trusted online casino malaysia
Bragi Kristjónsson 06/09/2014

Vörubíll með bókum – Endurminning

Cyril Connolly

Cyril Connolly

Fyrir allnokkrum árum hringdi í mig góður kunningi. Hann sagðist vera að hringja þetta meira til málamynda, en sér hefði dottið í hug að tala við mig, vegna þess að fjölskylda hans þyrfti að losna við „einn bílskúr“ af bókum. Gömul frænka sín hefði komið þessu þarna fyrir til geymslu, en nú þyrfti að fara að hýsa bílinn þarna.

Eg var nú ekki lengi að hysjast á staðinn. Í ljós kom, að þarna var um að ræða þúsundir bóka og rita af ýmsu tagi, Íslandslýsingar á erlendum málum, mikið um andleg efni, tímaritaraðir um Grænland, þám. Meddelelser om Grönland og ótal annað, sem var mjög merkilegt.

Þarna var um að ræða tvö bókasöfn: 1) Meginið af bókum dr. Helga Pjeturss, jarðfræðings og heimspekings, andleg fræði og náttúruvísindi.

2) Uppistöðu bókasafns dr. Hans Kritzcka von Jaden, baróns í Vínarborg, en hann hafði um aldamótin 1900 kvænzt Ástríði systur dr. Helga og stóð heimili þeirra alla tíð í Vínarborg, en hún lifði fram undir 1960 og þekktu hana margir, sem voru þar við nám, t.d. Jökull Jakobsson skáld, Kristján Árnason prófessor, Haraldur Ólafsson prófessor, Þorvarður Helgason skáld, Sigurður Örn Steingrímsson prófessor, Bríet Héðinsdóttir rithöfundur og leikkona omfl.

Eg var nú ekki lengi að átta mig á, að ekki væri við hæfi að láta vörubílinn fara með þetta góss á öskuhaugana og því var þetta keyrt til mín í búðina og síðan eftir yfirferð var samið um verð. En afhverju er maðurinn að ámálga þetta nú, áratugum eftir þetta? spyr einhver.

Ja, það er vegna þess að áðan rakst eg á tvö gömul hepti, sem árituð voru nafni dr. Helga Pjeturss: „Zeitschrift fur Parapsychologie vormals Psychische Studien, 1874 begrundet von Staatsrat Alexander Aksakow“. Pr. í Leipzig 1930.

Í þessum bókahlöðum, sem um ræðir, var líka mikið af ritum um andleg málefni, en eptir einstakan feril sem doktor í jarðfræði og höfundur merkra kenninga um myndun Íslands, gerðist dr. Helgi (ekki) spámaður í sínu föðurlandi og setti fram kenningar um framlíf og er nokkuð langt mál að setja þær fram hér. Hann samdi um kenningar sínar mörg bindi, sem hann kallaði „Nýala“ og ritaði einstaklega fagurt íslenzkt mál og Laxness taldi hann einn af tungufeðrum sínum. Enda er unun að lesa texta eptir hann.

Öll ritin um fræði dr. Helga lét eg ganga til félags, sem er starfandi um kenningar hans hérlendis og voru þetta nokkur hundruð bindi, mörg þeirra árituð frá höfundum, ma. Bretann dr. Oliver Lodge, sem setti fram miklar kenningar um spíritisma og tengd efni og hefur verið þýddur á íslenzku.

Gaman er að geta þess hér í leiðinni, að félagið, sem starfar um fræði dr. Helga hefur miðla, sem „talað er í gegnum“ og er mér sagt af einum félaganna, að fjöldi merkra skálda og fræðimanna „að handan“ hafi komið á fundina og látið ljós sitt skína. Td. munu vera nokkuð mörg bindi með „nýjum verkum“ eptir dr. Sigurð Nordal, og auðvitað heilmargt eptir dr. Helga. Ekki efa eg, að þeir, sem í þessu félagi starfa, vinni þar af algjörum heilindum og væri þetta sannarlega verðugt rannsóknarefni fyrir hina ótalmörgu vísindamenn í íslenzkum og andlegum fræðum að kanna þessi rit, sem þarna hafa safnazt saman.

Og svo gróf eg dýpra í haugana hjá mér og þá kom í ljós hepti af „The Contemporary Review“ frá aprílmánuði 1910, ritstjóri Sir Percy Bunting.

En þarí ritar Mrs. Disney Leith: The Boyhood of Algernon Charles Swinburne, en frú Leith, sem opt var á ferð hér um og fyrir aldamótin 1900 og ritaði ma. bækur um Íslandsferðir sínar, var mikill og góður „Íslandsvinur“. Hún var frænka skáldsins og eru þetta sjálfsagt hinar merkustu heimildir fyrir Swinburne-fræðinga.

Þykir mér nú slæmt, að minn góði vinur Cyril Connolly skuli genginn fyrir ætternisstapa, en hann var einn helzti bókmenntajöfur Breta fyrrihluta 20. aldar, vinur Ezra Pounds, T.S. Eliots, Wyndhams Lewis, Hemingways ofl.ofl., gaf líka út bókmenntaritið „Horizon“, sem er nú mjög eftirsótt og dýrt. Hann hefði áreiðanlega haft gaman af að kíkja á þennan texta eptir Íslandsvininn.

Eg þýddi hér um árið eptir Connolly nokkrar greinir fyrir Lesbók Mbl., m.a. um Ezra Pound, sennilega mesta ljóðajöfur 20. aldarinnar, sem Bandaríkjarnir létu eptir stríðið dúsa í böndum í hænsnakofa á Ítalíu og dæmdu hann svo geðveikan, en slepptu svo úr haldi með hinum frægu ummælum í bókmenntaheiminum: „Sick, but Harmless.“ En Pound var með „Gyðingafóbíu“ og ritaði í stríðinu ýmislegt niðrandi um hina góðu stríðsherra Vesturveldanna. Þessvegna hlaut hann að vera geðveikur.

Einhverntíma sagði eg frá spjalli við Connolly hér á þessum pytti og þegar eg hitti hann, franska glæponin Jean Genet (höfund Vinnukvennanna, sem Bríet Héðinsdóttir þýddi og setti upp), Kenneth Tynan leikhúsmógúl þeirra Breta, Ted Hughes, lárviðarskáld Breta og mann Sylvíu Plath og fleiri andans jötunuxa á Café Royal í London, en þaðan fórum við á hótel „Savoy“ og þar í lyftunni var frú Marilyn Monroe ásamt lífverði sínum!

Ótrúlegt en dagsatt.

Og allur þessi bullandi til kominn vegna þess að eg rakst á nokkur erlend tímaritshepti í dótinu mínu. Þið megið sannarlega sýna þolinmæði, þegar bullið í kallinum fer í gang mín ágætu.

Flokkun : Pistlar
1,407