trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 21/10/2014

Að efla lögregluna

Í morgun las ég í DV að lögreglan eða yfirmenn hennar hafi verið að pukrast við að koma sér upp vopnasafni, hálfsjálfvirkum skammbyssum og hríðskotabyssum, sem ég verð að viðurkenna að ég átta mig illa á til hvers eru nytsamlegar ætli maður ekki beinlínis að drepa einhvern.

Meðal þess rökstuðnings sem settur er fram í fréttinni fyrir þessari ráðstöfun er að maður á Hnífsdal hafi skotið úr haglabyssu að eiginkonu sinni árið 2007. Fram kemur að víkingasveitin hafi verið lengi á vettvang (það þarf enginn að vera hissa á því) og að á þeim tíma sem leið frá því að hún var kölluð til þar til hún mætti hefði maðurinn getað verið búinn að myrða heimilisfólk og nágranna án þess að lögreglan hefði getað komið í veg fyrir það. Glöggir lesendur átta sig reyndar á því að maðurinn hefði getað verið búinn að myrða einhvern á heimili sínu um leið og hann tók í gikkinn og að litlu hefði þá skipt hvort lögreglan hefði verið á staðnum eða ekki.

En ég tek undir það að það þarf að efla lögregluna. Ég held bara ekki að það gerist með öllum þessum byssum og helgarnámskeiðum í að nota þær.

Fyrir nokkrum misserum skilaði þáverandi innanríkisráðherra ágætri skýrslu um störf nefndar um grundvallarskilgreiningar á löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland. Þar er kafli um menntun lögreglumanna og réttilega bent á að hún sé lykilþáttur í bættri löggæslu. Og þar er líka bent á að dregið hefur úr námskeiðum lögreglumanna og þjálfun og að auka þurfi bæði grunnmenntun og símenntun lögreglumanna, lengja grunnnámið á ný og endurskoða það með hliðsjón af verkefnum lögreglunnar í samfélaginu eins og það er í dag. Þá er bent á að tryggja þurfi að lögreglumenntun njóti sannmælis innan menntakerfisins svo og að auka samstarf við háskóla og að lögreglumenn hafi aðgang að menntun erlendis. Og mikið sem ég er sammála þessu öllu.

Starfræktur er Lögregluskóli ríksins. Þar eru tvær deildir, grunnnámsdeild sem „miðar að því að því að veita haldgóða fræðslu í almennu lögreglustarfi,“ og framhaldsdeild sem sinnir símenntun. Grunnnámsdeildin telur þrjár, fjögurra mánaða annir og lesa má nánar um tilhögun námsins hér. Almennir lögreglumenn eru því menntaðir í eitt ár áður en þeir taka til starfa. Það er rosalega lítið. Það tekur fjögur ár að verða hárskeri. Það er eitthvað verulega bogið við þetta.

Sem betur fer er það svo að sumir hafa menntað sig heilmikið áður en þeir sækja um og þreyta inntökupróf í Lögregluskólann svo þeir geti orðið löggur. Í áðurnefndri skýrslu segir:

Undanfarin ár hefur þróunin verið sú að mikill meirihluti þeirra einstaklinga sem sótt hafa um skólavist í lögregluskólanum eru með stúdentspróf, iðnmenntun eða jafnvel lokið háskólaprófi.  (Leturbreyting mín).

Maður skyldi ætla að lögreglunni væri akkur í því að fá fólk með sem besta og fjölbreyttasta menntun í lögregluskólann. Víða erlendis er til að mynda lögð áhersla á að fá fólk sem menntað er í félagsfræði, sálfræði, afbrotafræði, tungumálum og ýmisskonar ráðgjöf til liðs við lögregluna. Það hefur sýnt sig að það er árangursríkara á vettvangi að í lögreglunni sé þroskað og vel menntað fólk sem nálgast borgarana af yfirvegun og þekkingu en að setja ungt, óreynt en vopnað fólk í aðstæður sem það ræður illa við.

En hvað ætli lögreglan sé að gera til að lokka til sín vel menntað og þroskað fólk? Menn verða auðvitað að uppfylla hin almennu skilyrði sem allir lögreglumenn verða að uppfylla:

  • vera íslenskir ríkisborgarar á aldrinum 20 – 40 ára
  • ekki hafa gerst brotleg við refsilög; þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt um liðið frá því að það var framið
  • vera andlega og líkamlega heilbrigð og standast læknisskoðun trúnaðarlæknis samkvæmt fyrirliggjandi kröfum
  • hafa lokið a.m.k. tveggja ára almennu framhaldsnámi eða öðru sambærilegu námi með fullnægjandi árangri eða starfsþjálfun sem jafna má til slíks náms, hafa gott vald á íslensku og ensku, hafa almenn ökuréttindi til bifreiðaaksturs og vera synd
  • standast inntökupróf samkvæmt kröfum valnefndar með áherslu á íslensku og þrek

Svo eru það inntökuskilyrði í Lögregluskólann og hvernig er valið. Um þau má lesa í Handbók valnefndar. Þar kemur fram að fyrst er farið til læknis sem skoðar hvort fólk hafi heilsu í djobbið, sjái vel og heyri, sé ekki flogaveikt eða alvarlega litblint. Væg litblinda er leyfð en umsækjandi skal vera í andlegu jafnvægi og almennt heilbrigður og ekki of þungur. Þetta er fyrsti þröskuldurinn og útilokar t.d. fólk með ýmsar fatlanir eða sjúkdóma sem þó gætu örugglega sinnt einhverjum lögreglustörfum með prýði, fólk sem býr yfir mikilvægri þekkingu og reynslu sem gæti komið sér vel. Lögreglustörf eru nefnilega margsvísleg.

Næsti þröskuldur er inntökuprófið sjálft.

Byrjað er á þrekprófi. Það skiptist í stöðvaæfingar, hlaup og sund. Ef fólk stenst þrekprófið, hlaupið og sundið fær það að halda áfram í íslenskupróf þar sem það má ekki fá fleiri en 28 villur. Þá er farið í enskupróf og því næst almennt þekkingarpróf. Ef menn standast þetta allt undirgengst umsækjandi sálfræðimat þar sem lagt er mat á persónuleika, rökhugsun, ályktunarhæfni og athygli. Sálfræðingur annast úrvinnslu upplýsinga á sálfræðimatinu.

Hér finnst mér byrjað á öfugum enda. Það skiptir nákvæmlega engu máli hvort fólk kann að synda ef það getur ekki beitt rökhugsun eða ályktunarhæfni.

Og hvað er málið með allt þetta sund? Hefur einhver, einhvern tímann séð lögreglumann á sundi? Við hvaða aðstæður kæmi það upp og hversu líklegar eru þær? Nú er það svo að flestir Íslendingar, sem hafa gengið í grunnskóla hér á landi eru vel syndir. Þetta skilyrði (sem og íslenskukröfurnar) gætu þó útilokað hæft og gott fólk af erlendu bergi brotið eða Íslendinga sem hafa alist upp erlendis þar sem sundkennsla er ekki talin alfa og omega allrar menntunar. Mínar heimildir segja að ekki sé lögð nein sérstök áhersla á sundkunnáttu þegar lögreglumenn eru ráðnir í öðrum löndum.

Og það orkar líka tvímælis að nota þrekpróf sem stóran hjall. Það er nefnilega hægt að koma velflestu fólki í gott form og er gert í her- og lögregluskólum víða um heim. Það hefur hins vegar reynst flóknara að kenna almenna skynsemi, mannúð, hyggjuvit og rökhugsun sem eru mun eftirsóknarverðari kostir fyrir alla lögreglumenn, ekki bara þá sem þurfa að treysta á líkamsstyrk og þol í störfum sínum. Þótt menn hefðu doktorsgráðu í afbrotafræði eða félagsfræði kæmust þeir ekki í lögregluskólann nema vera vel syndir!

Það hlýtur að vera komið að því að endurhugsa þessa hluti. Það þarf styrkja það ágæta fólk sem sinnir þessum erfiðu, oft vanþakklátu og því miður illa borguðu störfum, með meiri menntun, fjölbreyttari mannauð og betri aðbúnaði (t.d. í formi launa) frekar en vígbúnaði og dóti sem á betur heima í tölvuleikjum en í raunveruleikanum.

Ég get vel skilið lögreglumenn og aðstandendur þeirra sem hafa áhyggjur af vopnvæðingu glæpamanna og hættulegu fólki. Ég hef hins vegar ekki rekist á neinar rannsóknir sem benda til þess að lögreglumenn séu öruggari vopnaðir (en útiloka svo sem ekki að það sé hægt, ekki hef ég lesið allar skýrslur þessa heims).

Og gleymum því ekki að lögreglan á Íslandi hefur drepið mann, almennan borgara.

Það var ekki öfugt.

MP5

 

Flokkun : Pistlar
1,283