trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 19/11/2014

Ætlarðu að stofna flokk?

Benedikt Jóh.„Af hverju býður hann mér ekki í afmælið sitt?“ sagði Vigdís og var greinilega ekki ánægð.

Aldrei þessu vant gat ég svarað spurningunni, en sagði:

„Hann bauð mér reyndar ekki heldur.“

Smá kúnstpása til þess að gefa Vigdísi færi á að finnast ég vera að snúa út úr. Beið samt ekki of lengi til þess að hún yrði ekki allt of pirruð.

„Ég hugsa að ástæðan sé sú að hann veit ekki af afmælinu sjálfur.“

„Veit hann ekki að hann er að verða sextugur?“ Vigdísi finnst það alls ekki ótrúlegt að vinir mínir séu svolítið úti á þekju. Svolítið mikið.

„Jú, ég reikna með því, en hann veit ekki af veislunni.“

Spennan minnkaði á augabragði og Vigdís hætti að vera móðguð út í þennan gamla félaga minn. Allt í einu mundi hún eftir því að hún hafði boðið börnunum okkar í mat á sama tíma og áformað var að halda veisluna. Sannast sagna mátti hún alls ekki vera að því að mæta í hana. En hefði samt móðgast við að vera ekki boðið sem eðlilegt er.

Við Maggi Hauks vorum fimmtán ára þegar við hittumst fyrst. Við vorum saman í bekk í landsprófi í Vogaskólanum og fórum svo hvor sína leið.

Maggi var með dökkt sítt hár og var í svörtum leðurjakka. Hann var nýkominn frá Svíþjóð og var mikill töffari. Ég var líka með dökkt sítt hár en eignaðist ekki leðurjakka fyrr en 30 árum seinna þegar ég varð fyrst töffari.

Við náðum ágætlega saman. Maggi var góður í borðtennis og við spiluðum saman. Hann segist hafa unnið mig í fyrstu leikjunum en ég hafi svo farið að eiga séns. Ekkert man ég eftir þessum leikjum sem hann segist hafa unnið, en hitt man ég að ég átti flottan sænskan spaða sem ég kallaði Tiga Maggi vissi auðvitað að maður átti að segja Stiga þó að essið væri teygt og togað, liti út eins og skástrik. Nú er hún Snorrabúð stekkur því að Stiga framleiðir núorðið sláttuvélar.

En þótt annar hvor okkar hafi unnið í borðtennis varð okkur vel til vina. Sumir héldu að við værum bræður því að við vorum áþekkir. Höfðum báðir þetta Frank Zappa-útlit sem var svo heillandi á þessum árum. Þegar ég sagði frá meintum skyldleika okkar heima sagði mamma strax: „Hann er ekki sonur minn.“ Hún liggur því ekki undir grun.

Maggi hafði ágætan tónlistarsmekk og ég þurfti ekkert að skammast mín fyrir það þegar til „mín“ sást í strætó með plötubunka. Hann og Jói bróðir hans töluðu meira að segja um að búa til dúett og væru eflaust þekktir í dag sem Magnús og Jóhann, ef það nafn hefði ekki verið frátekið.

Nokkrum sinnum fórum við saman á sveitaball. Það hjálpaði auðvitað að Maggi var kominn með bílpróf löngu á undan mér. Ekki man ég til þess að við höfum skandaliserað neitt á þessum böllum, örugglega ekki bílstjórinn að minnsta kosti. Einhvers staðar las ég að áhugamál stráka á þessum árum hefðu aðallega verið áfengi og stelpur, en ég held að við höfum haft hvort tveggja í lágmarki á þessum sveitaböllum, látið nægja að hlusta á hljómsveitina. „Hvers konar lið mætir á böll til þess að hlusta á hljómsveitina?“ spurði einn félagi minn í brúarvinnunni ein sinni. Ég ákvað að svara ekki spurningunni upphátt, en svarið var greinilega: Við Maggi.

Í lagi frá þessum tíma var sungið: Ég fór á ball í Stapa, á því var engu að tapa.

Við fórum aldrei á ball í Stapa, en einu sinni fórum við á sveitaball á Borg í Grímsnesi. Á því var heldur engu að tapa. Auðvitað mættum við seint á staðinn, en í þetta sinn vorum við svo seint að húsið var fullt. Uppselt.

Fyrst við höfðum farið alla þessa leið stoppuðum við samt og spjölluðum við liðið sem kom út til þess að reykja. Maggi reykti og ég talaði. Allt í einu sáum við að félagi okkar úr Vogaskólanum var í hópnum og bárum okkur aumlega. Hann sagði: Örvæntið ekki! og benti okkur að færa okkur að húsveggnum sem sneri frá planinu. Þar skildi hann við okkur en örstuttu síðar heyrðum við hann kalla í okkur aftur, nú út um lítinn glugga á veggnum.

Við þurftum ekki að láta segja okkur hvað hann hafði í huga heldur gripum í gluggakistuna og hífðum okkur inn, hvor á eftir öðrum. Fáir trúa því núna að við Maggi höfum komist inn um pínulítinn glugga, en þetta er fyrir býsna mörgum rúmsentimetrum síðan.

Allt í einu hafði ballið breyst úr því að vera algjör bömmer í að verða sjálfbær auðlind. Við höfðum varla gengið út af klósettinu þegar við fórum út aftur og fengum þá miða frá dyravörðunum til þess að komast inn aftur. Úti fyrir hafði drifið að einhverja umkomulausa drengi og við höfðum engar vöflur á því að bjarga þeim í neyð, seldum þeim miðana okkar á sanngjörnu verði og skriðum svo aftur inn um gluggann.

Þetta lékum við nokkrum sinnum og þóttumst engan hafa snuðað. Húsið hafði selt alla þá miða sem það mátti og piltarnir gátu fengið sér snúning. Við fengum pening fyrir bensíni og samlokum á Geithálsi á heimleiðinni. Allir græddu, en samt hef ég ekki haft hátt um þetta og vænti þess að lesendur geri það ekki heldur.

Svo hittumst við ekki að ráði í tuttugu ár þangað til ég fór að venja komur mínar vestur á firði. Maggi var orðinn eins og Gvendur á eyrinni, dugði vel til þess að afferma dalla. Það kom mér ekki á óvart, en hitt var skrítnara að hann bauð upp á sjávarréttasúpu. Hún var undragóð og ég hugsaði mér að lengi mætti manninn reyna.

Síðan höfum við oft hist, Maggi sem tengdasonur Ísafjarðar og ég tengdasonur Ingjaldssands. Í hvert skipti höldum við spjallinu áfram, rétt eins og við höfum brugðið okkur frá til þess að sækja okkur vatnsglas.

Þannig að ég hlakkaði til þess að hitta kappann í óvæntri afmælisveislu.

Með rannsóknum tókst mér að komast að því að Húrra er á sama stað og Gaukur á Stöng. Samt má alls ekki rugla staðnum við Gaukinn, sem er við hliðina á. Það er orðið svo langt síðan að ég lagði leið mína á þessar slóðir að ég var ekki viss nema þarna væri enn bjórlíki til sölu.

Þarna inni voru vinir og ættingjar Magga sem alls ekki var víst að ég þekkti. Taldi að vísu líklegt að Jói yrði á staðnum sem og Haukur Magnússon, sem er sonur hans, þ.e. Magga. Velti því fyrir mér á leiðinni hvort Haukur Magnússon væri á lífi, þ.e. pabbi Magga.

Haukur er í hljómsveitinni Reykjavík! Ég velti því fyrir mér hvernig maður ætti að koma upphrópunarmerkinu til skila, augljós áhrif frá Wham! og hefði auðvitað alls ekki verið jafntöff að vera í Reykjavík.

„Heilsaðu upp á pabba“, sagði Jói og leysti þar með þá gátu. Haukur er læknir. Við spjölluðum lengi saman. Hann er nágranni minn, sagðist búa á Kleifarvegi. „Kleifarvegi?“ datt mér í hug að spyrja, en sagði svo bara: „Kleifarvegi! Það er flott.“

Haukur tók ekki eftir upphrópunarmerkinu sem var auðvitað grín hjá mér og sagðist hafa hitt mig í sjúkravitjun fyrir fimmtán árum þar sem ég hefði stumrað yfir Vigdísi. Ég taldi að aldurinn væri farinn að segja til sín hjá honum, því að Vigdísi hefði aldrei orðið misdægurt, en þegar ég kom heim kom auðvitað í ljós að einmitt svona hafði þetta verið. Aldurinn farinn að segja til sín hjá einhverjum.

Allt í einu var öllum skipað að þegja. Maggi hélt að hann væri að sækja Hauk son sinn á leiðinni í Perluna. Við fylgdumst með áköfum deilum þeirra í símanum um hvers vegna Haukur nennti ekki að rölta út á Arnarhól, sem lægi miklu betur við.

Það hefði mátt heyra saumnál detta, að minnsta kosti ef hún hefði dottið nálægt hljóðnemanum. Einhver gekk með Magga í átt að salnum og um leið er mér sagt að það sé ekki nema hálfur mánuður frá því að hann fékk áfall. Ég ætlaði að spyrja hvort það hefði verið hjartaáfall, en þá var aftur sussað og maður hélt niðri í sér andanum.

Maggi gekk í salinn og allir kölluðu eitthvað til þess að bregða honum í brún. Ég fylgdist spenntur með, en þó honum brygði við virtist hjartað ekki missa taktinn. Eins og sannur töffari tók hann af sér gleraugun, leit yfir salinn og … nei hvað sé ég, þerraði tár. Enginn hafði lekið leyndarmálinu.

Þetta var skemmtilegt. Allir hafa gaman að því að sjá aðra plataða.

Þarna var auðvitað hópur af skemmtilegu fólki sem ég þekkti mismikið eins og gengur. Sumir spurðu hvort ég ætlaði að stofna flokk. Þegar ég sagðist búast við því spurðu aðrir hvenær og ég sagði fyrir næstu kosningar. Friðrik Sophusson spurði þá hvort við ætluðum að bjóða fram. Mér datt í hug að segja nei, þetta væri ekki svoleiðis flokkur, heldur bara flokkur til þess að stofna, en af því að ég er vel upp alinn sagðist ég líka vænta þess.

Allt í einu kom systir Magga á sjónarsviðið og spurði hvort ég væri ekki Benedikt Zoega og eftir að ég jánkaði því sagði hún að ég hefði ekkert breyst. Ég var auðvitað glaður yfir því að hún þekkti mig.

Þegar ég þakkaði henni fyrir sagði hún að ég ætti að segja að hún hefði ekki breyst heldur, en það gat ég ekki, því að hún var þrettán ára þegar ég sá hana síðast. Svo spurði hún hvað ég gerði.

Mér vafðist tunga um tönn.

Friðrik stóð enn við hliðina á mér og einhver spurði hvort hann væri líka í Viðreisn.

„Nei, ekki enn“, svaraði ég, „en afkomendur hans eru allir stuðningsmenn.“

„Það er nefnilega það“, sagði Friðrik. „Þá verður þetta fjölmennur flokkur.“

Benedikt Jóhannesson, 17. nóvember 2014

 

1,135