% % %
Prósentureikningur er til margra hluta nytsamur. En það er með hann eins og flest allt annað; það er hægt að misnota hann.
Þegar 200-þúsund-krónu-maðurinn fær 10% hækkun sinna mánaðarlauna vaxa þau eðlilega um 20 þúsund. Ef prósentuhækkun er látin ganga upp eftir launatöflunum fær tveggja-miljón-króna-maðurinn 200 þúsund króna launahækkun í sinn vasa.
Í harðri kjarabaráttu fyrr á árinu náðu þeir lægst launuðu um 30 þúsund króna hækkun mánaðarlauna sinna. Í vikunni sem leið fékk forsetinn 200 þúsund króna hækkun á sínum mánaðarlaunum vegna ákvörðunar Kjararáðs, forsætisráðherra og biskup eitthvað litlu minna. Svona hefur þetta gengið árum saman, átölulaust að mestu, og launabilið eykst.
Kjararáð starfar að sjálfsögðu samkvæmt lögum. Þetta þýðir að alþingi hafi litið svo á, er lögin voru samin, að þegar hinir lægst launuðu fá 10% launahækkun skuli ráðamannagengið fá sömu prósentuhækkun; það er að segja allt að tífalt fleiri krónur en þegnarnir.
Að þessu sögðu skal hér sett fram abstrakt hugmynd um kjaramál. Hún gengur út á það að byrja á því að ákvarða laun æðstu embættismanna. Kjararáð reiknar út hvað fyrirsvarsmennirnir þurfi mikla kauphækkun til þess að komast af á næsta launatímabili; hversu margar krónur. Síðan fái aðrir sömu krónutöluhækkun. Eða, ef menn hefðu ekki þor til þessa; sú launahækkun sem herbergisþerna, öryrki eða fiskverkamaður nær fram með sinni baráttu gangi óbreytt upp launastigann. Ekki prósentan heldur krónutalan.
Nú kann einhver að segja sem svo að atvinnulífið hefði ekki tök á að greiða hverjum og einum tvöhundruð þúsund kallinn, sem forsetinn fékk, ofan á önnur laun. Það er trúlega rétt. En hver getur haldið því fram að hann hefði fengið svo ríflega hækkun ef laun hans hefðu verið ákveðin áður en verkalýðshreyfingin fór í slaginn fyrir sitt fólk og vitað væri að krónutöluhækkun hans gengi óbreytt niður stigann?
Prósentuhækkun launa er ósanngjörn; vekur úlfúð, eykur bilið á milli ríkra og fátækra. Það væri til bóta fyrir þegnana að hún yrði aflögð. Og ef stjórnmálamenn vilja leiða hugann að því, ættu þeir í þeim þankagangi. að hafa hugfast að það eru ekki fyrirsvarsmenn í þjóðmálum sem skapa verðmætin heldur hinir lægra launuðu, þeir sem verða áfram með lægsta kaupið þrátt fyrir 10% kauphækkun. Og mættu muna það líka að það lifir enginn á prósentunni einni saman.
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020