Að tala en þegja þó
Þessa daga sýður á mörgum manninum vegna viðtals sem DV birti við forsætisráðherra landsins og dreift var holt og bolt um byggðirnar. Það sýnist sitt hverjum um það. Eitt ætti þó að vera skýrt: Viðtalið lýsir innri manni þess sem talar.
„Ég veit að ákveðnir aðilar sem vildu hafa áhrif á umræðuna út af haftamálunum fóru skipulega að dreifa ýmsum sögum um mig,“ segir ráðherrann. Og bætir við að um tíma hafa hann safnað slúðursögum um sjálfan sig. „Margar þeirra þóttu mér fyndnar en sumar óviðeigandi.“
Nú spyr lesandinn: Hvaða „óviðeigandi“ sögur eru þetta? Og hvaða tíðindi felast í því að hann skuli hvorki skýra frá því hverjir það voru/eru sem sömdu sögurnar né hverjir dreifðu/dreifa þeim? Hver er ástæðan fyrir þögninni? Hvað segir þetta um þann sem talar en þegir þó?
Hér í Herðubreið er sagt frá því, að í þættinum Þjóðbraut á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, hafi stjórnandi þáttarins, Páll Magnússon spurt oddvitann út í grein Eiríks Bergman, prófessors þar sem hann færir rök að því að Framsóknarflokkurinn hafi breyst í þjóðernispópúlískan flokk eftir að Sigmundur Davíð tók við forystu hans.
„Þetta er furðulegt bull,“ svaraði forsætisráðherra og þegar hann var spurður að því hvort hann hefði lesið grein Eiríks sagði hann, æðsti maður íslenskrar stjórnsýslu og dómsmálaráðherra í viðlögum: „Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í það.“
Aftur spyr lesandinn: Hvað segir þetta um manninn? Af hverju dæmir hann án þess að vita um hvað hann er að dæma? Af hverju lætur hann þetta út úr sér í viðtali sem hann veit að verður birt og mun trúlega geymast meðan heimur heldur?
Í DV-viðtalinu segir ráðherrann að markmiðið með dreifingu „óviðeigandi“ sagnanna hafi „verið að reyna að draga úr trúverðugleika hans, „og skaða möguleika mína á því að hafa áhrif á gang mála. Og talandi um fjárkúgun og hótanir þá hef ég meir að segja fengið hótanir úr þeim ranni.““
Og enn er spurt: Hvað segir það um þessa fullyrðingu, að ekki skuli fylgja með hverjir voru að hóta honum? Hvað menn?
Ef taka á viðtalið við forsætisráðherra landsins alvarlega þá eru menn stöðugt að rægja hann og hóta honum til þess að draga úr trúverðugleika hans, sem hann virðist þó vera fullfær um að gera sjálfur, einn og óstuddur. Hvað segir það um manninn?
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020