trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 12/09/2018

Afsakið, hlé!

Félagi Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokks Vg, hefur misst tiltrú mína á stuttum tíma. Í mars síðast liðnum greindi hún frá því í sjónvarpsþætti að sú upphæð sem alþingi greiðir henni í húsnæðis- og dvalarkostnað,  187.000.- krónur á mánuði, dugi henni ekki fyrir afborgunum af lánum á íbúð sem hún hefur keypt í Reykjavík.

Í allri þeirri umræðu sem fór fram um mjálm þingkonunnar vegna of lágra húsaleigubóta í vetur og vor man ég ekki eftir að hafa heyrt talað um það hvers lags kvittun hún tekur fyrir greiðslunum. Þetta er ekki framlag þingsins til húsakaupa; þetta er til þess að greiða húsaleigu. Því er spurt: Hver gefur út kvittun fyrir móttöku húsaleigugreiðslunnar úr hendi þingmannsins? Er það þingflokksformaðurinn Bjarkey? Fasteignafélagið Bjarkey ehf? Eða og: Hvernig er þessi upphæð talin fram til skatts hjá leigutaka og leigusala? Er þingmaðurinn ekki að misnota leigufé með því að ráðstafa því til húsakaupa? Þarf þingið ekki, svona upp á traust almennings til þess, að breyta reglum um húsaleigustyrki yfir í húsakaupaframlag eða eitthvað svo löglegt sé að nota peninginn til þess að auka auðlegð sína?

Þótt ég efist um það kann að vera. að vegna undarlegra reglna um þingfararkaup, sé allt sem félagi Bjarkey hefur gert í þessum málum fyllilega löglegt. En það er ekki mikill heiðursbragur yfir því. Ekki aðferð til þess að vinna þinginu traust almennings.

Auðvitað hefði ég átt að skrifa um þetta fyrr. Ég hef enga afsökun fyrir því að hafa ekki gert það. En á því er þó skýring. Ég hélt, og vonaði, að þingkonan mundi taka sig á, leiðrétta þetta og biðjast afsökunar. En í sex mánuði hef ég ekkert séð frá henni í þá veru.

Hinsvegar. Já, hinsvegar hefur konan stigið fram sem formaður þingflokks Vg og  látið að því liggja að fjölmiðlar séu í ljótum leik við þingmenn; vilji endilega koma óorði á þá. Visir.is sagði svo frá í gær og vitnaði í útvarpsviðtal við Bjarkey frá því fyrr um morguninn:

„ …fjölmiðlarnir eru ekkert endilega að velta fyrir sér innihaldi þess sem sagt er heldur bara; þetta er sniðugt, þetta selur, þetta klikkar á vefinn og það er ekki hægt að neita því að það hefur verið þannig. Því miður finnst mér.“

Og hvernig leggst þessi skilgreining í kjósendur?

Hér er eitt sýnishorn. líka úr Vísi.is. Snæbjörn Brynjarsson, merkur menningarrýnir í sjónvarpi segir þetta um túlkun þingkonunnar: „Var að hlusta á morgunvaktina á rás 1. Þar var Bjarkey Olsen þingflokksformaður spurð út í hvers vegna traust á stjórnmálamönnum væri lítið. Það reyndist að mati formannsins vera vegna fjölmiðla og hvernig þeir segja frá pólitíkinni.“

Hvoru tveggja málin sem hér hefur verið tæpt á eru vandræðaleg. Líka hallærisleg. Umfram allt eru þau þó lágkúruleg. Allt í þeim rýrir traust.

En ef til vill finnst einhverjum þetta vera smámál. Mér þykja þau alvarleg, svo alvarleg að félagi Bjarkey ætti að segja af sér þingflokksformennsku þegar í stað, taka sér frí frá þingstörfum fram yfir áramót og hugleiða hvort hún sé hæf til þess að sitja á þingi og setja löndum sínum lög sem þeim ber að fara eftir. Hún gæti svo tilkynnt okkur, félögum sínum og kjósendum, rökstudda niðurstöðu eftir áramót.

 

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi, Pistlar
1,344