trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 01/04/2014

13,5 prósent Bjarna

Stóru tíðindin í könnun MMR eru ekki fylgið sem hugsanlegt framboð sjálfstæðismanna gæti fengið.

Það er að vísu meira en sambærileg framboð hafa fengið í könnunum, en þarf ekki að koma á óvart. Stór hluti þjóðarinnar gæti vel hugsað sér að kjósa hófstilltan hægri flokk. Það sýnir fylgi Sjálfstæðisflokksins alla síðustu öld – á meðan hann var enn hófstilltur.

Það eru heldur ekki tíðindi að helmingur kjósenda Bjartrar framtíðar gæti hugsað sér að kjósa skoðanabræður Þorsteins Pálssonar. Hann hefur yfirbragð frjálslyndis og hófsemdar, sem er einmitt ásýnd Bjartrar framtíðar. (Hvort það yfirbragð Þorsteins er verðskuldað er svo önnur saga, eins og Björn Valur Gíslason bendir á.)

Að auki er ekki að vænta sjálfkrafa mikillar tryggðar kjósenda sem greiddu Bjartri framtíð atkvæði í fyrsta sinn í fyrra.

Nei – stóra fréttin er að helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokksins væri til í að hoppa yfir á annan flokk.

Og hví er það athygli vert? Ætti það einmitt ekki að vera nánast sjálfgefið? Þetta er jú sami „markhópurinn.“

Kannske, en í ljósi fylgis flokksins í síðustu tvennum kosningum er þetta alvarlegt viðvörunarmerki fyrir Bjarna Benediktsson. Úrslitin þá voru nefnilega þau verstu og næstverstu í sögu flokksins.

Með öðrum orðum: Það er ekki af miklu fylgi að taka. Það er lítið eftir annað en erfðafylgið.

Eða til að orða það öðruvísi: Bjarni Benediktsson hefur ekki aðeins stýrt flokknum í gegnum tvenn verstu úrslit flokksins í þingkosningum. Hann hefur komið því þannig fyrir, að fylgið gæti orðið 13,5 prósent í þeim næstu.

Ég er ekki sú ótukt að nefna stöðuna í Reykjavík.

1,377