trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 06/05/2014

Afleiðingar óttans

Eftir Benedikt JóhannessonBenedikt

Um miðjan febrúar síðastliðinn vorum við Jóhannes, sonur minn, að ræða hvaða draugar ættu að vera með í þjóðsagnaúrvalinu okkar. Fulltrúi móranna var kominn, Írafellsmóri sem fylgir okkar fólki var kominn inn, og við vorum að leita að heppilegri skottu. Mórar og skottur eru sendingar galdramenn mögnuðu upp sem eiga að gera öðrum illt, en stundum fer það svo að þær koma aftur í hausinn á þeim sem vöktu þær upp.

Sjálfur átti ég mér einskis ills von. Fæ ég þá magnaða sendingu í tölvupósti upp úr þurru:
„Á Hrafnaþingi, umræðuþættinum á ÍNN, sögðu allir vitringarnir að það ætti bara að fá inn í þingið þingsályktunartillögu um að SLÍTA viðræðum við ESB. Grjótharðir á því. Þessir vitringar eru Hallur Hallsson, Jón Kristinn Snæhólm, Óli Björn Kárason og þingmaðurinn Guðlaugur Þór sem mun hafa verið á sömu línu. Það er ekki góðs viti.“
Nokkrum mínútum seinna kom annar póstur:
„Thetta eru somu upplysingar og eg er med.“
Þetta var 15. febrúar.
Dagana á eftir fékk ég nokkra pósta af þessu tagi. Auðvitað getur það hafa verið tilviljun, en sennilegra finnst mér þó að vitringarnir hafi átt að flytja landslýð þennan boðskap til þess að kanna hvort það væri ekki alveg óhætt að smella út svona tillögu.
Orðrómurinn varð svo þrálátur að ég ákvað að boða til fundar í Sjálfstæðum Evrópumönnum í hádeginu föstudaginn 21. febrúar. Í fundaboði þann 19. febrúar sagði ég: „Í ljós hefur komið að nota á nýútkomna skýrslu Hagfræðistofnunar sem yfirvarp til þess að slíta samningaviðræðum við Evrópusambandið.“
Ég fékk nokkra pósta til baka. Einn fannst mér komast að kjarna málsins:
„Sæll Benedikt.
Ég hygg að frændi þinn átti sig ekki fyllilega á afleiðingum þess að slíta samningaviðræðum við ESB.
Held að hann sjái ekki nógu langt í þessari stöðu á taflborði stjórnmálanna – er kannski ekki með nógu vitra ráðgjafa sér við hlið.
Margar fjölskyldur á Íslandi glíma enn við mjög erfiða fjárhagsstöðu í kjölfar hrunsins. Hafa étið upp sinn sparnað og sjá ekki greiða leið fram veg. Þar gildir einu hvort um var að ræða sjálfskaparvíti eður ei.
Þessa speki hef ég m.a. frá skynugum leigubílstjóra sem segist aldrei hafa upplifað jafnmikið um rifrildi hjóna/para og síðustu mánuði. Það segir hann mælikvarða á slæma fjárhagsstöðu heimilanna.
Rétt eins og forfeður okkar þraukuðu hörmungar miðalda víð ljóstýru Íslendingasagna og sagna af huldufólki er möguleikinn á betra lífi innan ESB úrkostur sem gefur fólki von – sviðsmynd framtíðar sem er gott að vita af þó að maður hafi jafnvel sínar efasemdir um bandalagið.
Fyrir þessu fólki – og fjölmörgu öðru – er uppörvandi að vita af möguleikanum á því að ganga í ESB með tilheyrandi lagfæringu á vöxtum í krafti alvöru gjaldmiðils.
Þetta fólk er alls ekki endilega allt Evrópusinnar, sumt hlutlaust eða jafnvel frekar andvígt – en að skera þennan möguleika burt er líkt og að skera burt helstu sviðsmyndir betri afkomu í framtíðinni.
Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Miklu fleiri munu rísa upp á afturlappirnar en hafa látið í sér heyra áður ef þessi úrkostur verður rifinn af fólki með offorsi.
Afleiðingin verður umtalsverð fylgisfærsla frá Sjálfstæðisflokknum yfir á Bjarta framtíð og Samfylkingu sem erfitt getur reynist á ná til baka.
Nóg hefur verið gert af mistökum í fortíðinni þó að þessi bætist ekki við.“
Ég ákvað að senda þennan póst samdægurs á formann Sjálfstæðisflokksins. Marga fleiri pósta fékk ég frá reiðu fólki, en þessi var kurteislegur og málefnalegur, finnst mér. Ég veit að flestir foringjar heyra það bara frá fólki sem það heldur að þeir vilji heyra. Þess vegna fannst mér ágætt að þessi rödd heyrðist líka.
Á föstudeginum 21. febrúar héldum við Sjálfstæðir Evrópumenn fund í hádeginu og sendum ályktun frá honum á þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Rétt fyrir fundinn fréttum við að búið væri að boða fund í þingflokknum klukkan tvö þennan dag. Þar lagði formaður flokksins fram ályktun Gunnars Braga um að slíta skyldi viðræðum þegar í stað. Ekki veit ég um hvað rætt var, en enginn ráðherra flokksins mun hafa bent á að þetta gengi þvert á loforð þeirra allra, hvers og eins einasta, fyrir kosningar.
Bjarni var spurður á beinni línu í DV fyrir kosningar, þann 18. apríl 2013: „Hvað á ég að segja Evrópuþinginu að verði um aðildarumsóknina eftir kosningar ef þú kemst í ríkisstjórn? :)“
Bjarni svaraði: „Skilaðu til þeirra að það hafi skort lýðræðislegt umboð og þess vegna ætlum við að stöðva viðræðurnar.“
Ég var spurður út í þessi ummæli á Eyjunni daginn eftir og svaraði:
„Bjarni hefur sagt að kjósa beri um framhald viðræðna á fyrri hluta kjörtímabilsins og það sama hefur Hanna Birna sagt. Á fjölmennum fundi nefndi Bjarni að heppilegur tími gæti verið næsta vor með sveitarstjórnarkosningum. Það hljómar skynsamlega, þá verður þátttaka almenn og kostnaður lítill. Í ljósi þessara yfirlýsinga geri ég ekki athugasemdir við ummæli Bjarna. Hann er sjálfum sér samkvæmur.“
Ég veit að margir kusu flokkinn út á þetta loforð. Samt fékk hann ekki nema tæplega 27% fylgi, rúmlega 9 prósentustigum minna en Hönnu Birnu fannst lítið þegar hún bauð sig fram á móti Bjarna.
Sumir hafa hæðst að mér opinberlega fyrir að trúa þessum orðum, en það gerði ég sannarlega. Maður á að trúa heiðarlegu fólki. ÁEyjunni 18. ágúst 2013 er aftur talað við mig og ég sagði:
„Þetta var skýrt loforð hjá Bjarna Benediktssyni fyrir kosningar að kosið yrði um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Ég hef aldrei reynt Bjarna að því að svíkja loforð, enda væri ekki gott að byggja upp ríkisstjórn á sviknum loforðum“
Á það hefur verið bent að enn hafi engin loforð verið svikin. Ekki sé búið að slíta viðræðunum enn, þó að ráðherrar tali um að of mikill flýtir sé á málinu, en enginn þeirra sagt að tillagan hafi verið misráðin. Enn það er ekki búið að slíta enn.
Enn sé ráðrúm til þess að kjósa um framhald viðræðna á fyrri hluta kjörtímabilsins. Við höfum enn tæpt ár til stefnu. Ráðherrar tala um að auðvitað sé hægt að kjósa, en þeir vilja bara kjósa um eitthvað annað en þeir lofuðu.
Ég hef alltaf haft miklar mætur á Bjarna Benediktssyni og hef enn. Hann er kurteis og málefnalegur í umræðu, sem er því miður fágætur eiginleiki. Hann hefur með störfum sínum í fjármálaráðuneytinu unnið sér virðingu margra.
Við vorum á svipaðri skoðun í Evrópumálum um áramótin 2008-9. Nú hefur hann breytt um skoðun en ég ekki. Við því er ekkert að segja, menn eru ekki alltaf á sömu skoðun.
Af því að við Bjarni erum frændur finnst mörgum þetta dramatík. En við verðum jafngóðir vinir áfram þó að við séum ekki sammála um allt.
Sumir hafa talað um að nýr stjórnmálaflokkur verði klofningur úr Sjálfstæðisflokknum. Aðrir tala um að það séu ekki nema 10% sjálfstæðismanna sem hafi svipaðar skoðanir og ég aðhyllist í Evrópumálum. Því verði ekki um klofning að ræða þó að þessi hópur hverfi og andrúmsloftið ánægjulegra en áður.
Þeir síðarnefndu eru nær sanni. Undanfarna daga og vikur hef ég talað við fjölmargt fólk, einkum ungt fólk, sem segist hafa stutt Sjálfstæðisflokkinn árið 2007 en telur sig ekki eiga neina samleið með honum núna. Þess vegna verður ekki um klofning að ræða, frekar að við flísumst nokkur úr.
Nýr flokkur verður ekki klofningur úr neinum flokki heldur gæti hann höfðað til hóps sem hinir flokkarnir ná ekki til lengur. Við sem að honum stöndum höfum ákveðnar hugsjónir sem við viljum berjast fyrir. Svo kemur í ljós hvort við verðum nógu mörg til þess að ná árangri í kosningum.
Af því við höfum kennt okkur við Viðreisn finnst mér vel við hæfi að vitna í orð Bjarna Benediktssonar eldra við setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins árið 1969:
„„Hingað til hefur það dregist um of af því, að við höfum verið hræddir um, að samvinna við aðra yrði okkur ofvaxin. Ef við látum þann ótta vera okkur lengur fjötur um fót, fer ekki hjá því, að við drögumst aftur úr. Hinir óttaslegnu menn verða að gera bæði sjálfum sér og öðrum grein fyrir hverjar óhjákvæmilegar afleiðingar óttans eru:
Sífelldar sveiflur í lífskjörum og hægari og minni framfarir til lengdar í okkar landi en öðrum, sem búsettar eru af þjóðum á svipuðu menningarstigi og við. Ef menn vilja einangrun, þá verða þeir að taka afleiðingum hennar og reyna þá hvorki gagnvart sjálfum sér né öðrum að hræsna með því, að þeir séu hinir mestu framfaramenn. Þeir eru þvert á móti menn afturhalds og úrtölu. Einangrunin, sem nærri hafði drepið þjóðina á löngum, þungbærum öldum, er þeim runnin svo í merg og bein, að þeir standa uppi sem nátttröll á tímum hinna mestu framfara.
Vísindi og tækni nútímans og hagnýting þeirra er bundin  þeirri forsendu, að víðtækt samstarf eigi sér stað. Þess vegna leita jafnvel stórþjóðirnar samstarfs hver við aðra, jafnt stórar þjóðir sem smáar. Ef stórþjóðunum er slíkt þörf, þá er smáþjóðunum það nauðsyn. Auðvitað verður að hafa gát á. En eðlilegt er, að almenningur spyrji: Ef aðrir, þeir sem okkur eru líkastir að menningu og efnahag, hafa svo góða reynslu, hví skyldum við þá óttast, að reynsla okkar yrði önnur og lakari?“

Þessi orð eiga ekki síður við í dag en fyrir 45 árum.

Benedikt Jóhannesson, 5. maí 2014

1,369