trusted online casino malaysia
Indriði Þorláksson 05/05/2015

Veiðigjöld 2015. Þriðji hluti

MakríllÍ fyrsta og öðrum hluta þessarar greinar var fjallað um þau rök sem í frumvarpinu eru færð fyrir því að halda veiðigjöldunum svo lágum að þau skilja meginhluta auðlindarentunnar eftir hjá útgerðinni að eigandi hennar fær nær ekkert í sinn hlut og gerðir voru útreikningar á arði og auðlindarentu í sjávarútvegi og hlutdeild þjóðarinnar í henni. Í tveimur síðustu hluta greinarinnar verður hugað að öðrum ákvæðum frumvarpsins sem máli skipta. Þau eru gjaldstofn eða reiknigrunnur veiðigjalds, reiknistuðlar eða álagningarhlutföll og breytingar á því á hverjir eiga að standa skil á gjaldinu.

III EBT eða hreinn hagnaður

Samkvæmt frumvarpinu eiga veiðigjöld framvegis að ráðast af svokölluðu EBT sem í frumvarpinu er einnig kallað hreinn hagnaður, sem verður þó að teljast öfugmæli. Þessi erlenda skammstöfun er almennt lítt notuð enda eru önnur hugtök yfir fyrirbærið jafnan notuð í tali, lögum og fræðum þar sem það á við. Dularfullar skammstafanir gefa texta fræðilegt yfirbragð en sé ekki útskýrt hvað þær þýða eru það eingöngu innvígðir sem átta sig á því hvert verið er að fara.

EBITDA og EBT

Kennitalan EBITDA (Earnings Before Interest, Taxes, Depreciation and Amortization) er tilraun til að meta afkomu fyrirtækis án fjármagnskostnaðar og beinna skatta. Í bókhaldslegum fjármagnskostnaði eru reiknaðar stærðir fyrirferðarmiklar og brengla þá mynd sem bókhaldið gefur af afkomunni. Bókhaldslegar afskriftir eru yfirleitt allt aðrar en raunveruleg notkun varanlegra fjármuna og hér á landi geta gengisbreytingar leitt af sér sveiflur í bókhaldi sem hafa ekkert með raunverulegar breytingar að gera.

Þessar ástæður, sem að verulegu leyti skýra skattleysi og uppsafnað skattalegt tap íslenskra fyririrtækja í góðum sem vondum árum, hafa orðið til þess að fram hafa komið hugmyndir um að breyta skattstofni fyrir tekjuskatt fyrirtækja úr því sem er kallaður hagnaður yfir í EBITDA. Ábendingu um þetta er m.a. að finna í ráðleggingum AGS um skattamál hér á landi. Af þeim bókhaldslegu hugtökum sem almennt eru í umræðu kemst EBITDA næst auðlindaarði. Til að fá hann þarf einungis að draga frá EBIDTA raunverulegan fjármagnskostnað, sem auðvelt er að áætla.

Í leit að „reiknigrunni“ fyrir veiðigjald sem taka ætti mið af rentu af sameiginlegri auðlind hefði að frágengnum umframarðinum sjálfum verið nærtækast að styðjast við EBIDTA. Það er þó ekki gert heldur er lagt til að svokallað EBT (Earnings Before Taxes) sé notað. (Þetta hugtak kann að finnast í einhverjum afkimafræðum, en er t.d. ekki að finna á greinargóðri síðu vísindavefjar HÍ um EBITDA og skyld hugtök og Google fræðimenn þurfa að grafa djúpt til að finna það.)

Það sem skilur á milli EBITDA og EBT er að með EBT er bókhaldslegur fjármagnskostnaður dreginn frá tekjum til að fá skattstofninn. Tilgangurinn með EBITDA var að losna við þá ónákvæmni og sveiflur sem af því leiðir. Með því að velja EBT eru þessir gallar valdir, sem etv. kemur sér vel fyrir þá sem er í aðstöðu til að nýta þá og njóti sérfræðiþjónustu til þess. Fáránleiki þess að velja EBT sem skattstofn sést best á því að frádráttur vegna vaxta og verðbreytinga í sjávarútvegi hefur á árunum 2008 til 2013 verið frá mínus 1,5 milljarðar króna upp í plús 192 milljarða og EBT af þeim sökum aðallega sveiflast frá 156 milljarða tapi upp í 60 milljarða gróða.

En þar með eru ekki öll kurl komin til grafar. EBT samkvæmt frumvarpinu á að byggja á útreikningum Hagstofu í skýrslunni Hagur veiða og vinnslu. Sú skýrsla tilgreinir einungis tekjur sem tengjast fiskveiðum og fiskvinnslu. Aðrar tekjur viðkomandi fyrirtækja svo sem tekjur af óskyldum rekstri, arður af hlutabréfum og aðrar fjármagnstekjur af eignum eru ekki meðtaldar.

Ef gjaldstofninn er reiknaður arður eða EBITDA er það í lagi. Þá er litið fram hjá fjármagnsliðum bæði á tekjuhlið og á gjaldahlið. Með því að nota EBT eins og frumvarpið gerir ráð fyrir er farið út í hreint rugl. Fjármagnstekjur ekki taldar með en fjármagnsgjöld tekin til frádráttar. Þetta rugl er þó varla tilgangslaust. Skýrsla Hagstofunnar sýnir að eign sjávarútvegsfyrirtækin í árslok 2013 var talin um 530 milljarðar króna. Þar af eru varanlegir rekstrarfjármunir einungis um 118 milljarðar króna sem er verulegt vanmat á þeim. Fjármálalegar eignir, handbært fé, hlutafé og aðrar kröfur voru yfir 150 milljarðar, sem líklega eru einnig vanmetnar hvað hlutaeignir varðar. Skuldir sjávarútvegsins eru taldar um 380 milljarðar í árslok 2013. Þessar skuldir eru ekki eingöngu vegna fjárfestinga í rekstrarfjármunum og rekstrarfjár. Stór hluti þeirra tengist öðrum fjármálaumsvifum.

Eignir aðrar en fastafjármunir sjávarútvegsfyrirtækja skipta hundruðum milljarða króna. Það er ekki líklegt að vel rekin fyrirtæki með hvers kyns sérfræðinga á sínum snærum láti þessa fjármuni liggja vaxtalausa. Stór hluti skulda sjávarútvegsfyrirtækja er ekki vegna veiða og vinnslu heldur vegna fjárfestinga í annarri starfsemi, dótturfyrirtækjum erlendis, óskyldum fyrirtækjum, verðbréfum og öðrum peningalegum eignu. Tekjur af þessum eignum eru ekki teknar með en vextir af skuldunum notaðir til að lækka EBT. Með því að nota EBT sem mælikvarða á afkomuna er verið að láta veiðar og vinnslu bera kostnað sem hefur ekkert með þá starfsemi að gera og arðurinn af fiskveiðaauðlind þjóðarinnar notaður til bera hluta af kostnaði eigenda sjávarútvegfyrirtækja við aðra tekjuöflun þeirra.

III Skatthlutföllin

Aðferð frumvarpsins er, ef grannt er skoðað, sú að reikna sameiginlegan tekjuskattsauka á sjávarútvegsfyrirtæki, þó þannig að skattstofninn er ekki allar skattskyldar tekjur en allur kostnaður dreginn frá. Skatthlutföllin eru svo ærið misjöfn. Eftir að skrælt hefur verið utan af orðaflækjum viðkomandi frumvarpsgreina (c og d liðir 5. gr.) er útkoman þessi:

Botnfiskur:

Veiðar                                                     35,00%

Söltun, hersla og ferskfiskvinnsla           7,00%

Landfrysting                                            5,46%

Uppsjávarfiskur:

Veiðar                                                      35,00%

Frysting                                                     1,54%

Mjöl og lýsisvinnsla                                     7,00%

Enginn rökstuðningur er í frumvarpinu fyrir því hvers vegna þessar tölur eru notaðar og hvers vegna þær eru mismunandi. Skattstofninn er í öllum tilvikum svokallað EBT. Auk áðurnefndra galla á þeim skattstofni vekur það furðu að ætla að sérgreina þessa stærð ekki aðeins fyrir veiði- og vinnsluþátt fyrirtækja með blandaða starfsemi heldur einnig fyrir einstakar framleiðslulínur innan fyrirtækja. Ef það á að gera af einhverju viti þarf að kveða á um bókhaldslega ef ekki rekstrarlega aðgreiningu þessara þátta. Ákvæði e liðar 5. gr. frumvarpsins um sundurgreiningu skattframtala er algerlega ófullnægjandi og koma þessu atriði ekki við.

IV Ívilnun til smærri útgerða

Í upphaflegum veiðigjaldalögum voru ákvæði sem ívilnuðu smærri útgerðum með þeim hætti að ekkert sérstakt veiðigjald var lagt á þorskígildistonn að 30 tonnum og síðan hálft gjald þar til 100 tonnum var náð. Þetta var stærri útgerðum þyrnir í auga en þær töldu ekki rétt að ívilna útgerðarformum sem að þeirra mati voru óhagkvæm. Með breytingu á lögunum á síðasta ári var þessari ívilnun breytt til lækkunar í flestum tilvikum og nú er hún skorin verulega niður. Útgerð með 30 tonn fékk með veiðigjöldum síðasta árs lækkun um tæpar 130.000 kr. en fengi nú 100.000. Ívilnun hjá útgerðum með yfir ca 60 tonna ársafla fellur alveg niður en þegar afli er mikill vegur það ekki mikið.

Ljóst er að þessar breytingar eru til óhagræðis fyrir smærri útgerðir og hækka veiðigjöld þeirra umfram það sem að öðrum snýr. Rök frumvarpsins fyrir þessum breytingum eru annars vegar þau að þetta þurfi að gera vegna breytinga á álagningi og innheimtu, sem einnig eru til óhagræðis fyrir smærri fyrirtæki, eins og komið verður að síðar, og hins vegar til að draga úr hvata til málamyndagerninga, sem eru heldur hláleg rök þegar litið er til þess að aðrar breytingar beinlínis bjóða málamyndagjörningum heim.

Í fjórða og síðasta hluta þessarar greinar verður fjallað um þá hvata sem erun í frumvarpinu til málamyndagjörninga og annarra ráðstafana sem gera stórútgerðunum kleift að hafa áhrif á veiðigjöldin til lækkunar en geta jafnframt skert hlut sjómanna og útgerða sem ekki vinna eigin afla eða eiga ekki fyrirtæki sem vinna hann. Ennfremur verður sýnt fram á rökleysurnar að baki því að taka upp svokallaða staðgreiðslu og það óhagræði sem útgerðir með leigukvóta hafa af því.

Latest posts by Indriði Þorláksson (see all)
Flokkun : Pistlar
2,545