Af lyddum
Dómari fær hlutabréf í arf árið 2002. Hann spyr nefnd um dómarastörf hvort hann megi þiggja arfinn og eignast bréfin. Hún veitir leyfi til þess. Hálfu öðru árið síðar selur hann hluta bréfanna og lætur eftirlitsnefnd með dómarastörfum vita af því. Fjórum árum síðar selur hann þau bréf sem eftir eru. Þegar þarna er komið hefur það tíðkast í nokkur ár að bankar bjóðast til þess að sjá um peninga fyrir gest og gangandi og ávaxta þá, oft án afskipta þess sem aurinn á. Þetta þáði dómarinn og setti stærsta hluta andvirðis bréfanna í eignastýringu hjá einum bankanna. Bankinn keypti síðan hlutdeildarskírteini fyrir hönd dómarans í ýmsum verðbréfasjóðum sem almenningi stóð til boða. Allt var þetta eftir bókinni, eins og sagt er, samkvæmt lögum og reglum.
Nú, fjórtán árum síðar, er málið vakið upp með stóryrðaflaumi, hálf kveðnum vísum og ásökunum á hendur dómaranum. Það er ýjað að því að hann sé siðlaus peningabraskari sem í dómarakufli hafi úrskurðað okkar framsæknu bankamenn í fangelsi fyrir að hafa týnt peningunum hans í hruninu; hann hafi verið að hefna sín á bankamönnunum okkar.
Í gærkveldi lauk ég við bók eftir Wibke Brunns. Hún er útgefin af Uglu og ber titilinn Land föður míns, saga þýskrar fjölskyldu. Í bókinni er meðal annars lýst uppgangi þjóðernisofstækisins í Þýskalandi; orðfæri nasistanna og athöfnum. Orðaforðinn er óþægilega líkur þeim sem brúkaður var nýverið í Bandaríkjunum fyrir forsetakosningarnar og í Bretlandi þegar þar var kosið um ESB; stóryrði, blekkingar, lygar.
Í máli dómarans er reginmunur á því sem gerðist og hinu sem borið er út að hafi gerst. Hyldýpi. Frásagnarháttur fjölmiðla minnir á það tungutak sem viðhaft var í árdaga þýsku þjóðrembunnar: Það er verið að skapa vantrú á dómskerfinu. Slíkur gjörningur sprettur ekki upp af engu. Það standa einhverjir á bak við hann, hrinda honum af stað. Trúlega menn og konur sem telja sig hafa persónulegan hag af því að landsmenn missi trú á réttarkerfið. En þeir munu ekki ganga fram, felumennirnir, ekki af eingin hvötum. Það er ekki þeirra háttur; þeir eru lyddur og fela sig svo lengi sem kostur er.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020