trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 23/05/2014

50 stig ef hann nær Auði Haralds

Eftir Hrafn Jónsson

Siðrofið nálgast við taktfastan sláttinn sem heyrist þegar höfðum er slegið saman; menn skalla eldri borgara, konur skalla börn, fólk í IKEA skallar hvert annað.Hrafn Jónsson

Einhverjir segja að 2007 sé að koma aftur. Ég vona það. Ég á í alvörunni sjö flíkur og enga peninga. Ég segi fólki að ég sé á milli stærða en í raun er ég bara að bíða eftir annarri lánabólu svo að bankinn gefi mér aftur yfirdrátt svo ég geti krítað út gjaldeyrisheftar gallabuxur. Sturlunin er samt önnur – ferskari. Í staðinn fyrir að glæpamenn kaupi banka og þrælavinnutískuverslanir á Oxford Street mokar ríkið ókeypis peningum ofan í kjaftinn á yfirskuldsettum Garðbæingum á meðan við hin liggjum undir matarborðinu og rekum út tunguna eins og prólapsaðan anus (plís ekki gúgla það) í von um að fá smá bita af oblátunni. Það var einhvern veginn meiri reisn í bólunni en þessu hringrúnki.

Ég er búinn að sækja um leiðréttingu. Ég á reyndar hvorki íbúð né bíl, hef held ég aldrei tekið lán í öðrum gjaldmiðli og er ennþá ekki alveg viss um hvað verðtrygging er; ég er í raun fullkomlega eignalaus ef frá er talið skúffu fyrirtæki í engum rekstri sem þrátt fyrir það skilar gríðarlegu tapi árlega sökum vangoldinna greiðslna í Framkvæmdasjóð aldraðra. Ég er því ekki að sækja um leiðréttingu af því að mér finnist ég eiga skilið að fá hana. Alls ekki. Ég einfaldlega skil ekki almennilega út á hvað hún gengur og beiti því sömu leikjafræði og graða kynslóðin á Tinder: hendi út öllum önglum og vona að eitthvað bíti á. Og af hverju ekki? Allir hinir trúðarnir eru að fara að gera það. Það vilja allir vinna í 80 milljarða króna vitfirringalottóinu.

Við erum svo spennt yfir ávísuninni að við nennum ekki einu sinni að vinna lengur. Kennarar nenna ekki að kenna, sjúkraliðar nenna ekki að hjúkra, ljósmæður nenna ekki að klippa, flugmenn nenna ekki að fljúga. Reyndar virðist Alþingi geta sett lög á aumingjadóm ákveðinna stétta ef leti þeirra stefnir öryggi almennings í hættu. Í tilfelli flugmanna var það metið þannig að stöðugt flæði breskra vísitölu fjölskyldna í yfirþyngd inn í landið væri stærra öryggis atriði en verkfallsréttur starfsmanna einka fyrirtækis sem hagnaðist um átta milljarða á síðasta ári. Guð forði okkur frá því að þessir sálarlausu skjala skápar sem þeir kalla miðbæjar hótel standi auð einni gistinótt lengur.

Sumir vilja meina að flugmenn séu oflaunaðir rútubílstjórar sem nú þegar fái stærri tékka en flest okkar munu nokkurn tímann sjá og skilningsleysi almennings á aðgerðum þeirra er reyndar svo mikið að starfsmenn á þjónustu borði Icelandair voru bókstaflega grýttir af far þegum – eins og langar, illa loftræstar fretfýlubiðraðir heyri undir einhvers konar sjaría lög. Mér finnst persónulega ákveðið öryggissjónarmið í því að það sé ekki gríðarlega gramur og yfirvinnubugaður einstaklingur að stýra 800 tonnum af stáli, áli, eldsneyti og kjöti á 900 km hraða í 30.000 feta hæð á meðan hann þrætir við þjónustufulltrúa hjá Hraðpeningum. En það má ekki stöðva hjól atvinnu lífsins, heldur á fólk bara að þegja og draga þau áfram með múlinn milli tannana. Það er þjóðarsáttin.

Í allri græðgis- og kjaftæðismóðunni má vart greina að það séu að koma kosningar. Það er eins og allir hafi gefist upp eftir að Guðni hætti við. Ætli það beri ekki ágætt vitni um góðan rekstur borgarinnar að það virðist enginn neitt hafa að segja nema framsóknarmenn sem geta ekki keypt sér atkvæði þrátt fyrir að hafa bókstaflega malbikað flugbraut á B-ið sitt og viðrað rökstuddan ótta sinn við arabíska draugabyggð í Vatnsmýrinni. Eina eftirtektarverða útspilið hingað til kemur frá Ungum sjálfstæðismönnum, sem hafa ákveðið að taka málin í sínar eigin hendur og slá skjaldborg um djammið og segja unga fólkinu að allt dómgreindar lausasta og besta fyllerískynlífið eigi sér stað handan við hálf fimm, enda voru flestir þeir sem eru að komast á kosninga aldur getnir í bakherbergi á Skuggabarnum.

Ég syrgi það að Björn Jón Bragason hafi ekki náð að klífa ofar á lista og fengið umboð til þess að standa á miðjum Laugaveginum í brúna Indiana Jones-leðurjakkanum sínum með tímareim úr Skoda Octavia í hönd, pískandi niður froðufellandi hjólreiðamenn sem gera aðsúg að einka bílnum. 50 stig ef hann nær Auði Haralds.

Ég er miklu spenntari fyrir næstu alþingiskosningum nú þegar stjórnmálaflokkum fjölgar næstum því jafnhratt og línulegum sjónvarpsstöðvum. Hægri vængurinn er loksins að fylgja fordæmi félagshyggjufólksins og splundrast í sífellt verr skilgreindar stjórnmálasellur. Á öðrum vængnum eru menn eins og Þorsteinn Pálsson og Sveinn Andri, sem hafa ákveðið að Sjálfstæðisflokkurinn sé of sturlaður fyrir þá, og á hinum endanum eru öndvegismenn á borð við Jón Val Jensson og Snorra í Betel, sem finnst flokkurinn ekki vera nándar nærri nógu sturlaður. Þeir hafa ákveðið að leiða saman sína illa upplýstu og hatursfullu afturhaldshesta og stofnað alvöru kristilegan þjóðernisflokk þar sem þeir hafa loksins vettvang til þess að viðra skoðanir sínar á útlendingum, fóstur eyðingum, lesbíum, hommum og þá sérstaklega endaþarms mökum. Ég vona því að þeir taki því tvöfalt persónulega þegar ég bið þá um að fara í rassgat. Prólapsað.

Það er nefnilega það skásta við þetta drasl-lýðræði; mátturinn til þess að segja fávitum að fara í rassgat. Ég hangi á því þangað til menntaða einveldið kemur og bjargar okkur öllum frá okkur sjálfum.

Og hvar er svo helvítis flugvélin?

Hrafn Jónsson, 22. maí 2014

1,592