Útvarp fyrir iðjuleysingja
Sú var tíðin, að hægt var að hlusta á Ríkisútvarpið á morgnana.
Þá stóð Óðinn Jónsson sína morgunvakt á Rás eitt, fékk til sín upplýsta og yfirvegaða viðmælendur, oft um mál innanlands en ekki síður og oft fróðlegri um útlönd í líki Boga Ágústssonar, Arthurs Björgvins Bollasonar og fleiri.
Hann lýsti líka veðurhorfum þannig að hríðarbyljir urðu næstum vinir hlustandans.
Á Rás tvö var morgunútvarp undir forystu Sigmars Guðmundssonar, með Guðrúnu Sóleyju Gestsdóttur og nú síðast Aðalsteini Kjartanssyni. Þar var stemmningin léttari, persónulegri, umfjöllunarefni oft um daglegt líf og viðfangsefni okkar, en oft líka efni harðtengt pólitískum málefnum dagsins.
Hvort tveggja var góður þáttur. Þeir sköruðust ekki um nema klukkustund, svo að þeir sem vildu njóta hvors tveggja þurftu ekki að hafa mikið fyrir því að hlusta á báða. Það var svosem klukkutími að sækja í sarpinn á netinu eftir á.
En nú er þetta allt saman forbi.
Þættirnir eru að vísu báðir enn á sínum stað og jafnvel betri en fyrr. En einhverjir pappakassar með engan skilning á útvarpi ákváðu að lengja morgunvakt Óðins og fá til liðs við hann Björn Þór Sigbjörnsson, einhvern albezta útvarps- og fréttamann okkar tíma.
Við þetta lengdist þáttur Óðins um klukkustund og af því leiðir, að morgunþættirnir tveir skarast enn frekar. Þeir sem hafa yfirleitt áhuga á þjóð, samfélagi og umheiminum geta engan veginn hlustað á það allt, jafnvel þótt þeir noti bæði eyrun.
Þarna innan um sveimar svo Vera Illugadóttir, skærasta ungstjarnan á himni ljósvakans.
Við bætist ennú, að eftir hádegisfréttir tekur við Samfélagið í nærmynd, þar sem Leifur Hauksson og Þórhildur Ólafsdóttir halda uppi dýpri umræðu en getur um í öðrum fjölmiðlum, einkum um umhverfismál. Að við nefnum ekki Víðsjá, Lestina og alls kyns helgarþætti.
Er þetta nú ekki allt bara gott? Það þykir fjölmiðlarýni Herðubreiðar ekki sjálfsögð niðurstaða eða ályktun.
Honum virðist sem Ríkisútvarpið sé komið í myljandi samkeppni við sjálft sig um gott útvarpsefni. Það virðist líka gera ráð fyrir að hlustendur séu annaðhvort rúmfastir eða atvinnulausir. Eða hvort tveggja.
Það sendir nefnilega út áhugavert og oft mikilvægt efni frá morgni til kvölds, sem engin sæmilega eðlileg manneskja kemst nokkru sinni yfir að hlusta á, því að það nálgast að vera fullt starf.
Ríkisútvarpið virðist semsagt miða framleiðslu sína við iðjuleysingja, sem geta eytt dögunum löngum í að fletta í sarpinum eftir öllu efninu sem vont er að missa af.
Í þessu ljósi verður skiljanleg og eðlileg krafa stjórnmálaarms atvinnulífsins, að leggja skuli niður eða selja Ríkisútvarpið. Eitthvað hlýtur þessi útvarpshlustun jú að koma niður á vinnuafköstum fólks.
Hversu mikið mætti auka framleiðni og landsframleiðslu með því að leggja niður Ríkisútvarpið? Það skiptir líklega milljarðatugum.
Þeir fjármunir glatast ár eftir ár og verða engum til gagns, þökk sé Ríkisútvarpinu sem leggur metnað sinn í að þjóna þeim sem nenna ekki að vinna.
- Breytingar eru vondar - 27/04/2019
- Það þarf ekki alltaf falsfréttir - 14/03/2019
- Að reka hausinn í – tvisvar - 14/02/2019