trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 27/03/2019

Algerlega skiljanlegt

Nú vilja flugmenn Wow láta rannsaka hvatir að baki skrifum fjölmiðla um félagið. Það er skiljanlegt.

Skiljanlegt merkir hér ekki réttmætt. Alls ekki og víðs fjarri því. Það merkir bara skiljanlegt.

Við búum nefnilega í samfélagi þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson heldur því fram að Panama-skjölin og Wintris-málið séu einhvers konar alþjóðlegt samsæri gegn honum sjálfum. Einhvers staðar undir og allt um kring sveimar George Soros í hugarfylgsni fyrrverandi forsætisráðherra.

Líka þar sem Miðflokkurinn meira en gefur í skyn að yfirgengileg mannhaturshegðun þingmanna hans á barnum Klaustri hafi verið að undirlagi öryrkja úti í bæ og hefur dregið hann fyrir dómstóla vegna þess. Þingmennirnir eru eiginlega fórnarlömb að eigin mati.

Enn fremur halda sömu þingmenn því fram að eðlileg umfjöllun siðanefndar alþingis um hátterni þeirra sé pólitískar ofsóknir, nú síðast í einhverju samsæri með Ríkisútvarpinu. Þar þurfi ekki frekari vitna við, sagði í tilkynningu frá flokknum í dag.

Við búum ennú frekar í samfélagi þar sem ritstjóri annars dagblaða landsins romsar upp úr sér reglulega slíkum fantasíum, að við myndum öll hlæja ef við hefðum ekki á tilfinningunni að hann væri raunverulega þessara skoðana og vildi láta taka mark á sér.

Ekki verður Jón Baldvin Hannibalsson heldur skilinn öðruvísi en svo, að fjöldi kvenna hafi sammælzt um að ljúga upp á hann alls kyns misógeðfelldum sökum.

Og við erum ekki einu sinni byrjuð á öllu hinu, til dæmis borgarfulltrúa Miðflokksins sem verður aðhlátursefni vegna þess að hún talar þvert gegn öllum vísindalegum staðreyndum.

Gott og vel. Þetta fólk má sannarlega lifa í sínum sérkennilega hugarheimi og ekki skulum við hamla tjáningarfrelsi þess. En á meðan fjölmiðlar og allir aðrir, sem taka þátt í samfélagsumræðunni, láta eins og þessi sjónarmið séu gilt umræðuefni, að um þau þurfi í alvörunni að tala eins og baki þeim liggi einhver rök eða hugsun, þá er næsta mál á dagskrá að efna til rökræðna um hvort jörðin sé flöt.

Ættum við ekki að taka svosum einn þátt á útvarpi Sögu um þá spurningu?

Við þessar aðstæður er bara algerlega skiljanlegt að flugmenn Wow, sem vilja fyrirtæki sínu vel, spinni upp úr sér einhverja óra um að blaða- og fréttamenn landsins séu á mála hjá helzta keppinautinum.

Þeim er eiginlega vorkunn.

Fordæmin birtast þeim og okkur á hverjum degi.

Karl Th. Birgisson

1,403