trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 13/12/2018

Arfur atvinnulífskommanna

Karl Th. Birgisson skrifar

Grímur Hákonarson o.fl.

Litla Moskva, heimildarmynd

Í aðeins klukkustundar langri mynd tekst Grími Hákonarsyni að bregða upp skýrri og stundum bráðskemmtilegri mynd af Neskaupstað og sérstæðri sögu hans.

Hún mótaðist af því að upp úr stríði komust til valda á Norðfirði róttækari menn en víðast hvar annars staðar. Þeir voru sanntrúaðir sósíalistar – kölluðu sjálfa sig stundum kommúnista, þótt það væri ofmælt – og vildu beita félagslegum lausnum á flestum sviðum mannlísins, ekki sízt í atvinnulífinu.

Bæjarstjórnin byggði upp langstærsta fyrirtækið, Síldarvinnsluna, og reyndar fleiri, og smám saman varð erfitt að greina þarna á milli, hins pólitíska valds og atvinnurekstrar í bænum.

Þrír menn voru einkum í forystu og þeir skiptu mjög skilmerkilega með sér verkum: 

Bjarni Þórðarson var bæjarstjóri og ritstjóri bæjarblaðsins Austurlands, ásamt mörgu fleiru. Lúðvík Jósepsson var sendur suður á þing, beinlínis sem fulltrúi Neskaupstaðar, og varð seinna sjávarútvegsráðherra.

Jóhannes Stefánsson var hins vegar í atvinnulífinu. Stutt ágrip af ævistarfi hans segir mikla sögu. Hann var framkvæmdastjóri Pöntunarfélags alþýðu, Samvinnufélags útgerðarmanna og Olíusamlags útgerðarmanna. Hann var framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, Nesútgerðar hf. og Söltunarfélagsins Áss. Auk þess var hann auðvitað bæjarfulltrúi  og í stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar áratugum saman.

Alþýðubandalagið hélt meiri hluta í bæjarstjórn frá 1946 og allt þar til Norðfjörður sameinaðist nágrannasveitarfélögunum fyrir kosningarnar 2002.

Það er því ekki ofsagt að „kommarnir“ hafi hreint út sagt átt Norðfjörð.

Þessi atvinnulífssósíalismi er rauði þráðurinn í þessari fínu mynd Gríms Hákonarsonar, því að þótt víða hafi verið stofnaðar bæjarútgerðir er saga Neskaupstaðar að þessu leyti einstök.

—————

Á þessari löngu valdasetu, ásamt samtvinnun hins pólitíska valds og atvinnulífs, er hins vegar dekkri hlið, sem Grímur nefnir en hefði hugsanlega mátt gera gleggri skil.

Svo rótgróinn valdahópur bregzt óhjákvæmilega öndverður við þegar hann skynjar að eitthvað ógni völdum hans. Það á bæði við um pólitísk framboð og atvinnurekstur á vegum einstaklinga. Af slíkum deilum spretta átök og þegar við bætist, að bæjarfélagið er fámennt, geta þau átök orðið mjög hörð, persónuleg og illvíg.

Um þetta geymir saga Norðfjarðar allmargar ljótar sögur, sem endurspegla bæði einelti og kúgun.

Hin hliðin á þessum peningi er sú, að ungt og hæfileikaríkt fólk sér sér þann kost vænstan að ganga til liðs við valdaflokkinn eða valdablokkina, einfaldlega til þess að ná þeim metorðum eða markmiðum sem það hefur. Það fór enginn í stríð við valdaflokkinn án þess að taka mikla persónulega áhættu.

Þessi þróun mála í Neskaupstað kom því ekkert við, að valdamennirnir voru sósíalistar. Reykjavík er að mörgu leyti hliðstæða eftir áratuga langa valdasetu Sjálfstæðisflokksins þar. Einnig eru þess dæmi að SÍS og Framsóknarflokknum hafi tekizt að ná slíkum ofurtökum á einstaka bæjarfélögum að líktist helzt einræði.

Mannskepnan er einfaldlega svona og þess vegna ættu völd ekki að safnast á svo fáar hendur.

—————

Svo vill til að ég var ritstjóri Austurlands einn vetur um aldamótin og fór ekki varhluta af stemmningunni í bænum. Þá voru aðrir menn teknir við stjórnartaumunum. Guðmundur heitinn Bjarnason var bæjarstjóri, Smári Geirsson forseti bæjarstjórnar og formaður útgáfustjórnar Austurlands, Einar Már Sigurðarson skólameistari hafði verið sendur suður á þing, og Kristinn V. Jóhannsson og fleiri sáu um þann rekstur sem bærinn stóð enn í.

Þetta var reyndar í upphafi Stóru-Bólu og þeirra tímamóta sáust víða merki. Skrýtnustu forsíðufréttirnar sem ég skrifaði voru um að Eimskipafélagið væri orðið stærsti hluthafi í Síldarvinnslunni og að Kaupþing væri að taka yfir rekstur Sparisjóðs Norðfjarðar.

Á meðan ég skrifaði heyrði ég Bjarna Þórðar, Lúðvík og Jóhannes beinlínis hringsnúast í gröf sinni. Þessi þróun mála hefði verið óhugsandi á þeirra tíð.

Fleira var reyndar líka að breytast. Þegar ég tók við sem ritstjóri lét ég af kvikindisskap mínum breyta blaðhausnum. Tók rauða litinn út og setti svartan í staðinn, lit anarkismans. Ég fékk engar skammir, en heyrði út undan mér að forystumönnum Alþýðubandalagsins í Neskaupstað (sem var enn útgefandi blaðsins) þætti þetta hreint ekkert fyndið.

Ég lét líka reyna á önnur mörk. Á Norðfirði er ekkert sem heitir eiginlegt þorrablót. Alþýðubandalagið heldur hins vegar blót sem það kallar Kommablót. Sem ritstjóra Austurlands var mér vitaskuld boðið þangað.

Undir skemmtiatriðum fékk ég þá óvæntu hugmynd að skrifa leikdóm um þessa samkomu, sem ég og gerði og birti í næsta blaði.

Þar var ýmsum hrósað, en gerðar frekar kjarnyrtar athugasemdir við að forystumenn bæjarins kæmu fram í sovézkum hershöfðingjabúningum. Undirliggjandi stemmning á blótinu var nefnilega einhver sovét- og Stalíns-dýrkun sem fór þvert ofan í kokið á mér. Þetta var að vísu allt sagt í gamni gert, en sumt er voða lítið fyndið. Ég stillti mig ekki einu sinni um að nefna hliðstæðuna Hitler.

Þá og aðeins í þetta eina skipti fékk ég símtal frá fulltrúa útgáfustjórnar, sem var alls ekki skemmt. En þeir mega eiga það, að þeir ráku mig ekki. Það hefði mjög sennilega gerzt ekkert mjög mörgum árum fyrr.

—————

Slaufan aftan við atvinnulífskomma-þemað í mynd Gríms er barátta þeirra fyrir álverinu á Reyðarfirði. Rökin fyrir því voru nákvæmlega þau sömu og fyrir stofnun Síldarvinnslunnar og annarra fyrirtækja hálfri öld áður:

Það vantaði atvinnu og það var hlutverk stjórnmálamanna, bæjarstjórna og alþingismanna, að skaffa hana. í þessu tilviki í líki álvers.

Við rekjum þau átök ekki frekar hér, en eitt sló mig í þessum huta myndarinnar. Mig minnir að Gummi Bjarna hafi sagt að þeir hafi verið „heppnir“ að ná að ljúka álversmálinu. Það hefði líklega verið óhugsandi þessum árum síðar og Ingibjörg Þórðardóttir endurspeglar sama sjónarmið með sínum hætti.

Vel má þetta rétt vera hjá þeim, en þá er horft framhjá því sem gerist fyrir framan augun á okkur og núna.

Hver var helzti baráttumaður fyrir kolareyks-spúandi fabrikkunni norður á Bakka? Hann heitir Steingrímur J. Sigfússon og var þá formaður Vinstri grænna.

Hver er á alþingi einn helzti talsmaður laxeldis í sjó fyrir vestan? Hún heitir Lilja Rafney Magnúsdóttir og er þingmaður Vinstri grænna.

Rök þeirra? Jú, fólkið vantar vinnu. Kunnuglegt.

Þeir eru víða, atvinnulífskommarnir.

Hugsið til þeirra um leið og þið drífið ykkur í bíó til að sjá þessa bráðfínu mynd um óriginalana. Þeir voru miklu flottari.

Karl Th. Birgisson

1,343