trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 21/11/2019

Að éta sjálfan sig

Það eru allar líkur til að komist hafi upp um meiriháttar svindl hjá öflugasta og ríkasta útgerðarfyrirtæki landsins. Við, fjöldinn allur, látumst ekki skilja neitt í því hvernig þetta gat gerst, og erum yfir okkur hneyksluð. Og spyrjum eins og álkur hvernig í ósköpunum standi á þessu. Samt eru helstu þættirnir í svarinu augljósir. Og hafa verið lengi, því árum saman höfum við verið að steypa grunninn að svindlinu sem við stöndum nú frami fyrir. Við höfum horft á þjófnað með augunum, heyrt af svindli með eyrunum; höfum séð og heyrt. En neitað að skilja. Eða ekki viljað það; kannski hvorki nennt né þorað.

Loðnuskip sem ber 1600 tonn landar í Færeyjum, fær borgaðar 138 krónur fyrir kílóið. Loðnuskip sem ber 1600 tonn landar í Vestmannaeyjum. Upp úr skipi koma “bara” 1400 tonn. Fyrir kílóið eru greiddar 38 krónur. Sem sagt: Sama magn er 200 tonnum léttara hérlendis en í Færeyjum og gróflega reiknað er verðið 200% lægra hér en þar. Þetta er vitað. Af þessu hafa verið sagðar fréttir. Ítrekað. Og þar með búið. Engin eftirmál. Svindl á sjómönnum er látið viðgangast árum saman. Og blekkingarnar í bókhaldinu líka.

Útgerðarmaður rekur fiskvinnslu. Hann kaupir fisk af sjálfum sér og svindlar á viktinni. Sami útgerðarmaður á líka sölufyrirtæki. Það flytur unninn fiskinn frá honum til útlanda þar sem það, eða annað eins firma, skráð á Tortólum heimsins, selur þessa eftirsóttu íslensku gæðavöru, skilar broti af söluverði heim, svo það þurfi ekki að greiða of  mikla skatta, en leggur bróðurpartinn af því sem eftir stendur af söluverðinu inn á gjaldeyrisreikning í eigu skúffufyrirtækis sem útgerðarmaðurinn á líka, eða konan hans, eða ómálga barnið. Af þessu hafa verið sagðar fréttir. Lítið gert í málinu. Eftirmál sjaldgæf.

Þessa dagana, akkúrat núna, er útgerðarrisi að kaupa sjálfan sig dag eftir dag fyrir augunum á okkur. Við fáum fréttir af því. Okkur þykir þetta merki um kraftinn í útgerðarmanninum og finnst þetta sniðugt, jafnvel fyndið. Þykjumst ekki sjá í hvað stefnir. Og við gerum ekkert í málinu. Dettur ekki í hug að rannsaka brellurnar.

Til þess að geta svindlað á vigt dugir ekki bara eindreginn brotavilji útgerðarmannsins. Hann er ekki vigtarmaður. Til þess að svindla á fiskimönnum nægir ekki bara þjófseðli einhvers útgerðarmanns. Hann er ekki sjómannafélag. Það þarf margt að koma til svo að þetta gangi. Margar hendur. Og peningar. Og hótanir. Þær eru notaðar. Svona til dæmis: Heyrði karlinn, ætlar þú að fara að blaðra eitthvað? Viltu verða rekinn? Aðrir útgerðarmenn munu frétta af lausmælgi þinni og hvar heldurðu að þú fáir þá pláss?

Við hlúum að svindl- og þjófnaðarjarðvegi í útgerð, fiskvinnslu og afurðarsölu. Og þannig verður það áfram nema kerfinu verði kastað fyrir róða og svindlararnir sóttir til saka. Meðal þess sem þarf að lögfesta í kjölfarið er nýtt kerfi um veiðar og vinnslu, þar sem allur fiskur er seldur á markaði, þar sem fiskvinnslur fái ekki sjálfar að selja fisk erlendis, þar sem hömlur verði settar á stærð útgerðarfélaga og þeim verði með öllu bannað fjölga sér með dótturfyrirtækjum og að kaupa og selja sér sjálf sig. 

Það er lag þessa dagana til að breyta og bylta. Takist stjórnvöldum það koma þau í veg fyrir að við höldum áfram að éta okkur upp innan frá.

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,395