Af hverju en?
Þingmenn Framsóknarflokksins hafa verið að senda frá sér greinar um þjóðfélagsmál að undanförnu. Hver grein er undirrituð af tveimur þingmönnum hverju sinni. Orðfæri greinanna er keimlíkt; einnig uppbygging þeirra. Eins og verksmiðjuframleiðsla, líkast spuna almannatengla á tímakaupi.
Nýjasta greinin birtist í Fréttablaðinu í dag, 1. október. Hún er um húsnæðismál og hefst hefst á þessum orðum: „Ein helsta áhersla Framsóknar – á þessu kjörtímabili sem öðrum – hefur verið á heimilin í landinu.“ Þessu næst er vægt raup um afrek flokksins í húsnæðismálum. Þá greina þingmennirnir af þekkingu sinni frá því að brýnt sé „að byggja upp leigumarkaðinn … bæði með auknu framboði hagkvæmra eininga og breytingu á húsaleigulögum … og verða frumvörp þess efnis lögð fram á þingi nú í haust. …Eitt af þessum frumvörpum gengur út á að leggja grunn að nýju leiguhúsnæði (hvað sem þessi orðhengill merkir) … og í heildina er áætlað að byggja 2.300 leiguíbúðir á næstu 4 árum … (það) ætti að jafnaði að leiða til þess að leigan nemi ekki hærra hlutfalli en 20-25% af tekjum … (og) tryggja húsnæði til lengri tíma.“ Ætlan þingmannanna er að þetta verði „fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins sem nema um 30% af stofnkostnaði.“ Greininni lýkur á sama inntaki og hún hófst, orðað svona í endurvinnslunni: „Okkar áhersla er og verður á heimilin í landinu.“
Sum sé; allt er þetta fagurt og frítt eins og ásjóna flokksins. En svo er það raunveruleikinn. Lítum á hana.
Nýverið var frá því skýrt að Íbúðalánasjóður hefur, undir stjórn framsóknarflokksráðherra, selt 300 eignir „saman í pakka“ til leigufélaga það sem af er ári og vitað er að margar þeirra eru leigðar út til skamms tíma fyrir ofurverð. Þá er og vitað að sjóðurinn á nú meira en 1400 íbúðir óseldar. Framsóknarráðherrann hefur yfir þeim á segja. Ef hans „áhersla er á heimilin í landinu“, eins og flokkssystkini hans vilja meina ætti hann þá ekki þegar í stað að hefja úthlutun á þeim til efnalítilla fjölskyldna og leigja þeim „til lengri tíma“ fyrir gjald sem væri „ekki hærra hlutfalli en 20-25% af tekjum“?
En…
Já, af hverju en?
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020