trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 25/11/2015

Að vera barnalegur

Eftir Guðna TómassonGuðni Tómasson

Myrkur

Mánudagsmorgunn. Slagveður. Myrkur. Þessi hlýtur að vera einn úr neðri sætunum á listanum yfir mánudagsmorgna á árinu. Ertu ekki að grínast?

Og þú gleymdir að skerpa á útsýninu, gleymdir að strjúka af rúðuþurrkunum, guð einn veit (vonandi) hvert þú ert að fara því minnið er að svíkja þig. Hvert liggur þessi leið? Er ég þá lambið sem leitt er til slátrunar, er þetta dagurinn, vegurinn til glötunar? Óttinn grípur um sig.

Viðtal

Í gær var annar dagur. Hann var fallegur og hann var pollrólegur. Þá var talað til þín af yfirvegun úr útvarpstækinu. Forsetinn var í útvarpinu. Hann er kóngur og því fékk hann drottningarviðtal, langt drottningarviðtal. Forseti Íslands er vel tengdur maður, svo vel tengdur að hann getur kallað nánast heiminn allan að hringborðinu sínu og á hann er kallað til að taka sæti við önnur hringborð langt úti í heimi. Aspen, Abu Dahbi, Davos, New York. Hlutirnir virðast gerast við hringborð. Yfir þau liggja þræðirnir á milli manna. Við þurfum á mönnum að halda sem geta húkkað okkur upp, mönnum sem þekkja menn sem taka ákvarðanir. Menn og auðvitað einstaka konur líka, Hillary og svona.

Þarna kemur forsetinn yfir Íslandi sterkur inn. Hann er viðræðugóður og kann að láta fólk tala saman. Þetta sást vel á messunni hans í Hörpu á dögunum, þessari um Norðurheimskautið. Riddarar hringborðsins komu þá úr öllum áttum, þeir ræddu það hvert stefnir undir stjórn þessa fyrirtaks fundarstjóra, sem maður sér fyrir sér frjálsan undan stífleika og hvers kyns „prótókoli.“ Hér eru allir frjálsir, allir geta sagt sinn hug.

Fundarstjórinn

Það efast enginn um að forseti Íslands er eldklár, hann veit hvað hann syngur og þegar hann syngur þá er það ekki af fingrum fram. Hann er duglegur og hann er víðförull. Í útvarpinu í gær var ekki hægt að skynja að hann væri þotuþreyttur þó hann væri nýkominn úr langferð. Hann lét engan bilbug á sér finna, andaði bara hægt og rólega á meðan spurningarnar sem fyrir hann voru lagðar voru bornar fram í rólegheitum. Það var íhugull andardráttur. Enda margt að melta eftir langa ferð, Kóreumenn eru uggandi um heimskautin, íshellurnar eru að bráðana, múrinn er fallinn en aðrir múrar rísa um leið.

Heimurinn er í miklu flúxi og því mikilvægt að vera ekki með neinn barnaskap þessa dagana. Það eru erfiðir tímar. Örlög okkar allra í þessum heimi eru samtvinnuð, þetta sjá menn alltaf betur og betur og sérstaklega menn eins og forsetinn okkar. Þess vegna er sjálfsagt að við eigum samtal við heiminn um það sem að okkur steðjar. Það þarf menn sem skilja og þekkja alvöru vafninga til þess að átta sig á einmitt þessu, að örlög okkar eru samtvinnuð, veröldin er einn óskiljanlegur bandhnykill.

Það að vera barnalegur

Já, veröldin er flókin og allt er þetta gott og vel, að menn setji sig vel inn í hana, svótgreini hana niður í smæstu eindir: styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri. Það er nauðsynlegt bæði við hringborð og annars staðar. Það er bara þetta með að vera barnalegur eða ekki, þetta með naívismann sem manni finnst dáldið snúið. Þegar barnaleikanum (ef svo er hægt að segja) er stillt upp gegn traustum aðgerðum gegn þeim hættum sem að okkur steðja. „Jú jú, börn eru hjartahrein, en þau vita ekkert um heiminn,“ segja menn. Sama heiminn sem gerir þau að mönnum og lætur þau hætta að hugsa eins og börn.

Forsetinn tók fram í þrígang í gær að Svíar með forsætisráðherrann sinn í fararbroddi væru farnir að átta sig á því að þeir hefðu verið barnslegir í því að loka augum fyrir öfgahópum innan Íslam. Máli sínu til stuðnings greip forsetinn með sér bók um Íslamista og naívista úr bókastofunni á Bessastöðum. Hún fjallar um það að maður má ekki vera barnalegur, segir okkur að við verðum að horfast í augun á hættunni sem öfgaöfl innan Íslam geta leitt og leiða yfir vestræn samfélög eins og við sáum um daginn.

Tvíhyggja

Rétt er það, ógnina þarf að viðurkenna, skilgreina og fylgjast með henni samkvæmt skýrum lagaheimildum. Erfitt er að verjast þeirri hugsun, að um leið og bent er á að umræða um þessa ógn rjúki af stað og hætta sé á að menn hlaupi í skotgrafirnar kunnuglegu, þá sé það einmitt til þess að dýpka þessar skotgrafir að fara að tala um þá barnalegu og þá pragmatísku, þá sem lausnina hafa. A eða B, af eða á, með eða á móti.

Um leið eru frjálslynd öfl sett í sviga, það er talað um „svokölluð frjálslynd“ öfl. Þýðir það að baráttan fyrir opnum samfélögum sé sett í sviga, dregin í efa? Gæsalappir eða „hið svokallaða“ eru vel þekkt trikk í mælskulistinni til að aðgreina okkur og hin. Ekki þarf að tíunda dæmin hér. En barátta fyrir opnari og jafnari heimi getur varla verið bara barnsleg einfeldni, áhersla á félagslegar umbætur, svo ekki verði eins auðvelt fyrir öfgaöfl að skjóta rótum, getur það varla heldur.

Læst borg

Brussel í Belgíu er í dag læst borg. Hryðjuverkaógnin ágerist á meðan morgunmyrkrið hér norður frá verður áþreifanlegt. Skotgrafirnar dýpka, eru menn að benda á þær, vara við þeim eða koma sér fyrir ofan í þeim? Þar er efinn. Óttinn má ekki grafa um sig og því er nauðsynlegt að tala varlega. Forseti Íslands er upptekinn af óttanum, eins og margir því miður, upptekinn af óvissunni. Hann lýsir landamærasamstarfi sem hefur brugðist, þar sem Íslendingar eru sjálfir útverðir.

En ógn er hluti af lífinu. Hún er margs konar og hún leynist víða. Glæpamenn með illan hug er víða að finna, en þeir mega ekki stjórna hugum okkar. Eftirlit þarf að hafa, skýrt afmarkað, með gjörðum þeirra sem hafa illan hug. Refsirammi þarf að endurspegla alvarleika brotanna, réttarríkið þarf að virða, hatursumræðu hvaða nöfnum sem hún nefnist þarf að stöðva, dómstól götunnar þarf að lempa. Ljótu karlarnir hafa alltaf verið á meðal okkar, innan kristni, innan Íslam, innan Bandaríkjanna, Belgíu, Íslands. Þeir brjóta okkur ekki niður samt sem áður, ná ekki nema tímabundið að valda því að við læsum að okkur.

Reglulega spurningin

En ágætu hlustendur. Árið líður og myrkrið er að verða ískyggilegt. Forsetinn var í alvarlegu viðtali á Rás 2 í gær en hann hresstist allur þegar hann fékk spurningu sem hann hefur fengið áður, hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir forseta Íslands og þar með okkur? Ætlar hann aftur í framboð?

Kannanirnar koma og fara, þær sveiflast upp og niður en forsetinn okkar er ekki með huga víð þær. Þetta sagði hann okkur í gær. Hann hleypur ekki á eftir vinsældamælingum. Undirskriftarlistar, ok stundum, en ekki kannanir, þær eru fyrir óreynda kjúklinga í pólitík.

Svarið?

Það styttist í árinu, sólin lækkar og lækkar á lofti. Í morgun var myrkrið blautt og kalt. Það vafði sig um mann. En örvæntið ekki. Bráðum skjótum við upp rakettum fyrir miljarða króna og fögnum nýju ári þrátt fyrir óttann og óvissuna. Það styttist í beina útsendingu á nýjársdag, þá verður poppað og þá verður kók. Þetta verður nýársdagur allra nýársdaga. Vonandi verður svarið skýrt frá forsetanum, af eða á, nei eða já, erfitt er oft að finna svarið. Það bara hlýtur að vera að við fáum svar.

„En við getum haft rangt fyrir okkur. Bæði ég og aðrir.“

Guðni Tómasson, Víðsjá, 23. nóvember 2015

1,372