trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 13/01/2016

Ástand landsins, 13. janúar 2016

Bandaríkjaforseti flutti í nótt ræðu um stöðu síns lands. Hér er niðurstaða Herðubreiðar um stöðu Íslands og Íslendinga, um miðjan janúar 2016:Fáninn

* Sveitarfélög ætla að skila af sér til ríkisins umönnun aldraðra á hjúkrunarheimilum. Boðuð plön ráðherra eru ekki til. Aldraðir komast ekki burt af spítölum. Því er ekki pláss þar fyrir sjúklinga.

* Ríkisbankinn Landsbanki hefur klárað að borga Icesave. Við borgum öll og allir höfðu rétt fyrir sér. Bæði forsetinn og Bjarni Ben.

* Landspítalinn fær bráðnauðsynlegt lækningatæki, lífeindaskanna. Undir það þarf að byggja sérstakt hús. Hvort tveggja er háð tilfallandi ákvörðun einstaklings, ekki samfélagsins.

* Fangar kvarta yfir meðferð á sér. Viðbrögðin eru a) þeir eru sekir og eiga allt vont skilið, eða b) jafnvel þótt þeir séu ekki sekir eiga þeir allt vont skilið, af því að mér líður illa.

* Þjóðin býr sig í kvíða undir að Bubbi deyi einhvern tíma. Jafnvel Bó. Þá verður aldeilis partí. Skoðanakannanir sýna þó að Gunni Þórðar er ódauðlegur.

* Til stendur að byggja gámahús í miðborg Reykjavíkur. Arkitektum tekst að koma á myndum sínum sólarljósi þangað úr öllum áttum í senn og af fólki að borða ís innan um laufgræn tré. Forsætisráðherra er framsóknarmaður og sjálfkrafa ómarktækur.

* Formaður LÍÚ (afsakið, SFS) er staðinn að fáheyrðri þvælu í viðtali. Um grundvallaratriði. Framkvæmdastjóri LÍÚ telur ekkert unnið með frekari hártogunum um staðreyndir. Þar með er útrætt um þær.

* Listamenn og óvinnufærir eru afætur. Björk biður að heilsa. Árni Johnsen líka.

* Útlendingar reynast jafnan vera bæði vingjarnlegt og vinnusamt fólk, meiraðsegja fólk fætt í Albaníu. Hannes Hólmsteinn vill þó gæta allrar varúðar. Þeir þekkja það í Brasilíu.

* Marta smarta hefur verið ráðin til að endurhanna Kvíabryggju. Í boði Ilva, Axis og Betra baks. Eða þess sem býður best.

[Næst uppfært í janúar 2017. Óbreytt.]

Flokkun : Efst á baugi, Menning
1,498