trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 04/07/2015

Allt annað

Það fer kuldahrollur um mig þegar ég staðset í huganum álver að Hafurstöðum á Skaga. Og aulahrollur þegar ég horfi á ljósmynd af forsætisráðherra landsins þar sem hann hreykir sér innan um níu önnur jakkaföt, tvo kjóla og eitt kvenvesti og fagnar undirskrift vegna fyrirhugaðs álvers með lymskubros á vörum.

Olía

Þetta er táknmynd væntanlegrar kosningabaráttu. Hver man ekki eftir röraverkssmiðjuloforðum í Helguvík, loforði um álver fjórum árum síðar, og loforði um sólþynnuverkssmiðju eða eitthvað ámóta fjórum árum þar á eftir? Menn skyldu líka muna eftir ljósmyndum eins og þeirri sem nefnd var hér að framan, birtum í aðdraganda kosninga í Keflavík, og rifja upp heimatilbúna bjartsýni um hálaunastörf fyrir fjöldann. Og? Efndir? Engar! Helguvík rafmagnslaust og sundursprengt og grafið minnismerki um ásjónu græðginnar.

Millifærslan

Og nú á að fara að leika með íbúa Húnavatnssýslu og draga Skagfirðinga með í djammið. Blekkingin hefur verið sviðsett fyrir næstu alþingisframbjóðendur Kaupfélags Skagfirðinga og Framsóknarflokksins. Þeir hafa þegar samið þjóðrembdan texta handa kjósendum á svæðinu að kyrja á baráttufundum: „Við eigum Auðkúluheiði og vatnið í Blöndu! Við eigum Austurdal og Vesturdal og Héraðsvötnin! Við eigum rafmagnið sem verður til úr þessum ám! Við eigum það, við megum það!“ Svo verður sungið fyrir Kaupfélagið og Kínverjana svo að það og þeir verði vænir og velviljaðir, skálað og skellt undir kvið.

Blönduós að Skagaströnd, Skagi til norðurs, um Kálfshamarsvík og Kaldrana, fyrir tána og inn í Skagafjörð er stórbrotin ökuleið, fjársjóður þjóðar sem ætlar að lifa af því að leyfa heiminum að njóta náttúruauðæva sinna.  Þarna eru Hafurstaðir með íðilgrænt land upp af misbláum flóanum, galopnum. Landgæði eru nýtt þótt ekki sé búið lengur á jörðinni. Þarna yrði álverið með ópum sínum og ónýtu lofti ef…; kýli sem vessar úr, upp í loft og út í sjó, í áratugi ef… Og þarna rétt norðan við Hafursstaði er Höfðakaupstaður, skagastrond.is. sem fengi álbræluna yfir sig í sólskini og sunnanvindum þýðum.

Bláklukka

Skagaströnd. Þar er ekki bara land og saga, ekki bara mildi og hrotti veðursins, þar er líka mannlíf. Þar er Fræðasetur, eftirsótt listamiðstöð, Menningarfélagið spákonuarfur og Bio Pol ehf., sjávarlíftæknisetur í eigu heimamanna sem starfar í samvinnu við Háskólann á Akureyri, Scottish Association for Marine Science, Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar Íslands og Selasetur Íslands. Starfsemi þess byggist á rannsóknum á lífríki Húnaflóa. Markmið rannsóknanna beinast m.a. að möguleikum á nýtingu sjávarfangs og umhverfisvöktun með sérstaka áherslu á að fylgjast með breytingum á lífríkinu, áhrifavöldum og afleiðingum.

Á heimasíðu fyrirtækisins segir svo um ávinning og framtíðarsýn: „Þess er vænst að niðurstöður verkefna setursins „leiti út á markað“ og að í framhaldinu myndist sprotafyrirtæki sem hefji framleiðslu á ýmsum vörum til neytenda eða til áframhaldandi vinnslu. Slík fyrirtæki yrðu ekki síst stofnuð á landsbyggðinni í nágrenni setursins. Þá er þess vænst að setrið tryggi forystu Íslands á nýtingu verðmæta úr sjó og sjávarfangi og geri svæðið að nk. „Silicon Valley“ á starfssviði sínu.“

Þetta er stórhugur. Þarna er framtíðarsýn sem vert er að gefa gaum. Fyrirtæki sem á skilið að fá til sín fjármagn og rafmagn og velmenntað fólk; í raun allt annað en kosningaleikjaálver frá níðhöggum lífríkisins.

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,472