Jesú Krist, prókúruhafi Guðs á jörð.

Með því er ég ekki að segja að ástæðulaust sé að gagnrýna það að þurfa að lifa lífi sínu fyrir galopnum tjöldum; að allt það góða sem maður gerir, hvort sem það er fyrir sjálfan sig eða náungann, sé lítils virði sé því ekki deilt á facebook eða fjallað um það í fjölmiðlum.

En við skulum þá líka muna að fullt af fólki er einlægt og heiðarlegt í þeirri viðleitni sinni að láta gott af sér leiða og gera heiminn örlítið betri. Fullt af fólki leggur raunverulega meira upp úr því að safna sér auði sem mölur og ryð fá ekki grandað heldur en gulli og stöðutáknum. Fullt af fólki leggur meira upp úr því að vera sátt við manneskjuna sem það sér í speglinum heldur en þá sem það sér á facebook eða í fjölmiðlum.

Auðlegð hjartans

Hinir raunverulegu auðmenn allra ára eru nefnilega þeir sem gefa af auðlegð hjarta síns. Og þeir eru hér meðal okkar. Við megum ekki einblína svo á þá sem vilja að allir viti hvað þeir eru góðir og líka eru á meðal okkar – þá sem leggja svo mikið upp úr þeirri ímynd að vera mannvinir og hluti af lausninni en ekki vandamálinu að allt sem þeir segja eða gera snýst á einn eða annan hátt um þá sjálfa og framlag þeirra til kærleika og mannúðar í heiminum – að við sjáum ekki hina.

Ég er kannski heppinn. Þeir sem vilja láta þeyta fyrir sér lúðra hafa nefnilega ekki mikið verið að leggja leið sína hingað í kirkjuna á aðventunni til að láta gott af sér leiða. Þannig hef ég verið heppinn með félagsskap. En það hefur líka sannfært mig um að heimurinn er ekki á leiðinni til andskotans.

„Það eina sem hið illa þarf til að hafa sigur er að gott fólk geri ekki neitt,“ er haft eftir heimspekingnum Edmund Burke. Og ég held að það séu orð að sönnu.

Og ég er svo ótrúlega lánsamur að atvinnu minnar vegna hef ég fengið að verða vitni að mörgu góðu fólki sem einmitt er að gera eitthvað.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda.

Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda.

Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju á nýársdag 2017

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,311