trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 19/06/2015

Allt þetta hlýtur að rumska dálítið við kvenfólkinu. Þær fara að setjast upp og nugga stýrurnar úr augunum.

Í tilefni dagsins þykir Herðubreið til hlýða að birta í heild sinni ræðu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, sem hún flutti 7. júlí 1915, þegar íslenskar konur fögnuðu af bæði gleði og alvöru stóru skrefi í átt að kosningarétti.

Það er merkileg lesning, ekki sízt í samtímaljósi.Bríet Bjarnhéðinsdóttir

Í ræðunni talar Bríet minnst um nýfenginn sigur, heldur rifjar einkum upp hin fyrri skrefin í réttindabaráttunni og baráttu einstaklinga, sem leiddu til þessara tímamóta.

Öll ferðalög byrja jú með einu skrefi.

———-

Háttvirta samkoma!

Mér hefur hlotnazt sú sæmd að mega ávarpa yður á þessum mikilvægu tímamótum okkar íslenzku kvennanna. Og fegin hefði eg viljað vera því vaxin, að geta látið endurminningar, óskir og vonir okkar allra bergmála svo í orðum mínum, að þau snertu allar ykkar instu og beztu tilfinningar, að þau vektu heilar fylkingar af björtum hugsjónum og góðum framtíðarvonum, um leið og þér mintust liðna tímans með öllu hans striti og stríði, gleði og sorgum.

En einmitt af því að mér finst framtíðin brosi svo sólbjört framundan okkur, þá er það einni ástæðunni fleira til að staldra við og líka til baka til liðna tímans, til þess að athuga, hvernig hann hefir skilið við okkur og hvað við höfum honum að þakka.

Nítjánda öldin mun lengi verða í minnum höfð fyrir sínar stórstígar framfarir í öllum efnum. Konurnar, sem hvarvetna í heiminum hafa átt erfiðara hlutskipti að sæta en karlmennirnir, hafa á henni risið upp til nýrrar menningar og nýrra starfa. Jafnvel hingað hefir ómurinn af framfaragný stórþjóðanna borizt, og hinar háværu jafnréttiskröfur systra vorra úti í heiminum hafa vakið hér bergmál, þótt veikt sé, og borið ávöxt í meiri menningu, meira jafnrétti og betri kjörum fyrir oss, heldur en vér áttum áður að fagna.

Það yrði oflangt mál að fara hér að telja upp allar þær umbætur á kjörum vorum, sem urðu á nítjándu öldinni, og það því fremur, sem vér getum ekki þakkað oss sjálfum fyrir þær. Íslendingar hafa yfirleitt verið fremur á undan en eftir öðrum þjóðum með að veita konum sínum ýmsar frjálslegar réttarbætur. Þannig voru erfðalögin, sem veittu systrunum jafnan arf og bræðrum, samþ. hér 7 árum áður en þau komust á í Danmörku. Og eftir að alþingi varð löggefandi, tók það óðum að bæta hagi vora með ýmsum frjálslegum lögum. Þannig voru samþykt á alþingi 1881 lög um kosningarrétt allra sjálfstæðra kvenna til sýslunefnda, bæjarstjórna, hreppsnefnda og safnaðarnefnda með sömu skilyrðum og karlmanna, og 1886 var konum með lögum veitt leyfi til að taka próf frá 4. bekk latínuskólans og stúdentspróf, en hvorki máttu þær sitja í tímum í skólanum, né gátu fengið nokkurn námsstyrk við hann. Sömuleiðis máttu þær hlýða á fyrirlestra við læknaskólann og taka jafnvel próf þaðan, en án þess að geta fengið aðgang að embættum á eftir. Nokkurskonar nám máttu þær og stunda á prestaskólanum, en engin fullnaðarpróf taka þaðan. Í engum af þessum umbótum áttum vér konur nokkurn þátt svo að kunnugt sé; það var að eins löggjafarvaldið, sem af „frjálsu fullveldi“, óbeðið af oss, veitt oss þessar umbætur.

Árið 1891 fluttu þeir Skúli Thoroddsen og sr. Ólafur Ólafsson ýms góð og gagnleg lagafrumvörp á alþingi, t.d. um kjörgengi sjálfstæðra kvenna í öllum þeim málum, sem þær höfðu áður kosningarétt til, og um myndugleika giftra kvenna, sömuleiðis flutti sr. Ól. Ólafsson frumvarp um rétt kvenna til að njóta sama námsstyrks og aðgangs að mentastofnunum landsins og karlmenn landsins, þótt ekki næði það þá fram að ganga.

Okkur konum hefir oft verið brugðið um, að við höfum ekkert gert sjálfar til þess að fá aukin réttindi vor. Og það er satt, að lengi fram eftir var það svo. Hvern skyldi líka furða á því að í landi, sem hvorki hefir nokkrar mentastofnanir handa konum sínum, né aðrar atvinnugreinar opnar handa þeim en vinnuhjúastöðu á heimilum, með engum teljandi launum fram yfir fæði og húsnæði, – þótt þær ekki standi svo hátt né séu svo þroskaðar að geta sett óánægju sína fram með fleirum eða færri réttarkröfum. Til þess þarf bæði þekkingu og þroska, sem tæpast getur átt sér stað nema með nokkurri almennri mentun.

Og karlmennirnir héldu heldur ekki fram neinum slíkum jafnréttiskröfum fram fyrir þær. Það voru aðeins einstöku menn á þinginu, sem fluttu mál kvenna, af því þeir voru þroskaðri og víðsýnni en almenningur af samtíðarmönnum þeirra.

Fyrsta greinin sem eg minnist að hafa lesið í íslenzkum blöðum um kvenréttindamálið, stendur í 1. tbl. Fjallkonunnar, 2. árg. 1885; fyrirsögnin er „Kvenfrelsi“. Er þar tekinn skýrt fram hinn afarmikli munur á meðferð karla og kvenna í þjóðfélaginu og raktir helztu drættir kvenfrelsishreyfingarinnar í Ameríku, sem þær hafa barizt fyrir Lukretia Mott og Elisabet Stanton. Grein þessi er ritstjórnargrein og skarplega settir fram stærstu gallarnir: ánauð kvenna og réttleysi hér á landi, einkum mentunarleysi ísl. kvenna og óhæfilega lágt kaupgjald. Sérílagi vítir höf. t.d. laugaferðir og eyrarvinnu. Greinin endar á þessum orðum:

„Það er vonandi að þessi kvennaþrældómur í Reykjavík fari þverrandi, því vér teljum það engar framfarir, þótt Reykvíkingar kæmu upp þrælastétt í landinu eða nýrri kynslóð af hálfvitum.“

Þetta var ágæt vakningargrein og eg er viss um, að hún hefir vakið bergmál í hjörtum margra kvenna, þótt hugsanir þeirra fengju þá ekki enn að komast í blöðin.

En um vorið, 5. júní, kemur þá í fyrsta sinni fram í dagsins ljós grein í 11. tbl. Fjallkonunnar eftir konu. Yfirskrift greinarinnar er: „Nokkur orð um mentun og réttindi kvenna“ (eftir unga stúlku í Reykjavík). Undirskriftin er „Æsa“. Motto greinarinnar er: „ Allstaðar er sá nýtur, sem nokkuð kann“. Vítir greinarhöf. mjög uppeldi kvenna og krefst sömu mentunar og uppeldis fyrir þær og synina. Heimtar að þær séu búnar undir lífið með því að uppeldi þeirra sé hagað eftir hæfileikum þeirra til þess að geta unnið fyrir sér á heiðarlegan hátt, en þurfi ekki að neyðast til giftinga eins og nokkurs konar atvinnu. Höf. minnist lauslega á kosningarrétt kvenna í sveitamálum, sem illa sé notaður af þeim, þótt hann hafi talsverða þýðingu. – En á pólitískan rétt er þar ekki minst. Svo langt vorum við ekki komnar þá. – Þetta er mín fyrsta ritgerð.

Það var Páll Briem amtmaður, sem fyrstur hóf máls á því, að konum bæri að fá full pólitísk réttindi, í fyrirlestri sem hann hélt í Reykjavík 18. júlí 1885. ­ en ekki var það langt frá því, að það þætti hneyksli næst á þeim tímum, að slíkri fjarstæðu væri haldið fram.

Loks erum við þó svo langt komnar að eg áræddi að halda fyrirlestur í Reykjavík 1887, 28. des. um kjör og mentun kvenna. – En ekki einu sinni þá hélt eg fram pólitískum kosningarrétti. Það var mentun kvenna, fjárráð og atvinna, sem eg bar þá fyrir brjósti.

Þá er það að Sk. Th. árið 1887 stofnar Þjóðviljann, og þegar frá fyrstu tekur hann að halda fram fullu jafnrétti kvenna við karla. Þar komu á fyrstu árum fram fjölmargar greinir og bendingar í þessa átt, t.d. um fjárráð giftra kvenna, skólagöngurétt kvenna, að konum sé veittur námsstyrkur á fjárlögunum til að gera notið þess náms við latínuskólann og hina æðri skóla, sem þeim væri heimilað að lögum. Sömuleiðis krefst hann stjórnarfarslegra réttinda handa þeim. Hann sýnir fram á, hversu þær séu fyrir borð bornar réttarfarslega. Allt þetta hlýtur að rumska dálítið við kvenfólkinu. Þær fara að setjast upp og nugga stýrurnar úr augunum.

Þegar svo á þing kom, þá var hann óþreytandi í að minna á konurnar. Fjölmörg frumvörp og tillögur komu frá honum til að bæta úr kjörum þeirra. Og þótt þær næðu fæstar fram að ganga þegar í stað, þá urðu þær beinlínis eða óbeinlínis til þess að alþingi smámsaman samþykti ýms lög, sem bættu úr stærstu misfellunum í þessu máli. Og þegar stjórnarskrárbreytingar voru á ferðinni, þá gleymdi Sk. Th. aldrei að minna á að konur ættu jafnan rétt að eiga atkvæði í löggjöf landsins og karlar, og heimta handa þeim kosningarrétt og kjörgengi til alþingis, sem á þeim tímum þótti mesta fjarstæða.


En alt þetta var þó ekki árangurslaust. Þetta var nokkurs konar ruðningsvinna. Konur fóru að sjá, að það var engin fjarstæða að hugsa sér að fá líkan rétt og karlar höfðu. Yngri konunum hafði fundizt mjög til um að fá að eins að taka fyrrihluta og stúdentspróf frá latínuskólanum, án alls námsstyrks, sem þá var mikill, og hafa að eins aðgang að takmörkuðu námi við prestaskólann, en engan aðgang eða rétt að læknaembættum, þótt þær mættu taka embættispróf í læknisfræði. Við skildum allar, að þetta var mikið ranglæti.

Þá kom háskólahreyfingin. Á alþingi 1893 skutu nokkrir þingmenn saman dálítilli upphæð í háskólasjóð. Og frá þeim barst svo þessi hugsun til þjóðarinnar – bæði kvenna og karla.

Þá var það, að konur fóru að ranka við sér. Þarna var vegur handa þeim til að vera með. Kona háyfirdómara Jóns Péturssonar, frú Sigþrúður Friðriksdóttir, og frk. Þorbjörg Sveinsdóttir, systir alþingismanns Benedikts Sveinssonar, voru báðar þessu máli mjög fylgjandi, og höfðu kynst því í gegnum mann sinn og bróður. Þær tóku sig saman um að efna til tombólu til háskólasjóðs. Það var byrjunin að stofnun hins ísl. kvenfélags. Þessi tombóla sem öll kvenþjóð bæjarins tók þátt í, heppnaðist svo vel, að upp úr henni fengust að mig minnir 1900 kr. nettó. Síðar var fyrsta tilganginum breytt og ákvarðað að þetta skyldi vera byrjun að styrktarsjóði handa fátækum kvenstúdentum við hinn væntanlega íslenzka háskóla. Nú er sjóður þessi orðinn um 4000 krónur.

Upp úr þessum félagsskap vex svo hin fyrsta kosningaréttarhreyfing íslenzkra kvenna. Fyrsta lagagrein hins íslenzka kvenfélags var sú, að félagið skyldi vinna að fullu jafnrétti í öllum málum, milli karla og kvenna, pólitískum kosningarrétti og kjörgengi, „og öðrum þeim málum, sem efst væru á dagskrá þjóðarinnar“. Í annarri grein laganna stóð að félagið skyldi gefa út ársrit, og skyldi þar jafnan standa ein ritgerð um kvenréttindamál. Sömuleiðis átti félagið að láta halda að minnsta kosti 2 fyrirlestra árlega, „og skyldi annar þeirra jafnan vera um kvenréttindamál“. Lög félagsins voru að mörgu leyti góð, hefði þeim verið fylgt fram.

Það er undarlegt, að á vissum tímabilum virðist eins og öflugar hreyfingar í vissar stefnur gangi um heiminn. Þetta átti sér stað um 1894-1895. Kvenréttindamálið fékk þá byr undir báða vængi víða hjá kvenþjóðinni og hér á Norðurlöndum er merkilegt að taka eftir því, að einmitt árið 1895 eru mörg blöð og tímarit stofnuð af konum. – Sama árið sem Kvennablaðið og Framsókn voru stofnuð hér á Íslandi, – án þess að við vissum hverjar af annarri. Boðsbréf Kvbl. kom út 6. nóv. 1894, en 1. tbl. þess 21. febr. 1895.

Framsókn og Kvennablaðið mörkuðu tvær hliðar kvenréttindahreyfingarinnar hér. Kvbl. ætlaði sér einkum uppeldismál, fræðslumál og atvinnumál, en Framsókn stjórnmál, þar á meðal kosningarrétt og kjörgengi kvenna til alþingis, og bindindismál. Enginn vafi er á því, að bæði þessi blöð hafa haft mikil áhrif á íslenzkar konur og þroska þeirra.

Árið 1895 sendi hið ísl. kvenfélag undir forstöðu Þorbjargar Sveindsóttur út áskorun til alþingis um jafnrétti í öllum málum handa konum á við karla, og skyldu nú íslenzkar konur undirskrifa þessa bænarskrá eða áskorun til þingsins. Undirkriftir kvenna urðu um 2200, og getur það kallazt mikið á þeim tímum.

Eins og áður er að vikið, samþykti alþingi 1891 lög um kjörgengi allra þeirra kvenna, sem höfðu kosningarrétt í sveitasókna- og héraðamálum. 1899 fengum vér einnig lög um fjármál hjóna, stórum betri en þau gömlu. Aðalréttarbótin í þeim lögum er: að giftar konur skuli hafa sama fjárforræði og ógiftar, að hægra verði að gera kaupmála milli hjóna en áður var, og með honum tryggja svo fjárhagslega hagsmuni konunnar í hjónabandinu, að takmarka að nokkru leyti rétt og umráð húsbóndans yfir félagsbúinu. Þau setja ýmsar ákveðnar reglur milli hjóna til hagsmuna fyrir konuna. Þau veita hjónum, og þá einkum konunni, rétt til að geta slitið félagsbúinu með séreign, án þess að það hafi hjónaskilnað í för með sér, og tryggja eigur hennar gagnvart skudunautum mannsins. –

Síðan um síðustu aldamótin höfum vér fengið ýms mikilsvarðandi lög konunum til handa. Má þar til nefna kosningar- og kjörgengislög í sveita- og héraðamálum frá 1908, með sömu skilyrðum fyrir alla, karla og konur. Þá eru lögin um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrks og allra embætta landsins frá 11. júlí 1911 sem H. Hafstein flutti, fyrir Kvrfél. Ísl., sem eru merkilegustu réttarbætur, sem vér höfum enn fengið, að undanskyldum stjórnarfarslegu réttindunum, sem vér erum nú að þakka fyrir. Svo langt veit eg ekki neina aðra þjóð kona enn, að hún hafi veitt konum sínum með lögum aðgang að æðstu embættum ríkisins og kirkjunnar. Hér er ekkert því til fyrirstöðu laganna vegna, að konur geti orðið bæði biskup og ráðherra, ef þær hafa sjálfar þau skilyrði, sem til þess eru nauðsynleg.

Eg hef áður tekið það fram, að lengi framan af hafi ísl. konurnar sjálfar lítið eða ekkert gert til að fá kjör sín bætt með lögum. Það hafi að eins verið gert af frjálslyndum karlmönnum, sem hafi tekið málið upp á stefnuskrá sína. Margir halda því fram, að vér konur höfum aldrei gert neitt til þess. – En það er alls ekki rétt.

Þegar Framsókn hætti að koma út, þá tók Kvennablaðið upp kvenréttindastefnu hennar. Aðra pólitík hefur það aldrei fengizt við.

Árið 1906 var hér gerður undirbúningur til að koma á fót nýju félagi, sem við ekkert annað skyldi fást en að vinna að kvenréttindamálunum. Aðallega var sú hreyfing komin til vor frá alþjóðasambandsfélögum kvenréttindamálsins. Því í hverju landi höfðu ýms félög fyr og síðar tekið kvenréttindamálin á stefnuskrá sína, ásamt öðru fleira, t.d. góðgerðastarfsemi. Þetta dró svo úr framkvæmdum og agitationum þeirra fyrir kvenréttindamálunum, og mörg þeirra viltust frá þeim algerlega. Þannig hafði það og verið hér. Frá því að Þorbjörg Sveinsdóttir féll frá, hafði Hið ísl. kvenfélag ekkert sint þeim málum. Því var kvenréttindafélagið stofnað 27. janúar 1908. Þess verk var að vinna eingöngu að agitation fyrir þessum málum. Og það er alls ekkert lítið verk, sem það hefir unnið í þá átt, eftir því sem búast mátti við af nýju fjelausu félagi. Hið ísl. kvenfélag sendi þá og líka út undirskriftaáskorun, sem bæði félögin störfuðu fyrir. Hún fékk 12,000 undirskriftir kvenna.

Síðan Kvenréttindafélag Ísl. var stofnað, hefir ekkert þing verið haldið svo, að það hafi ekki, bæði í gegnum blöð, einstaka menn og á ýmsa aðra vegu, með fyrirlestrum, stofnun sambandsdeilda, undirskriftaáskorunum til alþingis og blaðagreinum, reynt að fá þessu máli hrynt áfram og komið inn á þingmálafundina. Margir af þingmönnum hafa verið kosningarrétti og kjörgengi kvenna til alþingis mjög hlyntir, og sumir þeirra svo, að þeir hafa fylgt því jafnt fyrir það, þótt það væri borið upp af pólitískum mótstöðumönnum þeirra.

Þegar vér því í dag í glóbjarta góðviðrinu, stöndum hér fyrir framan þinghúsið til þess að halda minningarhátíð þess, að vér séum orðnir löglegir borgarar Íslands, með fullum rétti til að vinna sameiginlega að öllum þess velferðarmálum með bræðum vorum, þá verður það fyrst og síðast alþingi og þess leiðandi menn, sem vér þökku þessi stóru réttindi: Skúla Thoroddsen fyrir hans þrautseigu liðveiðslu fyr á þeim tímum, þegar hann mátti tala út í bláinn án þess að heyra annað en hjóm seinna eigin orða, Hannesi Hafstein, sem bæði sem ráðherra og þingmaður hefur stutt að beztu málalokum fyrir mál vor kvennanna, og nú síðast vorum núverandi ráðherra, sem hefir borið málið fram til sigurs, gegnum allar öldur hins ókyrra pólitíska hafs, og bjargað því heilu í höfn.

Það er því með glaðri von og trú, sem vér tökum við þessum réttindum, þótt þau til að byrja með séu ekki eins útfærð og vér hefðum óskað. –

Alþingi Íslands, þessi kjörgripur íslenzku þjóðarinnar, hefir sýnt sig svo velviljað í vorn garð, að vér óskum einskis fremur, en að fá að vinna að sameiginlegum landsmálum með bræðrum vorum, undir löggjafarvaldi þess. Vér vitum vel, að það er fjöregg frelsis íslenzku þjóðarinnar, sem vandlega ber að varðveita að hvorki brákist né brotni, og vér konur munum ekki reynast því ótrúrri liðsmenn en bræður vorir.

Vér heilsum glaðar framtíðinni, þar sem karlar og konur vinna í bróðerni saman að öllum landsmálum, bæði á heimilum og á alþingi.

Guð blessi alþingi Íslendinga, bæði í nútíð og framtíð.

Alþingi lifi!

Bríet Bjarnhéðinsdóttir, 7. júlí 1915, síðdegis. Kvennablaðið 16. júlí 1915

 

1,518