trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 11/05/2017

Af erfingjum

Eigendur HB Granda eru hættir að verka fisk og gera út frá Akranesi. Þeir eru búnir að gleypa kvóta Skagamanna og hafa enga ástæðu til þess að vera þar lengur; það borgar sig ekki, það rýrir arðinn.

Bæjarstjórnin á Akranesi hefur legið við lappir eigendanna, erfingja Ísbjarnarins, erfingja Hvals hf. og forstjóra álversins í Straumsvík, beðið og betlað og boðið fríðindi og framkvæmdir fyrir miljarða bara ef þeir vildu vera svo elskulegir að láta verka fisk í bænum örlíð lengur. Nei, segja erfingjarnir; það borgar sig ekki, það rýrir arðinn.

En þeir eru ekki úr steini arfþegarnir; þeir bjóða þeim, sem vegna þessa missa vinnuna á Akranesi, að sækja um hjá HB-Granda í Reykjavík. Það er aldrei að vita nema að þar finnist eitthvað handa þeim að gera.

Framkoma arftakanna var fyrirsjáanleg þótt skammsýnir miðjumenn með merarhjörtu hafi haldið að þetta færi á annan veg. Hegðun, lík þessari, ætti að vera öllum kunn því hún hefur verið viðhöfð um aldir; sá ríki ræktar frekju sína og  gerir það sem honum sýnist.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar

Samsorta frekjudallar í öðrum fötum eru að undirbúa yfirtöku á þjóðareign, heilbrigðiskerfinu. Til þess njóta þeir stuðnings sömu stjórnmálamanna og gáfu öðrum vörgum fiskinn í sjónum. Aðferðin er þessi: Stjórnmálamennirnir sjá til þess að kerfið fái ekki fé til rekstrar. Frekjurnar færast í aukana, opna læknastofur og spítala, fá kærar þakkir að launum fyrir hjálpina og fé úr ríkissjóði. Og stjórnmálamennirnir þeirra gera meira fyrir þá: Þeir veita pening í sjúkrahúsbyggingar sem ætlunin er að selja erfingjum auðsins fyrir slikk þegar opinbera heilbrigðiskerfið „hefur sannað vanmátt sinn“.

Ef núverandi ríkisstjórn situr lengi enn er styttra í að heilbrigðiskerfið falli saman en margur heldur. Þegar það er orðið verður til lítils að krjúpa fyrir nýja spítalavaldinu og biðja opinbera kerfinu griða. Svarið verður hið sama og uppi á Akranesi í dag; nei, það borgar sig ekki, það rýrir arðinn.

Við þessari þróun er aðeins eitt ráð, svo greinilegt, að það þarf ekki einu sinni að nefna það.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
2,582