trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 24/05/2017

Amma sem grjótharður töffari. Falleg og sönn kveðja til Jóhönnu Kristjónsdóttur

Eftir Jökul Ingason Elísabetarson

Ég ætla að fá að segja nokkur orð um ömmu Jóhönnu.

Þegar ég var lítill þá var hún svolítið ógnvekjandi.Jökull Ingason Elísabetarson 2

Ég var ekki hræddur við hana en maður sagði ekki hvað sem er við hana.

Þetta viðhorf breyttist svo yfir í algera andstæðu eftir því sem ég varð eldri og áttaði mig betur á henni.

Þangað til maður var farinn að segja hluti við hana sem maður myndi ekki láta hafa eftir sér nokkurs staðar annars staðar.

Á þeim tíma hefði maður aldrei hringt í hana og beðið hana um pening til dæmis.

Móðir mín sannfærði samt sem áður mig og tvíburabróður minn um að til þess væru nú einmitt ömmur, til þess að gefa manni pening.

Ætli við höfum verið um 10 ára?

Við vorum ekki tilbúnir að kaupa þetta fyrr en mamma var búin að tönnlast á þessu í fleiri vikur og sennilega varð örvæntingin okkur að falli á endanum sem leiddi til þess að við hringdum í hana.

Það var erfitt.

En einhvern veginn endaði það á töluvert þægilegri hátt en okkur hafði grunað og við sennilega 500 kr. ríkari.

Við gengum á lagið í nokkur skipti eða þangað til í einu símtalinu kynntum við okkur, ég man ekki hvor okkar það var en amma Jóhanna hafði tamið okkur að kynna okkur ávallt með nafni þegar við hringjum eða svörum í símann.

Við náðum ekki einu sinni að klára að kynna okkur þegar hún greip frammí og svaraði „Já og hvað vantar ykkur mikið núna?“

Við báðum hana ekki oftar um pening.

Hún kenndi mörgum barnabörnum og barnabarnabörnum íslensku og í Hagaskóla þá skikkaði hún mann eiginlega bara sjálf í einhvers konar „eftirsetu“ og þannig fór ég heilan vetur í íslenskukennslu sem ég taldi mig ekki hafa nokkra þörf fyrir.

Það leikur reyndar ekki nokkur vafi á því að eftirsetan kom að gagni.

Íslenskukennslan hófst reyndar löngu fyrir Hagaskóla.

Frá því að ég man eftir mér þá hefur hún barið úr manni alls kyns ósiði og stoppaði mann af um leið og hún heyrði málvillur.

Löngum stundum fékk ég það á tilfinninguna að hún væri alveg að gefast upp á mér og héldi að mér myndi sennilega aldrei takast að venja mig af þágufallssýkinni.

En hún lét ekki deigan síga og ég er mjög þakklátur fyrir það.

Þrátt fyrir að ég geti varla lesið vefmiðil í 2 mínútur án þess að byrja að bölva þágufallssýkinni þarna og -nn villunni hér og svo framvegis.

Hún kom aldrei með dót frá útlöndum. Hún kom með boli sem hún kallaði alltaf T-shirt. Þetta voru yfirleitt túristabolir merktir löndunum sem hún hafði verið í.

Hún kom líka alltaf hlaðin toblerone-i sem fjölskyldan naut góðs af ásamt öllum krökkunum í hverfinu og það er óhætt að segja að það hafi gefið manni þokkalegt „street cred“ að eiga hana sem ömmu.

En svo kom hún oft með landsliðstreyjur. Á meðan vinir mínir áttu treyjur frá helstu stjörnum Brasilíu og Ítalíu og annarra stórþjóða í fótbolta þá átti ég landsliðstreyjur Íran, Jórdaníu og alls konar landa sem ég vissi ekki einu sinni að héldu úti landsliðum í fótbolta.

Amma fylgdist mikið með íþróttum og þá sérstaklega handbolta.

Ég og konan mín komum í heimsókn til hennar með stelpurnar okkar í miðjum úrslitaleik síðustu heimsmeistarakeppni í handbolta.

Við tylltum okkur að vanda inní stofu og þegar amma hafði gengið úr skugga um að við færum okkur ekki að voða þá hljóp hún inn í sjónvarpsherbergi og við sáum hana ekki meir fyrr en að leik loknum.

Annars fékk annars allt annað að sitja á hakanum þegar maður kom í heimsókn. Hún hafði brennandi áhuga á öllu sem við kom fjölskyldunni og áður en maður vissi af var kvöldið úti og eina hreyfingin í þessar klukkustundir var þegar maður hrærði sykur út í nýjan tebolla.

Stelpurnar mínar fengu að kynnast ömmu sem er ómetanlegt.

Það var alveg sama hversu veik hún var eða þreytt, hún tók þær alltaf í fangið, þó ekki væri nema í nokkrar sekúndur.

Hún stoppaði í miðju samtali til þess að leika við þær, byggja bílabrautina eða raða uglunum eða finna liti og blöð.

Hún sagði ekki „ég elska þig“ en það fór ekki á milli mála hvað henni fannst um fólkið sitt.

Hún notaði yfir höfuð ekki eins sterk lýsingarorð og við gerum oft en þegar maður fékk að heyra „það var nú aldeilis ágætt hjá þér“ þá gat maður verið stoltur.

Amma var amma Jóhanna en svo var hún líka grjótharði töffarinn í miðausturlöndunum.

Þegar þangað var komið var eins og hún færi í allt annan gír og maður sá hana í alveg nýju ljósi.

Það var öllum ljóst, ferðalöngum og heimamönnum, hver réði ferðinni.

Það var eins og allir hafi fengið skilaboðin að Ættmóðirin væri komin og á vissan hátt fannst mér hún einhvern veginn frekar á heimavelli þar en hér.

Það fór alla vega ekki á milli mála hvað þessi heimshluti hafði mikla þýðingu fyrir henni enda lagði hún sig mikið fram við að kynna hann fyrir sínum nánustu og öðrum sem vildu.

Drafnarstígur var eins konar miðstöð heimsmálanna og leyndarmálanna.

Allt var rætt og ég held að hún hljóti að hafa vitað leyndarmál okkar allra og nú vonar maður bara að hún taki þau með sér í gröfina.

Það eru svo margir munir á Drafnarstíg sem eru orðnir svo heilagir og hafa verið þarna síðan áður en elstu menn muna.

Rauði stóllinn, töfrastafurinn, stóllinn sem amma sat alltaf í þegar fólk kom í heimsókn, klukkan á skenkinum, uglurnar, stytturnar sem sumar voru svo hryllilegar að ég fæ ennþá matraðir af þeim en eru skyndilega svo sjarmerandi.

Sófinn í sjónvarpsherberginu og allir lamparnir og motturnar og myndin af henni og Yasser Arafat.

Það er hægt að tala endalaust um ömmu Jóhönnu og hér á eftir skulum við gleðjast saman yfir öllum stundunum sem við vorum svo heppin að fá að njóta með henni.

Til lífs og til gleði.

(Minningarorð flutt í Neskirkju 18. maí 2017.)

1,839