trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 17/03/2014

Að þeirri konu var logið

Ræða Láru Marteinsdóttur á samstöðufundi á Austurvelli 15. mars:lara_marteinsdóttir

COGITO ERGO SUM – Ég hugsa, þess vegna er ég.

Fræg setning tileinkuð Descartes, sem fékk hana reyndar að láni frá Ágústínusi frá Hippó sem kannski varð fyrir áhrifum frá Gautama Buddha sem hélt því fram að við byggjum til þann heim sem við búum í útfrá hugsunum okkar, en… að það væri enginn raunverulegur kjarni í hugsunum fyrr en við gerðum þær að veruleika. Því lagði hann mikla áherslu á að grandskoða okkar eigin innri mann og gaumgæfa vel huga okkar og ásetning áður en við tjáðum okkur í orði og verki.

Því afleiðingar orða geta valdið stríðum og orsakað mikinn harm, bæði á persónulegum grunni og pólitískum. Því er það gríðarlega mikilvægt að þeir aðilar sem sækjast í valdastöður í samfélagi voru séu þess megnir að uppihalda siðgæði og heiðarleika í öllum samskiptum og sér í lagi við þjóðina sem þeir eru jú í vinnu fyrir.

Það minnsta sem við, þegnar þessa litla lýðveldis, getum ætlast til af fulltrúum okkar á þingi, hvort sem við kusum þá ellegar ei, er að þeir valdi verkefnum sínum,  séu í nokkuð góðu andlegu jafnvægi og geti unnið með öðru fólki af heilindum og ábyrgð, en ekki síst að þeir séu hæfir til þess, á ögurstundu, að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar.

Ég heyrði einhversstaðar sagt að heilbrigðri skynsemi mætti líkja við svitalyktareyði, að þeir sem þörfnuðust hans mest við, notuðu hann aldrei.

En, ég er ekki hér komin til þess að ræða um reynsluleysi, persónuleikabresti eða tvískinnung þeirra aðila sem því miður náðu að smeygja sér inn á Alþingi Íslendinga á fölskum forsendum.

Ég er ekki hér til þess að vara við þeim válegu teiknum sem sjást nú á lofti um uppvöðslu ákveðinnar gerðar af fasisma sem birtist okkur nú í mörgum dæmum um valdníðslu sem engum er til sóma.

Nei, ég er ekki hér til að fræða ykkur um fasima, sem getur aldrei náð grunni í raunverulegu lýðræði, þar sem fólkið fer með valdið, heldur þrífst hann vel í sérhagmunasamfélögum og helst fast í hendur við valdamiklar kapítalískar klíkur sem, ef þær komast til valda í æðstu stöður, byrja strax á því að losa sig við allar þær hindranir sem þær telja vera óæskilegar þeirra eigin markmiðum, sem er að ná enn sterkari tökum á bæði þreyttum verkalýðnum og öllum helstu stofnunum og fyrirtækjum landsins, og byrja yfirtöku sína yfirleitt fyrst á ríkisfjölmiðlum.

Og ég er ekki hér til þess þess að benda á þá augljósu staðreynd, að þeir sem með valdið fara nú eru að mestu leyti strengjabrúður og málpípur öflugra sérhagsmunahópa, sem er algerlega sama um eitthvert lýðræði og einhvern jöfnuð milli manna, og gefa ekki eina krónu fyrir þau orð í tungumálinu sem byrja á SAM – einsog t.d. samfélag, sameign, samvizka, sameiginlegir hagsmunir… að undanskildu orðinu „Sam-herji“ – en hefja hinsvegar til lofs og virðingar öll orð sem byrja á SÉR, EIGIN og EINKA: einkafélag, einkaeign, einkavæðing og sérhagsmunir.

Ég er heldur ekki hér til þess að segja við þá sem kusu þetta yfir okkur, látið ykkur þetta að kennningu verða! Því við kunnum ekki að hugsa einsog sjálfstæð þjóð, við erum enn föst í einhverri þrælslund til þeirra sem söðluðu undir sig völd og kvóta, undirlægjur stórbænda og sjávarfursta… þekkjum ekkert annað en barlóm og sjálfsvorkunn og bíðum bara eftir því að fá kannski að narta í einhverja afgangsmola á uppskeruhátíð þessara afar ólýðræðislegu skuggavalda.

Ég er ekki hér til þess að hvetja ákveðna ráðherra að mæta nú í þingsal, til þess að takast á við þetta stórmál, um áframhaldandi ESB viðræður, mál sem þeir lofuðu kjósendum afdráttarlaust fyrir kosningar að þeir myndu fá að kjósa um. Því dag eftir dag virðast þessir sömu aðilar hvergi sjáanlegir í þingsal þegar umræður eiga sér stað. Því væri vert að spyrja, hvað eru þessir menn í sannleika sagt að hugsa?

En hví skyldi ég þá vera hér?

Jú, ég er hér til þess að heiðra hana móður mína, sem mætir hingað niðurá á Austurvöll daglega, konu sem er fædd árið 1936 og hefur því séð tímana tvenna og tvísýna, á landi voru en aldrei sem nú.  Konu sem hefur unnið erfiðisvinnu allt sitt líf, fyrst í fiski svo í umönnunarstörfum, en aldrei fengið yfir 200.000 krónur í mánaðrlaun, en hefur samt einhvernveginn haft ráð á því að styðja við nám barnabarna sinna. Ég er hér í dag fyrir móður sem ól upp 5 ágæt börn, því hún kenndi þeim strax í byrjun að náungakærleikur, örlæti og heiðarleiki væru ekki bara góð gildi, heldur lífsnauðsynleg – að fátt væri verra en að ljúga og stela.  Ég er hér, því þessi kona trúir svo innilega á skynsemina og lýðræðið – ekki bara fyrir sjálfa sig og sín eigin börn, heldur til hagsmuna og hamingju fyrir allt samfélagið.

Ég er hér, því að henni var logið, því hún á það á engan hátt skilið. Af því að allt sem hún hefur unnið að í þessu lífi sem heiðarlegur borgari, er verið að berja niður með offorsi og yfirgangi. Ég er hér henni til heiðurs því hún vill ekki trúa að peningahagsmunir og jafnvel voldugar glæpaklíkur geti náð yfirráðum í okkar frábæra auðuga landi sem getur á allan hátt orðið stórkostleg fyrirmynd í grænni orku og sjálfbærni ef rétt er á taumunum haldið.

Það er munur á gremju og réttláttri reiði – og við erum mörg hver okkar seinreitt til reiði. En er ekki mælirinn orðinn fullur? Okkur vantar traustvekjandi leiðtoga sem verða ekki þjóð okkar sýknt og heilagt til ævarandi skammar á alþjóðavettvangi, fólk með sterka siðgæðisvitund, reynslu og heilindi til þess að stýra okkur áfram inní 21stu öldina. Sú stórn sem nú situr hefur nákvæmlega ekkert umboð til þess rústa þeim stoðum og innviðum sem byggðir eru á erfiðisvinnu formæðra og feðra okkar, á fólki einsog henni móður minni.

Íslendingar þekkja í raun ekkert annað en verzlunareinokun – og því höfum við engu að tapa með því að skoða hvað býr í þessum samningi fyrir okkur.  Ég mæli því með tvennu: að ríkjandi stjórn sýni í verki að hún er okkur samboðin með því að annaðhvort leyfa okkur að kjósa sem allra fyrst, og hætti þessum innantómu útúrsnúningum og fyrirslætti – ellegar stígi til hliðar umsvifalaust og leyfi nýju fólki að taka við völdum.

Takk fyrir.

1,328