trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 07/04/2015

Alcoa boðar stjórnmálamenn á fund sinn. Vill meðal annars ræða umhverfismál. Virðist vera einsdæmi

Jón BjörnUm miðjan mars boðaði álfyrirtækið Alcoa Fjarðaál á sinn fund sveitarstjórnarmenn í stærstu sveitarfélögum á Austurlandi. Verkefnið var að ræða stefnumörkun í mikilvægri almannaþjónustu.

Til fundarins var stefnt kjörnum fulltrúum í Fjarðabyggð (Neskaupstað, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Mjóafirði), Fljótsdalshéraði (Egilsstöðum og nágrenni) og Seyðisfirði.

Umræðuefni fundarins var stefnumörkun í heilbrigðis-, samgöngu- og umhverfismálum. Framsögu í þessum málaflokkum höfðu Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu og Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar.

Þetta kemur fram í nýlegu tölublaði Austurgluggans, á sérstakri síðu sem heitir „Fréttir frá Fjarðaáli.“

Ef marka má umfjöllun í blaðinu komu allir forystumenn sveitarfélaganna þriggja til fundarins, og raunar gott betur – bæjarstjórarnir þrír tóku að sér stjórn hópavinnu og gerð ályktana um málefnin þrjú.

Fundurinn var haldinn í álverinu í Reyðarfirði og deginum lauk með kvöldverði í boði Fjarðaáls.

Herðubreið er ekki kunnugt um að einkafyrirtæki í öðrum sveitarfélögum hafi boðað sveitarstjórnarmenn eða aðra stjórnmálamenn til funda á sínum vegum til að ræða og álykta um almenna stefnumótun í samfélaginu – og þar með hagsmuni þessara sömu fyrirtækja – né heldur að sveitarstjórnarmenn hafi þekkst slík boð.

Ítrekað hefur komið fram í Kastljósi Ríkisútvarpsins að Alcoa Fjarðaál hefur ekki greitt neinn tekjuskatt allan starfstíma sinn, þrátt fyrir milljarðahagnað af rekstri þess. Ágóðinn hefur þess í stað runnið til móðurfyrirtækja erlendis.

Einnig hefur mengun frá álverinu í Reyðarfirði verið meiri en leyfilegt er. Þannig hefur flúormengun farið fram úr þeim mörkum sem starfsleyfi mælir fyrir um og Umhverfisstofnun hefur sett upp sérstaka vakt þess vegna.

(Mynd: Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð.)

Flokkun : Efst á baugi
1,361