trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 06/04/2018

Áræði

Ég hef ekki lesið fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar endanna á milli. En ég hef kíkt í hana, fengið nasasjón af henni. Þess vegna sýnist mér ljóst að stjórnarandstaðan hafi ekki verið búin að grufla mikið í henni þegar hún hjólaði í hana. Hún hljóp á sig. Og veit það núna. Þess vegna er kyrrt í pólitíkinni þessa stundina, aðeins einn skýjabakki á himni; kjaradeila ljósmæðra. Úr henni þyrftu, ættu, konurnar í ríkisstjórninni að leysa sem allra fyrst. Þá birtir í kyrrunni.

Pistlinum var ekki ætlað að fjalla um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ætlunin var að skrifa um byggingaráform Landsbankans í Kvosinni. Ég er einn þeirra sem frá upphafi fagnaði þeim áformum bankans að byggja þar. Ekki bara vegna þess að það hlýtur að vera hagkvæmt fyrir bankann að hafa allt sitt starf undir einu þaki, heldur líka, og ekki síður tryggir það líf í miðborginni að hafa svo fjölmennan vinnustað þar.

En svo er það þrætan um hvað eigi að byggja; á það að vera kassi eða kúla, framúrstefna að forneskja?

Andri Snær Magnason, rithöfundur dró upp úr pússi sínu áhugaverða og “öðruvísi” tillögu að nýbyggingu. Fleiri tillögur eru og uppi á borðum. Ef ég þekki stjórnarmenn fjármálastofnana rétt þykir þeim tillaga Andra Snæs léttúðug og munu leggjast gegn henni. Hún fer í ruslafötu þeirra. Að óbreyttu.

Kvosin er miðbær. Þar eiga margir leið um, innlendir sem erlendir. Klasturslegur miðbær er fráhrindandi. Ferkantaður bær er það líka. Sérkennilegur bær með óvenjulegum húsum er forvitnilegur. Og getur verið aðlaðandi. Getur meira að segja verið gleðigjafi, steinsteypt þyrpingin; spennandi, geðfelldur ánægjuauki í veraldarvafstrinu.

Þjóðin á bankann. Þjóðin á höfuðstaðinn og miðbæinn með. Þjóðin ætti að fá að ráða því hvað verður sett ofan í síðustu holuna í Kvosinni. Hún gæti fengið að ráða því ef, … já, ef bankaráðið bæði um leyfi til þess að þjóðin fengi að velja, samhliða sveitarstjórnarkosningunum í vor, á milli tillagna að bankabyggingu sem bárust í verðlaunasamkeppnina sem haldin var hér um árið. Það er enn möguleiki á að bjarga Kvosinni frá ljótleikanum og gera hana hrífandi. Það eina sem þarf á þessu stigi málsins er áræði.

 

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,426