Á burtsigling frá Íslandi 1873
Trausta fleyið flytja má
fölva mey á bárum,
kaldri eyju ísa frá
út í reginhafið blá.
Nú í báru á söltum sjá
sólin klára hnígur,
líkt og tárið ljúfa má,
er líður sárum augum frá.
Hverfur tindur, hverfur bær,
hverfur í skyndi dalur,
hverfur lindin kristaltær,
hverfur yndi fjær og nær.
Kveð eg sprund og korðaver,
kveð eg lundinn blóma;
kveð eg grund, sem kærst er mér,
kveð eg stund, sem farin er.
Undína (1858-1941)
Undína var skáldanafn Helgu Steinvarar Baldvinsdóttur, sem flutti fimmtán ára með foreldrum sínum til Vesturheims. Eins og ljóðið ber með sér var henni brottförin ekkert gleðiefni.
- Innan við múrvegginn - 15/01/2021
- Fjárhúsið að sumri til og fleiri þankar - 29/12/2020
- Gamall húsgangur - 24/12/2020