Ritstjóri Herðubreiðar 02/12/2014

Á burtsigling frá Íslandi 1873

UndínaEftir Undínu

Trausta fleyið flytja má

fölva mey á bárum,

kaldri eyju ísa frá

út í reginhafið blá.

 

Nú í báru á söltum sjá

sólin klára hnígur,

líkt og tárið ljúfa má,

er líður sárum augum frá.

 

Hverfur tindur, hverfur bær,

hverfur í skyndi dalur,

hverfur lindin kristaltær,

hverfur yndi fjær og nær.

 

Kveð eg sprund og korðaver,

kveð eg lundinn blóma;

kveð eg grund, sem kærst er mér,

kveð eg stund, sem farin er.

 

Undína (1858-1941)

 

Undína var skáldanafn Helgu Steinvarar Baldvinsdóttur, sem flutti fimmtán ára með foreldrum sínum til Vesturheims. Eins og ljóðið ber með sér var henni brottförin ekkert gleðiefni.

Avatar
Latest posts by Ritstjóri Herðubreiðar (see all)
Flokkun : Ljóðið
1,758