trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 13/11/2019

Afleiðingar? Látið ykkur endilega dreyma

Karl Th. Birgisson skrifar

Afhjúpanir Kveiks, Stundarinnar og fleiri í kvöld um gerspillta viðskiptahætti Samherja voru í senn sláandi, ömurlegar og sorglegar.

En þó varla hægt að segja að þær hafi komið á óvart. Þær voru líkari tíu ára gömlum endurómi úr hrunskýrslunum:

Moldríkir kapítalistar á borð við Þorstein Má Baldvinsson eru reiðubúnir að gera nánast hvað sem er til að græða enn fleiri milljarða. Meiraðsegja að ræna bláfátækt fólk. Þannig var það og þannig er það.

En hvað? Hefur þessi ömurð þá ekki einhverjar afleiðingar? Því hljóta að fylgja eftirmál þegar upp kemst um slíkt siðleysi til margra ára?

Kannske, en þá harla lítil. Bara sorrí með það.

Hugmyndaríkt fólk ímyndar sér að ríkisstjórnin kunni að riða til falls. Hvers vegna í ósköpunum ætti það að gerast?

Augljósa svarið er náin tengsl Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra við Samherja fyrr og síðar.

Og hvað? Vissi Kristján Þór af þessu drullumakeríi Samherja í Namibíu og Angóla, en sagði engum frá því? Ef einhver gögn væru því til stuðnings hefðu þau væntanlega komið rækilega fram í umfjöllun miðlanna.

Ef þeir sem kalla eftir afsögn Kristjáns eða jafnvel falli ríkisstjórnarinnar hafa sannindamerki um slíka vitneskju ættu þeir að benda á þau. Að þeim ókomnum fram er hins vegar engin ástæða til að ætla að Kristján Þór hafi vitað um einstaka millifærslur Samherja í Kýpur, Noregi og Afríku. Að halda slíku fram er rógur, en ekki einu sinni skoðun.

Aðar afleiðingar? Jú, Ögmundur Jónasson krefst þess að Samherji verði sviptur öllum aflaheimildum sínum. Það er nú svo, og gott að hafa heykvíslarnar enn í seilingarfjarlægð.

Mikil guðs blessun er að Ögmundur skuli ekki lengur vera dómsmálaráðherra, ef hann telur í alvörunni að ríkisvaldið geti gengið fram með þeim hætti í landi sem reynir þó stundum og þrátt fyrir allt að vera einhvers konar réttarríki.

Þið hin getið bara látið ykkur dreyma um aðrar hugsanlegar afleiðingar. Svona mál hafa hins vegar aldrei tiltakanlegar afleiðingar.

Muniði Panamaskjölin, sem voru miklu stærra og umfangsmeira mál? Þar var forsætisráðherrann okkar glæsilegi. Auðvitað kölluðu þeir eftir afsögn hans, sem alltaf kalla. Það gerðist ekki.

Það gerðist ekki fyrr en hann fór á Bessastaði til að heimta þingrof. Ólafur Ragnar nánast vísaði honum á dyr og hélt fordæmalausan blaðamannafund til að útskýra meðferð sína á forsætisráðherranum.

Þá, en ekki fyrr, brast þolinmæði samstarfsfólks Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gagnvart honum og lygaþvælunni sem rann upp úr honum um Wintris. Þá – en ekki fyrr.

Í Panamaskjölunum var líka fjármálaráðherrann okkar virðulegi. Ósannindin um Falson og allt hitt hafði þær skelfilegu afleiðingar fyrir Bjarna Benediktsson að hann varð forsætisráðherra í næstu ríkisstjórn. Og er nú aftur fjármálaráðherra.

Þorsteinn Már Baldvinsson er ekki einu sinni stjórnmálamaður. Hann getur ekki einu sinni sagt af sér þótt hann vildi, sem hann vill náttúrlega ekki enda finnur hann hvorki í sér skömm né heiður.

Saksóknari hefur tekið Afríkuspillingarmálið til athugunar. Kannske finnur hann næg gögn til að höfða mál á hendur Samherjahyskinu fyrir mútugreiðslur og önnur lögbrot. Kannske ekki.

En jafnvel þótt svo fari er lögmönnum treystandi til þess að þæfa það mál í mörg ár, og nánast engar líkur eru á að Þorsteinn Már þurfi að kynnast eldhúsinnréttingunni á Kvíabryggju.

Hann hefur hins vegar verið afhjúpaður sem siðblindur gróðafíkill og við getum varla litið hann öðrum augum héðan í frá.

En mjög sennilega er honum slétt sama. Hann er í bissniss og maður er í bissniss til að græða (nema á Mogganum). Með öllum tiltækum ráðum. Til að ná í nokkra milljarða í viðbót.

Þannig var það og þannig er það.

Og þannig verður það. Að óbreyttu.

Karl Th. Birgisson

1,650