trusted online casino malaysia
Gestastofa 17/09/2014

Vanhugsuð ofbeit

Þorvaldur Lúðvík SigurjónssonEftir Þorvald Lúðvík Sigurjónsson

Í síðustu viku var lagt fram frumvarp til fjárlaga 2015. Á sama tíma var lagt fram prýðisgott hálfsárs uppgjör Isavia ohf., sem er félag í eigu ríkisins, og er ætlað að annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi. Þá er eitt af hlutverkum Isavia að tryggja að flugöryggi sé í samræmi við alþjóðlegar öryggiskröfur og aðferðir.

Aukið á ofbeitina á SV-horninu

Í stuttu máli leiðir fjárlagafrumvarpið í ljós áframhaldandi kerfisbundinn niðurskurð til viðhalds og uppbyggingar annarra flugvalla en Keflavíkur, sem varað hefur frá 2007. Nýlega kynnti Isavia áætlanir sínar um 12-15 milljarða framkvæmdir við Leifsstöð og á Keflavíkurflugvelli til að mæta auknum ferðamannastraumi til landsins. Þann vöxt ætlar félagið að fjármagna á grundvelli eigin rekstrar. Á sama tíma veldur hirðuleysi á öðrum flugvallarmannvirkjum á Íslandi m.a. því að Þingeyrarflugvöllur og þar með Vestfirðir lokast oftar en ella, auk þess sem sögulegt tækifæri til að nýta ókeypis hrat úr Vaðlaheiðargöngum til uppbyggingar flughlaða á Akureyrarflugvelli er að ganga úr greipum.

Til að bíta hausinn af skömminni ályktaði síðan í síðustu viku stjórn Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) vegna bágborins ástands Egilsstaðaflugvallar og gerir kröfu um öryggisúrbætur. Í þessu ljósi er athyglisvert að setja stórhuga áætlanir Isavia um stækkun Leifsstöðvar og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar í samhengi. En er forgangsröðunin rétt? Er hinni gegndarlausu „ofbeit“ ferðamanna á SV-horninu best mætt með því að auðvelda aðgengið enn frekar og fara jafnframt í óhagkvæmar bráðafjárfestingar til verndar viðkvæmum náttúruperlum?

Tölulegar upplýsingar sýna þá skökku mynd að hinn dæmigerði erlendi ferðamaður fer ekki lengra en 150 km frá flugvelli á SV-horni landsins. Sem þá þýðir ágang og ofbeit á litlum hluta landsins, samfara þenslu og margumræddu „gullgrafaraæði“ á höfuðborgarsvæðinu. Í landsbyggðunum dregst fjöldi gistinátta saman (hlutfallslega), arðsemi fjárfestinga er minni og skilyrði til atvinnuuppbyggingar eru beinlínis gerð mun lakari. Það er ekki svo að handan 150 km frá Leifsstöð sé ekkert áhugavert að sjá eða í neinu að fjárfesta, eins og einhverjir virðast halda. Þvert á móti kemur skýrt fram í nýlegri skýrslu það álit Boston Consulting Group að aukin dreifing ferðamanna um landið sé ein veigamesta forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi.

Stjórnvöld opni nýja gátt

Þetta mál snýst um hvernig sú bjagaða mynd blasir við að Keflavíkurflugvöllur skuli vera eina gáttin inn og út úr landinu sem stjórnvöld einblína á og heimila fjárfestingu til. Nýlegt eldgos í Eyjafjallajökli og núverandi gos sýna glögglega nauðsyn þess að flugvellir um land allt séu í góðu ástandi. Þá er ótalin sú röskun atvinnuhátta sem þessi eingáttastefna felur í sér, en gríðarlegur starfaflutningur í fiskvinnslu hefur átt sér stað af landsbyggðinni til Suðurnesja vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll og aukins vægis fiskútflutnings með flugi.

Hagnaður Isavia á árinu 2013 er hliðstæður þeirri fjárhæð sem varið er til allra flugvalla á Íslandi skv fjárlögum, eða uþb 1,5 ma króna. Góðan rekstrarárangur Isavia má m.a. rekja til sölu ilmvatns og súkkulaðis í Leifsstöð, auk innheimtu yfirflugs- og lendingargjalda. Keflavíkurflugvöllur er hins vegar eini flugvöllurinn í efnahagsreikningi Isavia og af þeim sökum halda forstjórinn og talsmaður félagsins því einatt á lofti að vegna alþjóðlegra skuldbindinga sé ekki heimilt að nýta tekjur Isavia til uppbyggingar annarra flugvalla. Þetta er kannski tæknilega rétt mv. núverandi uppbyggingu Isavia, en þetta er einungis spurning um vilja stjórnvalda að koma fjármálalegri uppbyggingu Isavia þannig fyrir að tilflutningur tekna og gjalda milli flugvalla sé mögulegur. Um það vitna erlend fordæmi og helst virðist um að kenna þverpólitísku getuleysi og þegjandi samkomulagi um að vitanlega hljóti öll „alvöru“ atvinnuuppbygging að eiga sér stað á SV-horninu. Nægjanlegt sé að henda bitlingum í landsbyggðirnar öðru hverju.

Þetta mál snýst ekki um ölmusur eða bitlinga til einstakra gæluverkefna. Þetta mál snýst ekki um kjördæmi eða landshluta. Þetta mál snýst um að skapa lífvænleg búsetu- og atvinnuskilyrði um land allt. Stjórnvöld verða að beita sér og stuðla að annarri gátt inn í landið, efla ferðaþjónustu um land allt og létta þannig róður ríkissjóðs verulega og spara umtalsverðar fjárhæðir.

Krafa landsbyggðanna hlýtur að vera sú að þeim sé sýnd sanngirni og þá spjara þær sig sjálfar.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson

framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar (AFE)

 

Flokkun : Pistlar
1,752