trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 06/11/2016

Ása bjargar heiminum – fyrsti hluti

Ég er Colorado að styðja framboð Hillary Rodham Clinton, síðustu dagana fyrir kjördag.

Af hverju og af hverju Colorado?

Svarið við þeirri seinni er auðvelt. Ég á hér fjölskyldu sem mér mjög náin. Kynntist þeim fyrir 35 árum, sextán ára gömul og hef verið hluti af familíunni síðan. Það lá beint við að koma hingað og svo er Colorado líka „swing“ ríki – sem þýðir að það getur brugðið til beggja vona.asa-richardsdottir

Af hverju yfirleitt? Vegna þess að hér er um málstað heimsins að ræða og ef vel tekst til, hæsta glerþakið sem eftir á að brjóta. Ég sannfærðist snemmsumars að ég yrði að leggja eitthvað að mörkum og keypti flugmiðann, fyrir uppsafnaða vildarpunkta, í lok ágúst.

Og hér er ég og get ekki annað. Mætti í morgun með bandarísku mömmu minni og systur á sjálfboðaliðastöðuna og 15 mínútum síðar vorum við byrjaðar að banka á dyr.

Maður tekur strax eftir að Trump-sjálfboðaliðar eru mun herskárri en við Hillary-liðar. Meðfram aðalgötunum raða þau sér , með þjóðarfánann á lofti líkt og hann sé þeirra og risavaxin Trump-skilti límd utan á sig. Við hillaríska fólkið verðum einhvern veginn hógvær, lítillát og kurteis í samanburði. Kona veltir fyrir sér hví við séum ekki fleiri hér, allsstaðar að – þegar svo mikið er í húfi? Hví er ekki hálf heimsbyggðin hér? Og hvernig má þetta vera? Hvað gerir það að verkum að stór hópur bandarískra kjósenda er tilbúinn til að kjósa siðblindan, sturlaðan milljarðamæring sem forseta sinn?

Ég má ekki hugsa til þess að svo verði og því er ég hér. Veit að ég er bara lítill maur í þúfunni en maur er ég samt. Og hvert atkvæði skiptir máli. Mín kona er ekki gallalaus en hún er með fremstu stjórnmálamönnum heims. Þessu og fleiru mun ég velta fyrir mér hér á Herðubreið næstu daga.

Ása Richardsdóttir bæjarfulltrúi, menningarstjórnandi og stuðningskona Hillary

1,281