trusted online casino malaysia
Guðmundur Gunnarsson 22/12/2015

Víðvarpsamma les fyrir börnin

útvarpsspilariÉg hef undanfarin 20 ár staðið í pistlagerð á netinu. Oftast hef ég sett saman einhverskonar jólapistil. Í tilefni afmælis RÚV ákvað ég að jólapistill þessa árs væri samantekt nokkra punkta úr óbirtu handriti mínu um þróun rafiðnaðargreina og stéttarfélaga rafiðnaðarmanna. Markmiðið er að draga upp mynd af innleiðingu þeirrar tækniþróunar sem á örskömmum tíma kollvarpaði því samfélagi sem hér hafði ríkt í nánast óbreytt í 1000 ár. Síðasta öld var svo sannarlega öld rafiðnaðarmanna

 

Myrkrið helsti óvinurinn

Skemmstur sólargangur á Íslandi er um fjórar klukkustundir og skammdegismyrkrið var einn af höfuðóvinum íslensku þjóðarinnar, sem menn urðu að berjast við með þeim föngum sem landið sjálft veitti. Mör úr kindunum, hrossafeiti, hvalspik, sellýsi, hákarlslýsi og lýsi úr fiskalifur. Kveikirnir voru gerðir úr fífu. Ljósaáhöldin voru kolur og lampar. Úti fyrir grúfði kolsvart myrkrið og þegar sást ekki til tungls var reynt að setja ljós í glugga til þess að vísa mönnum til vegar heim að bæjum. Eldiviðarbaslið var daglegt stríð húsmæðra, mór og hrís var um aldabil aðaleldsneytið.

 

Í lok 19. aldarinnar eru engir vegir til á Íslandi og ekki eitt einasta vatnsfall brúað. Engin spítali, ekkert sjúkraskýli og einungis um 10 starfandi læknar á öllu landinu. Þéttbýlisstaðir eru að myndast á þessum tíma og engar vatnsveitur eða skolplagnir til. Einungis árabátar til sjósóknar og engar bryggjur á meðan erlend skip mokuðu upp fiskinum nánast upp í fjöru. Mikill sóðaskapur í kringum vatnsbrunna og við íbúðarhús. Reykjavík er á þessum tíma lýst í greinum sem sóðalegri og illa lyktandi forarvilpu, mór og kol voru nýtt til hitunar og eldamennsku og reykský grúfði yfir bænum á þeim tímum. Íslenskt samfélag átti eftir að gjörbreytast á nokkrum árum.

 

Hugmyndir um frelsi einstaklingsins og frjálslyndi ruddu sér rúms í lok 19. aldarinnar. Sr. Arnljótur Ólafsson var eins og áður hefur komið fram einn helsti boðberi þessara hugmynda hér á landi og flutti margar ræður þar sem hann kynnti þessa stefnu árið 1861, þá nýkominn heim úr hagfræðinámi við háskólann í Kaupmannahöfn. Hann sagði að samkvæmt „þjóðmegunarfræðinni“, eins og hann nefndi hagfræðina, væru ónauðsynlegar vörur ekki til. Það sem fólk vildi kaupa teldi það vera nauðsynjar hverju sinni, og enginn væri þess umkominn að rengja þá skoðun. Arnljótur gaf lítið fyrir þá hræðslu að allir lausamenn legðust í leti og ómennsku ef bændur slepptu af þeim takinu og losað væri um vistarbandið. Hann spurði í því tilefni, „Er það hið rétta eðli mannsins, að vera latur og ónytjungur?“ og Arnljótur svaraði sjálfur „Allir hefðu hvöt til þess að bjargast, jafnvel að verða ríkir.“ Samþingmenn hans úr bændastétt sögðu þetta væri innantómt fjas í Arnljóti og hér væri hann augljóslega að misnota menntun sína.

 

En þrátt fyrir að vistabandið væri afnumið með lögum í febrúar 1894, viðgekkst arðránið áfram og það átti eftir að kosta mikla baráttu verkafólks að ná fram réttindum sínum og breyta viðhorfum samfélagsins. Árið 1903 kom stúlka fótgangandi til Reykjavíkur og átti ekki annað en fötin sem hún stóð í. Verkstjóri réð hana sem vinnukonu, en sendi hana einnig til starfa í fiskvinnu þar sem hann starfaði. Þar fékk hún greitt 44 kr. á laun á viku. Þessum launum bar henni að skila til húsbónda síns, sem hins vegar greiddi henni umsamið kaup sem var 45 kr. á mánuði. Henni var sem vinnukonu gert að fara til fiskvinnunnar á hverjum morgni og skjótast síðan í hádegisverðarhléinu til þess að kaupa inn til heimilisins, og á leið heim í fiskvinnunni þurfti hún að sækja vatn til heimilisins. Þegar heim var komið þyrfti hún að skúra öll gólf og taka til í húsinu. Frúin var of fín til þess að vinna. Stúlkan giftist síðar og undi þá hag sínum vel, en gat ekki gleymt þrælavistinni hjá verkstjóranum og þegar hún sá útför hans auglýsta síðar sagði hún „Jæja, þá er karlrassinn loksins dauður. Guð sé lof.“

 

Áætlað er að um aldamótin 1900 hafi um helmingur landbúnaðaframleiðslu verið seldur á markaði, annaðhvort seldur innanlands eða fluttur út en liðlega helmingur framleiðslunnar var nýtur til eigin neyslu. Á þessum tíma er fólk að flytjast úr sveitum til þéttbýliskjarnanna við ströndina, þar myndaðist markaður fyrir margskonar voru og þjónustu. Íslensk klæðagerð er endurreist á þessum tíma með því að settar eru á stofn nokkrar klæðaverksmiðjur, Álafoss í Mosfellssveit árið 1896, Gefjun á Akureyri ári síðar og Iðunn í Reykjavík árið 1903.

 

Í upphafi síðustu aldar verður formgerðisbreyting á íslensku þjóðfélagi á tiltölulega skömmum tíma, örskömmum sé það borið saman við þá kyrrstöðu sem staðið hafði hér á landi öldum saman. Hér átt við þær breytingar sem verða á atvinnuháttum og kenndar hafa verið við iðnbyltinguna. Vélvæðing íslensks sjávarútvegs hófst þegar vél var sett um borð í sexæringinn Stanley á Ísafirði haustið 1902, og áratug síðar voru vélbátar orðnir 406. Upphaf togaraútgerðar hófst með togaranum Coot frá Hafnarfirði árið 1905, sama ár og sæstrengurinn er lagður til Seyðisfjarðar. Sjö árum síðar áttu landsmenn 20 togara, árið 1928 áttu íslendingar 28 togara. Vélvæðing sjávarútvegsins markaði upphaf atvinnubyltingar á Íslandi.

 

Sæstrengur er lagður yfir hafið og tengir þjóðina við útlönd árið 1906, samfara því komast á eðlileg viðskiptasambönd og verslunin flyst inn í landið. Á sama tíma margfaldast sjávarafli að tonnum og verðmæti. Erlent fjármagn bauðst og með því sköpuðust tækifæri fyrir „iðjulausan skríl á mölinni í Reykjavík. Hetjur íslenskrar iðnbyltingar voru ekki síst þessi fyrirlitni lýður sem fluttist úr sveitunum á mölina þrátt fyrir allar hrakspár.“ Vélvæðingunni og nýsmíðinni sem kom í kjölfar hennar, fylgdu aukin tækifæri og umsvif iðnaðarmanna jukust hratt. Járnsmiði þurfti til viðgerða á toghlerum og fleiri tólum togaranna, ásamt því að vélum hafði fjölgað gríðarlega og kölluðu á mikla viðhaldsvinnu og endurbætur. Vélvæðingin tók ekki eingöngu til sjávarútvegsins, heldur einnig til aukinna umsvifa í iðnaðarframleiðslu. Vélar voru teknar í notkun í ullarframleiðslu og á fyrstu sex árum tuttugustu aldarinnar eru stofnsett 33 rjómabú á landinu. Margar trésmiðjur vélvæddust og þannig mætti margt fram telja. Verksmiðjuiðnaður fór þó hægt af stað hér á landi. Iðnaðinum hafði vaxið fiskur um hrygg og í lok fyrri heimstyrjaldarinnar störfuðu um 10% landsmanna við greinar sem töldust til iðnaðar.

 

Jóhannes Reykdal reisti fullkomnustu trésmiðju í Hafnarfirði sem reist hafði verið hér á landi árið 1903, sem fjallað er um ítarlegar aftar í bókinni. Trésmiðafélagið Völundur tók árið 1905 nýja timburverksmiðju í notkun við sjávarsíðuna þar sem Seðlabankahúsið og gamla höfnin í Reykjavík er nú. Trésmíði með vélum var þá nær óþekkt hér á landi og þóttu fyrirtækin hin mesta nýlunda. Tildrögin þessarar verksmiðju voru þau að um 40 trésmiðir í Reykjavík stofnuðu hlutafélag til að reisa vélvædda trésmiðju eins og voru þá orðnar þekktar á hinum Norðurlandanna. Þessi verksmiðja var ásamt áðurnefndri trésmiðju Jóhannesar Reykdal eitt af fyrstu merkjum vélvæðingar á Íslandi. Þetta er áður en Reykvík er rafvædd með markvissum hætti, en í kjallara Völundar var sett niður 60 hestafla gufuvél, frá henni gekk 80 feta langur öxull eftir endilöngu húsinu, síðan voru vélar tengdar við öxulinn með reimum, bæði á neðri og efri hæð. Smíðavélarnar voru 15 auk þess var tengdur rafall við gufuvélina, sem nýttur var til þess að raflýsa húsið og nokkur hús í nágreninu. Með tilkomu þessara trésmiðja Völundar og Jóhannesar í Hafnarfirði varð mögulegt að fá alla glugga og hurðir smíðað innanlands, en fram að þessu höfðu menn þurft að flytja allt inn og jafnvel að bíða í hálft ár eftir því að fá þessa vöru frá útlöndum. Völundur tók að sér smíði margra stórhýsa í bænum og hafði mjög jákvæð áhrif á uppbyggingu Reykjavíkur, sama átti við um aðkomu Jóhannesar Reykdal að atvinnulífinu og uppbyggingu Hafnarfjarðar. Þá flutti fyrirtækið inn timbur í stórum stíl og hafði um tíma eigin skip í förum til þessara flutninga, en beint niður af Klapparstíg fyrir neðan hús verksmiðjunnar var reist bryggja, sem notuð var þar til höfnin kom á árunum 1913-1917.

 

Hægt og bítandi nýta íslenskir framleiðendur, útvegsmenn og bændur, sér greiðari aðgang að mörkuðum í Evrópu, samfara lækkandi flutningskostnaði með öflugri skipum. Framboð á ódýrari varning til landsmanna vex, t.d varð innflutningur á ódýru kornmeti mikil kjarabót. Framleiðslugeta sjávarútvegs vex og útflutningur sjávarafurða vex t.d. frá að vera 70% árið 1880 í 80% á árunum eftir aldamótin. Útflutningur landbúnaðarframleiðslu vex frá aldamótum frá því að helmingur fer á markað, en í byrjum fyrri heimstjaldar er þetta hlutfall komið upp í 65%.

 

Krafa um bætt kjör

Fólksfjölgunin í Reykjavík um aldamótin var gífurleg. Löngun manna til þess að verða sjálfs sín herra var mikil samfara því að vilji manna stóð til þess að öðlast frelsi til þess að afla tekna með eigin vinnuafli og njóta þannig alls afraksturs vinnu sinnar svo þeir gætu reist sér og sínum eigið heimili. Margar lýsingar eru til um vinnutíma verkafólks í Reykjavík áður en verkalýðsbaráttan hófst. Þessi grein birtist í Ísafold árið 1889. „Í Reykjavík og víðar í verslunarstöðum gengur sama óreglan, að daglaunamenn verða að vinna hjá kaupmönnum óákveðinn vinnutíma, og þar á ofan er þar beitt allmikilli hörku, ég vil segja harðýðgi við verkamennina; verða þeir að vinna frá því snemma á morgnana, stundum frá því stundu fyrir miðjan morgun (þ.e. kl. 5.00) til kl. 9 – 10 á kvöldin; og þar við bætist, að þeir fá engan ákveðinn tíma til að neyta matar, heldur verða nærri því að stelast til að rífa í sig matinn undir pakkhúsveggjum og á bryggjunum, eins og hungraðar skepnur eða siðlausir mannsmenn. Skyldi í nokkrum höfuðstað nokkurs lands vera farið þannig með menn sem eru frjálsir í orði kveðnu? Og á ekki hingað rót sína að rekja sljóleiki sá og hugsunarleysi, deyfð og doði, sem gjörir daglaunamenn almennt svo vanafasta og framtakslausa? …..Hvað kaup karlmanna snertir þá er það að nafninu til ekki svo lágt … En kvenmannsdaglaunin eru aftur á móti svo lág að slíkt er á engu viti byggt; eða hvaða sanngirni er að gjalda kvenmanninum ekki nema 3/5 á móti karlmanni, eða kannski tæplega það, og það þó kvenmaðurinn beri á börum móti karlmanni frá morgni til kvölds? Og þegar þau skila börunum að kvöldi fær karlmaðurinn 2 kr. 50 aura, en kvenmaðurinn 1 kr. 50 aura. Er eigi þetta ástæðulaus og gegndarlaus ójöfnuður?“

 

Vatnsveitur

Mörg verkefni biðu bæjarstjórnarmanna en vatnsveitan var talin brýnust. Vatn var sótt í nokkur vatnsból og sáu nokkrir karlar og kerlingar um að bera vatn í húsin. Allmargar fjölskyldur greiddu vatnsberum fyrir að sjá um vatnsburð til heimilisins, en vatnsberar voru í raun sérstök stétt vinnufólks. Vatnsberarnir voru einkum einstæðingar, útslitin gamalmenni og fólk sem hafði ekki burði í aðra erfiðisvinnu. Kjör vatnsberanna voru bágborin, þeim var ýmist umbunað með nokkrum aurum, húsaskjóli eða matarbita.Um aldamótin greiddi um helmingur fjölskylda í Reykjavík vatnsbera í vinnu.

 

Oftast var það sama fólkið, sem sá um að bera vatn á morgnana, og það sem sá um að hreinsa kamrana á kvöldin. Hér var um að ræða fátækasta fólk bæjarins sem vann langan og erfiðan vinnudag og bjó að auki við mjög slakar aðstæður til þess að geta sinnt nauðsynlegum þrifnaði á sjálfu sér og sínum fatnaði. Yfirvöld höfðu af þessu miklar áhyggjur enda höfðu læknar rakið taugaveiki til vatnsbólanna. Yfirborðsvatn átti auk þess greiða leið í vatnsbólin. Frá upphafi byggðar í Reykjavík var Ingólfsbrunnur við Aðalstræti aðalvatnsból bæjarins, þar sem Ingólfur Arnarson byggði bæ sinn. Um aldamótin 1900 er áætlað að um 34 vatnspóstar og vatnsból hafi verið víðsvegar um Reykjavík.

 

Það var ekki einungis hreinlæti sem kallaði á vatnsveitu, heldur voru á þessum árum miklir húsbrunar í Reykjavík. Um aldamótin fara nokkrir einstaklingar að koma sér upp litlum olíumótorum til að framleiða rafmagn og einnig var gas og steinolía notað til lýsingar. Slökkvilið borgarinnar réði lítið við vaxandi brunahættu í timburhúsunum, tryggingariðgjöld húsa voru hækkuð um 50% árið 1905. Kostnaður bæjarsjóðs vegna bruna óx á árunum 1905 til 1915 úr því að vera um 1% af útgjöldum bæjarins í að verða 6%. Jón Þorláksson landsverkfræðingur kom sama ár komið fram með þá hugmynd að leiða vatn úr Elliðavatni og ánni til bæjarins, þar sem vatnið lægi það hátt að það þyrfti ekki dælur til þess að koma vatninu til bæjarins. Ákveðið var að leggja vatnsveitu úr Gvendarbrunnum og er þeim framkvæmdum lokið haustið 1909, en þá er Vatnsveita Reykjavíkur stofnuð. Fljótlega eftir tilkomu nýju vatnsveitunnar jókst meðalneysla einstaklings í Reykjavík úr 18 lítrum á dag í rúmlega 200 lítra. Almennt er talað um framkvæmdirnar við vatnsveituna sem fyrstu stórframkvæmdina í Reykjavík.

 

Rafmagnið kynnt á Íslandi

Upphaf orkumála á Íslandi fólst í samspili milli einkaframtaks annars vegar og sveitarfélaga hins vegar. Ríkið stóð til hliðar. Þar á bæ drógu innbyrðis átök og metingur kjörinna fulltrúa til sín alla umræðuna. Ef eitthvert byggðarlag fékk tillegg úr sameiginlegum sjóðum samfélagsins komu óðara fram kröfur um að allar aðrar byggðir að fengju hið sama. Það gerði alla aðkomu ríkisins að framfararmálum ófæra því kostnaðurinn varð óyfirstíganlegur.

 

Breskt tilboð í raflýsingu Reykjavíkurbæjar barst árið 1888. Nota átti 10 hestafla gufuvél til þess að framleiða rafmagnið. Bæjarfulltrúar þess tíma voru fjarri því að vera reiðubúnir, að samþykkja svona byltingarkennda tillögu og höfnuðu henni umsvifalaust. Kennslutæki í rafmagni voru keypt til Lærða skólans á árunum 1888 og 1889. Líklega er þar í fyrsta skipti kveikt á rafperu á Íslandi. Snemma morguns laugardaginn 6. október 1894 varpaði „Laura“ akkerum á Reykjavíkurhöfn. Koma póstskipsins til höfuðstaðarins þótti jafnan töluverður viðburður og rauf fábreytnina með nýjum blöðum, pósti og fréttum utan úr heimi til hinna einangruðu eyjaskeggja á Fróni. Mestu tíðindin þóttu að með skipinu komu sautján Íslendingar, sem flutt höfðu til Vesturheims, en gefist upp á verunni þar. Frásagnir agentana höfðu að þeirra mati reynst hrapalegar blekkingar.

 

Í blöðunum birtist auglýsing um að einn af hinum heimkomnu Íslendingum áætlaði að flytja fyrirlestur í Fjalakettinum. „Ætlaði nú enn einn af þessum agentum að boða fagnaðarerindið?“ spurðu flestir og það var því fámennt í Fjalakettinum við Aðalstræti föstudagskvöldið 12. október þegar Frímann B. Arngrímsson steig í pontu og hóf að ræða um þá orku sem væri falinn í hinum fjölmörgu vatnsföllum landsins. Frímann, sem var háskólamenntaður í stærðfræði og raunvísindum, var talinn best menntaði Íslendingurinn í Vesturheimi. Frímann hafði áður en hann lagði af stað heim aftur, unnið um hríð hjá bandaríska stórfyrirtækinu The General Electric Co í Boston, sem var í eigu Edison. Í fyrirlestri hans kom m.a. fram að : „Líklega hefði ég unnið þar á meðan mér entist aldur, ef löngunin að líta til Íslands aftur og færa börnum þess besta boðskapinn, sem ég þá þekki, hefði ekki lokkað mig frá hinum sólríku ströndum Nýja Englands og borið mig hingað til Íslands“ Í ræðum og greinum Frímanns kemur glögglega fram að hann var vel kunnugur öllum þeim ótal möguleikum sem fólust í nýtingu rafmagns. Hann taldi því sjálfsagt fyrir Íslendinga að tileinka sér þessa nýju tækni og fyrir Reykvíkinga væri kjörið að virkja Skorarhylsfoss, sem nú er oftast nefndur Kermóafoss, í Elliðaánum. Viðstaddir létu sér þó fátt um finnast og gerðu grín að honum og völdu frekar að nýta vatnið og þá fjármuni sem til voru í vatnsveituna.

 

Aflið í bæjarlæknum

Aldamótaárið 1900 ritaði Valtýr Guðmundsson grein í Eimreiðina undir fyrirsögninni „Aflið í bæjarlæknum.“ Greinin var hugvekja til bænda og Valtýr kennir þeim jafnframt að mæla læki sína með svokallaðri flotholtsaðferð. Þetta var í fyrsta sinn sem vatnsmælingarfræði var boðuð hér á landi. Í greininni komst Valtýr svo að orði : „En vaknaðir eru menn þó ekki enn í þeim efnum, þó sumir séu farnir að rumskast og í svefnrofunum. Ef þeir væru vaknaðir, þá mundu þeir ekki láta allar þær ár og læki, sem eru í hverri einustu landareign, vera alveg arðlausa og eyða afli sínu til ónýtis. Menn mundu þá taka sig til og leggja beisli við þessar ótemjur og knýja þær til að vinna fyrir sig.“

 

Í Reykjavík voru smárafstöðvar drifnar af litlum steinolíurokkum við hús víðsvegar um bæinn. Raflýsing komst með þessum hætti smá saman á stóran hluta Reykjavíkur, sumar þessara stöðva voru allstórar, eins og t.d. Nathan og Olsenstöðin sem var staðsett í Pósthússtræti og var frá henni 110 volta veitukerfi um nánast allan miðbæinn, jafnvel „upp fyrir læk“. Önnur stöð var við Vatnsstíg í eigu Jónatans Þorsteinssonar (1880-1933) kaupmanns og glímukóngs, sem nýttist til raflýsingar mikils hluta Laugavegs og Hverfisgötu. Þriðja stöðin var við Njálsgötu og lýsti upp Njálsgötu og Grettisgötuhverfið. Fleiri stöðvar voru með minna veitukerfi og lýstu upp einstök hús. Þetta hafði í för með sér mikla hljóðmengun og heyrðust skellir mótoranna um allan bæ. Þetta var algengt allt fram að fyrri heimsstyrjöld. Árið 1920 voru 20 rafstöðvar í Reykjavík, flestar voru fyrir eitt hús. Í kjölfar Elliðaárvirkjunar lögðust flestar allar mótorvirkjanir niður. Hin stærsta þeirra, frá Nathan og Olsen, var flutt Hafnarfjarðar til hjálpar Reykdalsstöðinni, aðrar voru seldar víða út á land.

 

Bæjarstjórn Reykjavíkur ákvað á fundi sínum 7. maí 1914 að láta athuga til hlítar virkjunarmöguleika í Elliðaánum. Bæjarstjórn féll verkfræðingana Guðmundur Hlíðdal og Jón Þorláksson til að fara yfir áætlanir um Elliðaárvirkjun. Þeir lögðu fram áætlanir sínar í maí 1918. Í þeim voru tveir kostir, annars vegar var þúsund hestafla stöð við Ártún sem mátti stækka. Hins vegar lögðu þeir til 5 þúsunda hestafla stöð innst í Grafarvog, ekki fjarri því sem sjúkrastöð SÁÁ stendur nú. Vatn yrði fengið með því að grafa skurð úr Elliðavatni yfir í Rauðavatn og vatnið leitt þaðan niður í Grafarvog, þannig fengist vel ásættanleg fallhæð.

 

Einnig voru gerðar kannanir á því að grafa skurð úr Rauðavatni ekki fjarri því sem Morgunblaðshúsið er og í stað þess að leggja pípu niður í Grafarvog yrði hún leidd niður í Elliðaárdal og reisa þar virkjun á svipuðum stað og Árbæjarsundlaugin er nú og svo aðra stöð neðar eða á svipuðum stað eins og síðar var gert. Þetta kemur fram á teikningu eftir Jón Þorláksson verkfræðing frá ári 1918 um virkjanir í Elliðaánum. Reyndar eru einnig til hugmyndir um að leiða Korpúlfsstaðaá niður í Grafarvog og nota Hafravatn sem yfirfall. Það er síðan ákveðið á bæjarstjórnarfundi 4. desember 1919 að virkja eftir tillögum Guðmundar og Jóns. Stífla var reist rétt ofan við Árbæjarhólmann þaðan var lögð rúmlega eins kílómetra löng þrýstivatnspípa úr timbri að stöðvarhúsinu og nýtanlega fallhæð var 40 m.

 

Ritsíminn

Einar Benediktsson skáld og athafnamaður fylgdist vel með og er sannfærður um að stórkostlegir tímar séu í vændum í vísindum og bættri þjóðfélagsskipan, eins og áður hefur komið fram. Honum verður ásamt þeim Íslendingum sem höfðu farið erlendis ljóst að Ísland var að dragast sífellt lengra aftur úr samfélags- og tækniþróuninni. Vorið 1902 fer Einar Benediktsson til London og kemst að því að Marconi hafi áhuga á að koma upp loftskeytasambandi milli Íslands og Bretlands. Einar gerist umboðsmaður Marconi á Íslandi. Marconi-félagið lagði fram tilboð um að koma Íslandi í samband við umheiminn fyrir mun lægri upphæð en það kosti að leggja sæstreng til Íslands og setur fram tilboð um að reisa loftskeytastöð í Reykjavík árið 1904. Þarna lenti þeim saman Einari og Hannesi Hafstein (1861-1922) ráðherra, en hann er í viðræðum við dönsk yfirvöld um að gera samning við Stóra norræna um að leggja sæstreng til Íslands.

 

Fyrsti talsíminn hér á landi er settur upp árið 1889 á Ísafirði af Ásgeir G. Ásgeirssyni (1856-1912) eiganda Ásgeirsverslunar. Reistir voru staurar og lína lögð frá faktorshúsinu í Neðsta kaupstað til vefnaðarvöruverslunar Ásgeirs og þaðan til verslunarinnar í Aðalstræti. Sett voru upp 3 símtæki og var kerfið í notkun til ársins 1908, en þá keypti Landsíminn línuna. Hannes Hafsteinn náði samningum við Mikla Norræna um að leggja sæstreng til landsins. Um vorið 1905 fram á haust 1906 er lögð 614 km. löng tveggja víra lína á 14 þús. staurum frá Seyðisfirði til Reykjavíkur. Að símalögninni komu 250 Norðmenn og um tvöfalt fleiri Íslendingar sáu um að flytja staurana inn a línustæðið. Lengst þurfti að flytja staura um 100 km. það var frá Vopnafirði inn á heiðarnar á Norðausturlandi. Stauraflutningarnir voru framkvæmdir yfir kaldasta tíma vetrarins, þegar mýrar og vötn voru ísi lögð. Samtímis lagði Mikla norræna sæstrenginn til landsins. Strengurinn var lagður frá Hjaltlandi til Færeyja 215 sjómílur og þaðan 319 sjómílur til Seyðisfjarðar. Laugardaginn 29. september 1906 er skeytasamband við útlönd opnað með viðhöfn.

 

Víðvarps- amma les fyrir börnin

Ottó B. Arnar (1894-1974) var aðeins 22 ára þegar hann hélt vestur um haf til að nema útvarps- og loftskeytafræði. Eftir Bandaríkjadvölina sneri Ottó aftur til Íslands, sannfærður um að framtíðin fælist í útvarpi. Í upphafi árs 1920 náðu landsmenn fyrst erlendum útvarpsstöðvum, þessum stöðvum var einungis hægt að ná á öflug útvarpsviðtæki. Veturinn 1919-1920 fór Ottó til Kaupmannahafnar og keypti að beiðni ríkisstjórnarinnar loftskeytastöð í strandferðaskipið Sterling. Á siglingunni heim sendi hann út tónlist og Íslendingar á Austfjörðum sem höfðu komið sér upp móttökurum náðu þessum sendingum. Ottó sótti um einkaleyfi frá Alþingi árið 1924 til að reka útvarpsstöð. Leyfið skyldi vera til nokkurra ára og hefði ríkið rétt á að kaupa stöðina við lok tímans. Allir skráðir útvarpseigendur skyldu greiða stöðinni árlegt afnotagjald, en jafnframt vildu aðstandendur útvarpsfélagsins fá einkarétt á framleiðslu og sölu á viðtækjum. Stjórnvöld höfnuðu þessum samning.

 

Gísli J. Ólafsson (1888-1931) þáv. landssímastjóri skrifaði grein í 10 ára afmælisblaði Símablaðsins árið 1925 þar sem hann fór yfir margþætta kosti „víðvarpsins“ eða það sem Englendingar kölluðu „broadcasting“ og var fyrst kallað „víðboð“ á Íslandi, sem Magnúsi fannst ómögulegt orð. Hann sagði m.a. í greininni : „Auðsætt er, að víðvarpið hlýtur að hafa stórfelda breytingu í för með sér. Ætli það komi ekki einhvern tíma fyrir í þessu landi umhleypta, eða annarra fiskiskipa, leggi á stað til sjósókna í besta veðri, og áður en þeir eru búnir að leggja línur sínar, fái þeir boð frá víðvarpsstöðinni um að fárviðri sé í aðsigi og geti þess vegna bjargað bæði lífi sínu og veiðarfærum. Fyrstu fregnirnar á morgnana yrðu frá veðurstofunni: veðurlýsing innanlands og frá nágrannalóndunum, og veðurspá, sem vafalaust getur verið til stórhags þeim land- og sjávarbændum, sem nenna og kunna að færa. Fátt hefir tekið stórfenglegri og augljósari umbótum á fáum árum en víðvarpsaðferðin. Nú má heita, að í Bandaríkjunum. þar sem víðvarpið er fyrst fundið upp og er orðið jafn sjálfsagt menningartæki, og síminn hér á landi.

 

Á öllum sviðum menningarmálana yrði þessi tækni færð í nyt Allir merkustu viðburðir, bæði innlendir og útlendir næðu að heita má jafnóðum um allar sveitir landsins. Listamenn vorir og menntamenn myndu keppast um að skemmta fólkinu með söng og hljóðfæraslætti og fræðandi og skemmtilegum fyrirlestrum. Allir krakkar færu að hátta kl. 8, og enginn þyrfti að sitja hjá þeim, því að víðvarps-amma myndi brátt svæfa þau með skemmtilegum sögum. Allir unglingaskólar yrðu lagðir niður, því að öll slík kennsla færi fram víðvarpsleiðina í fyrirlestrum af færustu og bestu kennurum landsins. Erlend reynsla hefir sannað, að aðferð þessi er ágæt og hafa því gjört ýmsar tilraunir til menntunar. Og þá myndu þeir, sem tilhneigingu hafa til náms og bókhneigðir eru, njóta bestu kennslunnar, eins og vera ber. Bestu og mælskustu prestar landsins yrðu valdir til að predika fyrir fólkinu.“

 

Útvarpsrekstur hefst

Tilraunaútsendingunum var haldið áfram og sendi Ottó B. Arnar árið 1924 ásamt Lárusi Jóhannessyni (1888- 1967) lögfræðing, síðar alþingismanns og hæstaréttardómara, inn umsókn til Alþingis um sérleyfi til útvarpsreksturs. Málið vakti ekki áhuga þingmanna og náði því ekki í gegn. Þeir félagar endurnýjuðu umsóknina ári síðar og höfðu þá aflað sér stuðnings nokkurra þingmanna og þeir fengu sérleyfi til útvarpsreksturs í 7 ár. Ottó og Lárus stofnuðu hlutfélagið Útvarp, keyptu útvarpssendi og byrjuðu tilraunaútsendingar hinn 31. janúar 1926. Fyrst var útvarpað messu í Fríkirkjunni í Hafnarfirði, prestur var sr. Ólafur Ólafsson. Settur var upp hljóðnemi í kirkjunni og hann tengdur við símalínuna til Reykjavíkur. Sendirinn var í loftskeytastöðinni á Melunum.

 

Formlega hófust sendingar H.f. Útvarps 21. mars með ávarpi Magnúsar Guðmundssonar. Litlar heimildir eru annar til um dagskrá þessarar fyrstu útvarpsstöðvar. Útvarpað var hálftíma á morgnana, aðallega veðurfregnum og gengisskráningu, en á kvöldin voru upplestrar, stöku sinnum leikrit og nokkuð var um söng. Fengnir voru nokkrir menn til þess að flytja erindi. Sent var út frá einu herbergi sem Útvarp hafði til afnota í húsi Búnaðarfélagsins við Tjörnina í Reykjavík. Er leið á árið varð rekstur útvarpsins erfiðari. Fáir áttu enn útvarpstæki og afnotagjöld urðu því að vera mjög há ef endar áttu að nást saman. Jafnframt var sendir stöðvarinnar aflítill og þrátt fyrir viðleitni félagsins til menningarlegrar dagskrár þótti mörgum lítið til um. Stjórnmál blönduðust inn í félagið og var það kennt við fámennan hóp íhaldsmanna og umfram allt var sú skoðun almenn að útvarpsrekstur á svo stóru og strjálbýlu landi sem Íslandi ætti að vera í höndum ríkisins ef vel ætti að vera. Var slíkt álit enda í samræmi við þróun mála í öðrum löndum um þær mundir. Útsendingum var hætt haustið 1927.

 

Arthur Cook

Englendingurinn Arthur Charles Cook (1883–1959) sótti um leyfi til útvarpsreksturs frá Akureyri 27. janúar 1925 og fékk það samþykkt. Hann varð strax sem ungur maður ákaflega trúaður og fékk köllun frá Guði til að hann skyldi halda til Íslands og þjóna honum. Cook vissi sáralítið um landið og var sagt að á Íslandi væri töluð danska og hélt því til Danmerkur á leið sinni til Íslands til að læra dönsku. Hann fluttist til Ísland árið 1905 og settist að á Akureyri. Fyrsta verk hans var að stofna kristinn söfnuð, Sjónarhæðarsöfnuð. Hann var lærður hómópati og stundaði þær lækningar hér á landi í nær hálfa öld. Varð hann mjög lánsamur og vinsæll í því starfi. Hann taldi að Íslendingum væri mikil nauðsyn vegna strjálbýlis og einangrunar að eignast útvarpsstöð. Með kröftugri útvarpsstöð á Akureyri mætti ná til drjúgs hluta landsmanna án mikillar fyrirhafnar. Hann fékk löggilt leyfi og reisti útvarpsstöðina á Sjónarhæð og hóf útsendingar m.a. frá samkomum þann 9. september 1927. Gook fékk leyfið með hörðum skilyrðum frá yfirvöldum þar sem ekki kom til álita að hann fengi að innheimta afnotagjald, auk þess að varð hann að heita því að dagskráin væri fjölbreytileg og með eitthvað fleira en á trúarlegt efni.

 

Ríkisútvarpið hefur starfsemi

Árin 1928 og 1929 hófust tilraunir með talstöðvar í skipum og bátum. Snorri P. B. Arnar smíðaði tvær eins W stöðvar sem notuðu 350 metra bylgjulengd á miðbylgju, Stöðvarnar voru settar um borð í togara og náðist til þeirra allt út á Halamiðin út af Vestfjörðum og út á Húnaflóa. Útgerð var á þessum tíma umfangsmikil og skipstjórar sóttu fast að fá talstöðvar svo þeir gætu verið í sambandi við land bæði vegna öryggis og eins að fá upplýsingar hvar væri best að landa hverju sinni.útvarp

 

Árið 1929 er Ríkisútvarpinu og Landsímanum veitt einkaleyfi og rekstur einkareknu útvarpsstöðva Ottó B. Arnars og Arthurs Cook á Akureyri bannaður. Rekstur þessara stöðva hafði hins vegar orðið til þess að þegar var til mikil þekking í landinu á tækni og rekstri útvarpstöðva. Árið 1929 er hafin bygging stórhýsis við Austurvöll, sem á að hýsa starfsemi Ríkisútvarpsins, Landsímans og Veðurstofunnar. Á fyrstu áratugum Útvarpsins var aðeins sent út á einni útvarpsrás og fyrsta árið var aðeins sent út í nokkrar klukkustundir á hverju kvöldi. Snemma árs 1932 hófust útsendingar í hádeginu. Fyrsti útvarpsstjóri var Jónas Þorbergsson. Ríkisútvarpið var fyrstu mánuðina til húsa í Hafnarstræti 12 eða Edinborgarhúsinu eins og það var kallað á þeim tíma. Frá 1931-1959 var það til húsa í Landssímahúsinu við Austurvöll.

 

Þegar Ríkisútvarpið hóf sína göngu er talið að það hafi verið í landinu allt að 1.000 útvarpstæki, sum hver höfðu verið framleidd hér á landi. Ríkisútvarpið hafði einkarétt á sölu viðtækja og var það ein helsta tekjulind stofnunarinnar. Sett var á stofn Viðtækjaverslun ríkisins og Viðgerðarstofa útvarps árið 1931. Árið 1933 hóf Viðgerðarstofan framleiðslu á útvarpstækjum og senditækjum, fyrstu tækin voru gerð fyrir skip og báta. Síðar var hafin framleiðsla á útvarpstækjum sem fengu orku sína frá rafhlöðum, þau voru missterk og voru nefnd Austri, Vestri, og Suðri og voru fjögurra, þriggja og tveggja lampa. Sterkust voru Austra tækin.

 

Á tíu árum mætti raflýsa heila sveit fyrir féð, sem á sama tíma er sóað í eina tilgangslausa prestsskepnu.

Halldór Kiljan Laxness tók sér ferð á hendur sumarið 1927, þá 25 ára gamall, til að kynnast þjóð og háttum á þeim stöðum landsins sem liggja fjærst Reykjavíkurmenningunni. Hann var í ferð þessari til jóla og fór í svartasta skammdeginu landveg yfir öræfi. Austur- og Norðurlands, gekk á skíðum af Austfjörðum alla leið norður á Akureyri, og gisti hinar afskekktustu sveitir. Frá Norðurlandi fór hann til Vestfjarða og dvaldist þar um hríð. Greinin birtist í fjórum hlutum í Alþýðublaðinu 8. – 30. mars 1927. Hún var skrifuð um jólin á meðan áhrifin eru enn fersk í hug hans af því sem bar fyrir hann á þessu ferðalagi hans um öræfin og óblíðustu héruð landsins í skammdegisbyljunum, eins og segir í kynningu blaðsins á greinunum. Halldór hafði kynnst töfrum rafmagnsins og þá miklu og þægilegu birtu og hita sem það gaf með svo fyrirhafnarlitlum hættu og hann er svo framsýnn að sjá fyrir sér spjaldtölvurnar og hljóðbækurnar.

 

Halldór skrifaði : „Æ, þvílík firn af þjáningum! Hvílík firn af böli! Það er lagður svo þungur kross á suma. En skyldi guð ekki hugga þá, sem haldnir eru meinum, er engin mannshönd fær læknað, engin mannúð bætt? Maður, sem einu sinni hefir fengið augun opin fyrir rúmtaki hinnar ólæknandi eymdar í heiminum, getur aldrei losnað við þá hugsjón, að lækna beri hin meinin, öll þau, sem stendur í valdi manna að lækna. Ég elska mennina og fótatak mannanna. Hví skyldi ég ekki viðurkenna það í fávizku minni! Heill mannanna er heill mín. Böl mannanna er böl mitt. Þetta er hið dýpsta í lífsreynslu nokkurs manns, – karma – yoga. Lífið er alt of alvarlegt og stutt til þess, að við getum unnað meðbræðrum vorum annars en alls hins bezta. Vér vöknum að morgni dags og lítum út um gluggann út í myrkrið og frostið, – snjór- yfir heiðinni, endalausri heiðinni, og vér höfum öðlast náð til þess að vakna einn dag enn.

 

Eftir fáein ár erum vér ekki lengur. Eftir fáeina morgna fýkur mjöllin yfir beinum vorum. Guð blessi mennina og fótatak mannanna! Grúskarinn situr við borð sitt með uppháan flibba, mátulega vel bundna slaufu og spyr: Helgar þá tilgangurinn tækin? Og ég svara: Já; tilgangurinn helgar tækin, hvað sem Þuríður spákona segir eða þjóðsögumar. Það á að skjóta þá, sem vinna gegn því, að sem flestum mætti líða sem bezt. Þetta er einfalt mál, og þarf enga heimspeki um það.

 

Menningin er í því falin að auðga lífið að jákvæðum verðmætum á öllum hugsanlegum sviðum. Menningarverðmæti eru lífsþægindi og gagnkvæmt. Öll stjórnmálastarfsemi snýst um það að veita sem flestum alt það, sem auðið er af lífsþægindum; annars er ekki um stjórnmálastarfsemi að ræða, heldur gerræði. Hér á landi er lítið af stjórnmálastarfsemi og varla gerræði heldur. Háttvirtu kjósendur! Munið, að takmark þjóðar og einstaklings er aukin menning- Munið enn fremur, að menning er efnahagsfyrirbrigði.

 

Sjá veraldarsöguna! Íslendingar hafa. vanist því að halda, að menning sé að vita eitthvað, sem stendur í bókum. En fjarri. fer því, að bókvit þjóðar eða fræðikunnátta sé mælikvarði menningar. Í framtíðinni verða ekki lesnar bækur, – hljóðgeymir í stað bókar, sameining víðvarps og kvikmyndar. Sjá frásagnir af síðustu uppgötvunum, á þessu sviði.

 

Nú munu ýmsir kannske veigra sér við að lesa lengra af ótta fyrir því, að ég fari að draga heilan hóp af villandi ályktunum út frá einstöku dæmi, sem heyri til undantekningum. En ég hefi sem sagt farið um byggðir landsins og óbyggðir og dvalið í öllum landsfjórðungum að sumar lagi og vetrar, þekki bæði kot og höfuðból og veit nákvæmlega, hvað ég er að fara. Ég veit sem sagt vel, að í hverri sveit eru til nokkrir stórbæir, þar sem þingmenn gista á yfirreiðum og útlendir skemmtiferðamenn byggja á dóma sína um íslenzkt sveitalíf. Það er satt, að á höfuðbölunum er ýmislegt eins og á að vera. En smábæirnir eru tuttugu sinnum fleiri en stórbæirnir, og þar er ekkert eins og á að vera. Ég er sérfræðingur í kotunum. Það er í kotunum, sem þjóðin býr, alþýðan. Þar er hin kjarngóða bændamenning, sem stofulygararnir í kaupstöðunum leika með loddarabrögðin í dagblöðunum.

 

Ég er ekki að heimta, að fólk sé rekið úr kvalahéruðunum með lögvaldi og svipum, þótt slíkt væri kann ske viturlegast. En það á að gera beztu landshlutana að innflytjendahéruðum. Íslendingar gætu allir lifað konunglega á Suðurlandsundirlendi og í Borgarfirði. Afganginn af landinu mætti nota fyrir draumaland. Ég hlakka til að sjá, hver áhrif það hefir á samdrátt fólksins, þegar járnbrautin kemur austur um. Skyldu afdalirnir ekki tæmast og heiðakotin? Ég vona, að unga fólkið fari á undan. Ef Flóinn er framtíðarlandið, þá vona ég, að sem flestir lendi þar. Járnbraut austur! Ræktað land! Raflýsing sveitabæjanna! Saman með fólkið! Örbirgð fer glæpur! Vera ánægður með örbirgðina er enn þá ljótari glæpur! Meiri óánægja! Hærri kröfur! Maðurinn er ekki urðarköttur, heldur aðalborin vera! Hann er skapaður í guðs mynd og á að hafa rafljós og rafhitun og stóran spegil, svo að hann geti nógu oft virt fyrir sér, hvernig guð lítur út.

 

Nú veit ég ekki, hvort ég á að fara að nenna að segja það, sem allir vita, þótt ég sé nýkominn úr Þingeyjarsýslu (en þar nyrðra hefi ég rekist á fólk einna fróðast í því, sem allir vita). En það, sem allir vita í þessu sambandi, er einmitt leyndarmálið um prestana. Það er nefnilega opinbert leyndarmál hér á landi, að prestastéttin er alveg gersamlega handónýt stétt. Það er að henda fé í sjóinn að hafa svoleiðis. Ræður presta eru hið aumasta slúður, sem sést og heyrist opinberlega, að pólitíska rifrildinu í dagblöðunum ekki undanskildu. Þessu verður að lýsa yfir, enda þótt það kunni að hneyksla Jónas frá Hriflu eða, aðrar ómerkilegar kerlingar. Það er yfirleitt ekki ljós punktur í ræðum presta, alt illa gerðar ljósmyndir af löngu hugsuðum hugsunum, sem löngu eru búnar að gera sínar byltingar, væmið mærðarstagl. Sjá hundrað hugvekjur. Það er ekki eyðandi orðum að slíku, enda kærir fólkið sig sízt að heyra þetta steindauða kjaftaþvaður, sem ríkið launar með sömu hendinni og það rífur brauðið frá munnum snillinga sinna. Hugsandi menn eru dauðadæmdir hér í landinu. Alt verður að ganga eftir gamalli kenningafræði, sem var sannleikur á liðnum byltingatímum, en nú er orðin lygi. Fyrir þetta er borgað. Kirkjur standa alls staðar tómar til landsins; það er staðreynd. Fólki hundleiðist þetta predikunarvesen. í sveitum er ekkert, sem heitið geti kirkjulíf, og í kaupstöðum er kirkja aðallega sótt af fátæku fólki, sem á sér lítils úrkosti um skemmtanir, – helzt af gömlum konum, sem hafa ekki ráð á að fara í bíó.

 

Það er kominn tími til, að landsmenn rísi opinberlega gegn predikuninni, þessari evangelisk-lúthersku landplágu. Það er kominn tími til, að þeir heimti raflýsing sveitabæjanna í staðinn. Á tíu árum mætti raflýsa heila sveit fyrir féð, sem á sama tíma er sóað í eina tilgangslausa prestsskepnu. Við raflýsing sveitabæjanna myndu skilyrðin tífaldast fyrir því, að menn kæmust til himnaríkis, en það er blátt áfram blygðunarvert fyrir skynsemi gædda veru að sitja undir almennri stólræðu. Niður með predikanir! Upp með raflýsing sveitabæjanna! Fimmtíu prestlaunum skyldi verja á ári hverju til bókmennta og lista. Hversu margir skyldu vera í flokki presta, sem kosið hafa starfa sinn af sömu: hvötum og listamaðurinn hlýðir sinni köllun eða skáldið? Íslenzkir prestar eru flestir góðir náungar (guð forði mér frá að skamma eða meiða nokkurn einstakan mann!). Ég þekki marga þeirra og alla að góðu, en þeir eru bara ekki prestar, hafa hvorki klerklegt uppeldi né klerklegt gildi. Þeir hafa gerst guðspjallasnakkar af þeim ástæðum einum, að þeir fá kaup, og myndu allir hætta, ef það væri tekið af þeim kaupið.“

 

Rafvæðing heimilanna

Aukinn þéttbýlismyndun í kjölfar vélvæðingarinnar skapaði einnig hagstæðar aðstæður fyrir þróun iðnaðarins. Með henni stækkaði markaður fyrir iðnvarning samfara bættum samgöngum. Auknar tekjur almennings stuðluðu að enn frekari uppbyggingu. Rafvæðingin leiddi til þess að verslanir fóru að bjóða raftæki. Sumarið 1921 er haldin búsáhaldasýning í Gróðrarstöðinni og vakti raftækjasýningin mestu athygli og var fjallað um hana m.a. í Morgunblaðinu 16. júlí 1921. Raftækjasýningin var sú deild sýningarinnar sem dró til sín mesta athygli Reykvíkinga, enda lá fyrir að nú voru að opnast miklir möguleikar fyrir notkun raftækja. Öll helstu fyrirtækin í rafiðnaði voru þátttakendurnir í sýningunni. Þar voru lampar allskonar og ljósakrónur, ýmsar gerðir af perum, rafmagnsofnum suðuplötum, straujárn, rafmótorar og margt annað af áhöldum sem gera rafmagnið hinn mesta aufúsugest á hverju heimili.

 

Elliðaárvirkjunin framleiddi í fyrstu einkum rafmagn til ljósa eins og rakið var hér framar. Það var þjóðahagslega mikill ávinningur að fá heimilin til þess að nýta þessa umframkorku í stað kola- og olíueldavéla. Til þess að flýta fyrir þessari þróun var heimilunum boðið upp á að eignast eldavél frá Rafha í áskrift með rafmagninu. Þetta tókst og orkuþörf heimilanna jókst gríðarlega sem stóð undir því að reisa stærri virkjanir. Framleiðsla Rafha var ómetanlegt hagræði í efnahagslífi landsins á styrjaldarárunum og sparaði ríkinu mikinn gjaldeyri. Fyrstu Rafha-eldavélarnar voru smíðaðar árið 1937. Í árslok 1960 hafði verksmiðja Rafha framleitt 86.000 raftæki af meira en þrjátíu gerðum. Segja má að þetta skeið í raforkusögu innanlandsmarkaðarins hafi staðið frá árinu 1940 til 1985 og einkennist af síaukinni notkun á tiltölulega orkufrekum tækjum á heimilunum. Neytandinn keypti þau í takt við vaxandi velmegun og þessi „þungu rafmagnstæki“ valda byltingu í lífsháttum fólks, samfara batnandi húsnæði og aukinni bílaeign.

 

Rafmagnseldavélin var fyrsta tækið af þessum toga. Á eftir eldavélinni kom fyrsta kynslóð af einföldum þvottavélum og rafknúnum þvottapottum. Þau táknuðu verulega framför frá því sem áður var þegar konur þvoðu alla þvotta með höndum í bala og með þvottabretti. Enn þurfti að standa yfir tækjunum og færa blautan þvottinn milli þeirra, en það lagast upp úr 1960 þegar næsta kynslóð þvottavéla koma á markaðinn; þær voru sjálfvirkar. Þessi tæki eru einn stærsti þáttur þeirrar lífsháttabreytingar sem fylgdi rafvæðingunni. Ísskápar komu fram á sjónarsviðið næstir á eftir þvottatækjum af fyrstu kynslóð. Þeir léttu heimilisstörfin meira en ætla mætti við fyrstu sýn. Næst ber að nefna frystikistuna en hún hefur einnig breytt daglegu lífi allverulega. Síðasta þunga raftækið sem náði almennri útbreiðslu var uppþvottavélin.

 

Flytja verður inn potta með þykkum botnum svo nota megi rafmagn til eldunar

Til þess að selja orkuna varð að hvetja bæjarbúa til þess að nýta rafmagn til eldunar og buðu upp á sérkjör á rafmagni. Meðal almennings gætti mikillar vantrúar á rafmagni til eldunar. Foreldrar Guðmundar J. Guðmundssonar (1927-1997) formaður Dagsbrúnar voru meðal fyrstu íbúa í verkamannabústöðunum, hann lýsti þessum bernskuminningum sínum síðar þannig: „Ég hef ekki trú á að það hafi verið verkamennirnir eða sjómennirnir sem heimtuðu rafmagnseldavélarnar, en um þær stóð mikill styr. Fólk bara hafði ekki trú á rafmagni til eldunar og alls ekki ýmsir byggingarfróðir menn. Gas var því leitt inn til öryggis. Það hafa sagt mér gamlir menn að því hafi verið spáð, ef rafmagnseldavélarnar yrðu notaðar, að þá yrðu húsmæður að vakna kl. 6 á morgnana ef maturinn ætti að vera tilbúinn í hádeginu.. ..Þetta gekk svo langt að einhver einkasala flutti inn sérstaklega þykka potta sem áttu að liggja þyngri á eldavélinni til að rafmagnið nýttist. En það ótrúlega gerðist að þessar þýsku rafmagnseldavélar, sem keyptar voru reyndust frábærlega vel og móðir mín notaði alltaf þá sömu og hafði ekki trú á annarri.“ Árið 1936 voru aðeins 290 rafmagnseldavélar í Reykjavík eða 4,7% allra íbúða en aðeins fjórum árum síðar voru komnar rafmagnseldavélar í yfir helming allra íbúða og tala þeirra var þá orðin 4.116. Þetta leiddi til þess að rafmagnsnotkun jókst gríðarlega fyrsta starfsár Ljósafossvirkjunar.

 

Nokkrir greinarstubbar í handiriti Guðmundar Gunnarssonar „Hvítu kolin – saga samtaka rafiðnaðarmanna“

 

Flokkun : Efst á baugi
1,295