trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 21/05/2018

Að skilja og vera skilinn

Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla. Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“ (Post 2.1-11)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Pistill dagsins í dag segir frá kraftaverki. Kraftaverki sem margir telja endurtaka sig aftur og aftur við kristnar trúarathafnir enn þann dag í dag: Tungutali.

Og nú er ég að tala um viðkvæmt mál sem skiptar skoðanir eru á.

Tungutal nú

Til eru söfnuðir sem líta á tungutal sem svo mikið grundvallaratriði að í raun sé ekki hægt að tala um að heilagur andi sé meðal annarra en þeirra sem fara í annarlegt ástand við tilbeiðsluna þannig að upp úr þeim velli merkingarlausar málhljóðarunur í belg og biðu. Menn í trúarmóki tala tungum. Svo einfalt er það.

Tungutal við trúarathafnir hefur verið rannsakað með vísindalegum hætti. Auðvitað ekki allt, fyrr mætti nú vera. En viðamiklar rannsóknir á upptökum af því sem fólk segir í þessu ástandi í hinum ýmsu söfnuðum hafa leitt í ljós að það er bull; merkingarlaust babl.

En þá er eðlilegt að spyrja: Til hvers?

Hvað er unnið með því? Hvaða gagn er Guðsríkinu gert með því? Hvernig miðar það að því að skila okkur til fyrirheitna landsins þar sem friður og jöfnuður ríkir?

Ég ætla ekki að fullyrða að við slíkar athafnir sé heilagur andi víðs fjarri. Um það get ég ekkert sagt. Ég leyfi mér hins vegar að halda því fram að slíkir atburðir út af fyrir sig flokkist ekki undir neins konar kraftaverk. Við vitum að sefjunarmáttur mannshugans er gríðarlegur og tungutal við trúarathafnir á sér sennilega frekar félagssálfræðilegar skýringar en guðdómlegar.

Að skilja söguna

Kraftaverk eru nefnilega alltaf kærleiksverk. Þau snúast aldrei um þann sem þau framkvæmir. Jesús mettar hungraða, læknar sjúka, líknar sorgmæddum. Babl í trúarmóki sem enginn skilur gerir ekkert af þessu.

Enda er sagan af undrinu á hvítasunnudag í öðrum kafla Postulasögunnar ekki af mönnum sem féllu í mók og böbluðu eitthvað bull. Hún er um menn sem raunverulega sögðu eitthvað á tungumálum sem þeir töluðu ekki sjálfir en þeir sem það gerðu skildu. Arameískumælandi Galíleumenn töluðu þannig að Partar, Medar, Elamítar, Mesapótamíumenn, Júdeumenn, Kappadókar, fólk frá Pontus-héraði við sunnanvert Svartahaf, fólk annars staðar frá þessu landsvæði sem í dag er kallað Litla-Asía en er bara kallað Asía í Nýja testamentinu, Frýgíumenn, Egyptar, Líbýumenn, Rómverjar, Kríteyingar og Arabar skildu það sem sagt var.

Um það er sagan. Um það að vera skilinn.

Tungutal þar sem enginn viðstaddra skilur orð af því sem sagt er á ekkert skylt við það sem þessi frásögn greinir frá.

Og kannski er það hið eilífa krafataverk: Að vera skilinn. Að ég skuli geta staðið hér og kreist loft upp úr mér og notað barkann, tunguna, varir og munn til að móta þannig bylgjur sem, þegar þær lenda á eyrum ykkar, geta teiknað myndir fyrir augum ykkar, plantað hugmyndum í hugskot ykkar, miðlað þekkingu, innsæi, lífsviðhorfum … vakið með ykkur sorg, gleði, fögnuð … eða reiði. Og ég get miðlað ykkur af líðan minni, reynslu minni, sögu minni, sorgum mínum og gleði … og reiði. Einhverju sem er mikilvægara fyrir persónulega sálarheill mína að aðrir skilji heldur en guðfræðilegar útleggingar mínar á orðum heilagrar ritningar, svo dæmi sé tekið.

Hvað er þetta annað en hugsanaflutningur sem jafnast á við trylltustu vísindaóra?

Enn stórkostlegra kraftaverk er kannski að fyrir tæpum tvöþúsundum árum skyldi óþekktur einstaklingur teikna nokkur strik með bleki unnu fyrst og fremst úr sóti og jurtaolíu á papýrusörk og skrásetja þannig frásögnina sem hér var lesin áðan … á öðru tungumáli í öðrum heimshluta á öðru tímaskeiði mannkynssögunnar … og við skildum hana.

Hún er ekki um að falla í trans og babla.

Hún er um það að skiljast.

Þrívíð frásögn

Kraftaverkafrásagnir hafa alltaf þrjár víddir. Sú bókstaflega er augljósust: Menn tala tungumál sem þeir kunna ekki en þeir sem það gera skilja þá. Það á ekki að vera hægt. Af því leiðir að þetta verður að kalla kraftaverk. Punktur.

Næsta vídd er hin táknræna. Þar skulum við staldra við og spyrja: Hvar er kærleiksverkið í þessu kraftaverki? Hér er ekki greint frá því að nokkur maður hafi mettast eða læknast eða huggast. Aðeins að þessi allra þjóða kvikindi sem þarna voru saman komin til að fagna Hvítasunnuni, gyðinglegri hveitiuppskeruhátíð, Shavóþ, sem á þessum tíma var orðin tileinkuð þeim atburði þegar Móses tók við lögmálinu á Sínaífjalli og markar þannig eiginlega upphaf gyðingdómsins … eins konar afmæli gyðingdómsins … hafi heyrt þessa Galíleumenn tala á sínum eigin tungum – um stórmerki Guðs.

Hvað þeir sögðu nákvæmlega fylgir ekki sögunni. Enda er hún ekki um það hvað þeir sögðu. Hún er um að það að fá að heyra um stórmerki Guðs á sínu eigin móðurmáli sé dýrmætt … lífsbætandi. Þannig er Guð kominn nær þér, hann er kominn til þín. Þú þarft ekki að hafa vald á einhverju helgimáli eða framandi tungu til að tala við Guð. Hann skilur tungumálið sem þú hugsar á. Tungumálið sem þú lærðir að tjá þig á.

Hann skilur þig.

Móðurmálið mitt

Þriðja víddin er síðan hin trúarlega. Þá spyrjum við: Hvað kemur þetta mér við? Hvaða erindi á þessi saga við mig í dag?

Biblían hefur verið til á móðurmáli mínu síðan á sextándu öld og verið þýdd og endurþýdd alloft síðan þá, nú síðast fyrir aðeins ellefu árum.

En skil ég hana?

Hvað er náð? Hvað er friður? Hvað er hjálpræði?

Hvað þýðir það vera í skugga einhvers? Þýðir það ekki að einhver er að stela ljósinu frá manni? Enginn vill vera í skugganum af einhverjum öðrum. Enginn vill láta aðra varpa skugga á sig. Í Biblíunni þýðir það aftur á móti að njóta verndar einhvers fyrir steikjandi sólarhitanum sem mun meiri ógn stafar af þar sem sögusvið hennar er heldur en frosti og kulda. Þar táknar skugginn líkn forsælunnar. „Í skugga vængja þinna fagna ég,“ (Slm 63.8) segir í Davíðssálmum.

Ég nefni þetta sem dæmi, annars vegar um orð sem við notum lítið í daglegu tali og hins vegar um framandi orðanotkun. Það er nefnilega ekki nóg að skilja tungumálið. Það verður að skilja tungutakið líka. Hver hefur ekki rekist á fullkomlega óskiljanlegar setningar á íslensku sem út af fyrir sig er rétt, orð fyrir orð? Þetta er einkum algengt í ritmáli frá hinu opinbera.

Fæðing kirkjunnar

Shavóþ var eins konar afmælisdagur gyðingdómsins og hvítasunnan er afmælisdagur kirkjunnar. Stofnun hennar er miðuð við atburðinn sem frá greinir í upphafi annars kafla Postulasögunnar. Stofnun hennar er beinlínis miðuð við þann atburð þegar fólk af fjöldamörgum þjóðernum heyrði talað um stórmerki Guðs þannig að allir skildu.

Og skilaboðin til okkar eru að tala þannig að það skiljist. Að grafa ekki erindi okkar í skrúðyrðaþvælu eða helgimáli sem er framandlegt langflestum þeirra sem tala og hugsa á tungumálinu. Og þegar mikið liggur við að tala enga tæpitungu. Eða svo vísað sé í Rómverjabréfið, að tala þannig að flærðarleysi elsku okkar sé augljóst og andstyggð okkar á því sem vont er fari ekki á milli mála. (Róm 12.9)

Það er ekkert kristilegt við það að tipla á tánum í kringum málefni, sem skiptar skoðanir eru á, til að gæta þess að styggja engan. Jesús frá Nasaret var ekki negldur á kross af því að hann styggði engan, heldur af því að orð hans ógnuðu stöðu þeirra sem miskunnarlaust misbeittu valdi sínu til að kúga lýðinn í þágu eigin hagsmuna.

Og af hverju gerðu þau það?

Af því að fólkið skildi hann.

Það sem Jesús sagði ekki

Jesús sagði ekki: „Verknaðarskylda einstaklinga gagnvart öðrum aðilum skal vera í gagnkvæmu og samhangandi umönnunarsambandi við væntingar þeirra til hliðstæðrar aðhlynningarþjónustu téðra aðila við öndverðar kringumstæður.“

Þá hefði engin hætta stafað af honum.

Hann sagði: „Allt sem þið viljið að aðrir menn geri ykkur skuluð þið gera þeim.“ (Matt 7.12)

Hann sagði ekki: „Forsvarsaðilar lífsskoðanastofnana hafa í síauknum mæli þróað verkferla með þeim hætti að hinn fjárhagslegi ávinningur starfseminnar verkar tekjuaukandi fyrir umsjáraðila tilbeiðsluathafna á ársgrundvelli.“

Hann sagði: „Þið hafið gert hús föður míns að ræningjabæli.“ (Lúk 19.46)

Hann sakaði valdhafa ekki um að áhyggjuefni væri að greina mætti vaxandi tilhneigingu til þess að þess væri ekki gætt með nægilega skilvirkum og gegnsæum hætti að viðunandi og ásættanlegt samræmi væri á milli opinberra reglugerða og tilskipana um hvað teldist til saknæms athæfis almennra borgara annars vegar og hins vegar þeirra verkferla sem yfirumsjónaraðilar samfélagslegarar allsherjarreglu og styrkingar innviðanna færu eftir við úrvinnslu þeirra athafna sem væru á ábyrgð og valdsviði þeirra.

Hann gerði það ekki.

Hann kallaði þá hræsnara.

Og kirkja hans á að gera það líka.

Á afmælinu sínu minnir hún sig á að það er ekki hlutverk hennar að babla einhverja hátimbraða merkingarleysu sem ekki nokkur maður skilur. Hún á að segja frá stórmerkjum Guðs, að segja frá náðinni, hjálpræðinu og kærleikanum, flærðarleysi elsku sinnar og andstyggð sinni á því sem vont er … þannig að það skiljist.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju á hvítasunnudag, 20. 5. 2018

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Pistlar
2,273