Um taktíska kjósendur og pólitísk iðrarök
Karl Th. Birgisson skrifar
Öll rök hníga að því að kjósa aftur í Norðvesturkjördæmi.
Meðferð kjörgagna var þannig að þau eru ónothæf og því eru báðar talningar ómartækar. Fyrir nú utan ítrekuð lögbrot og allt hitt.
En allt frá því að möguleikinn á uppkosningu kom til tals hafa heyrzt rök gegn henni og heyrast enn.
Þau eiga það sameiginlegt að vera lýsingarorð. Fráleitt, óvenjulegt, skrýtið, óboðlegt og svo framvegis.
Þetta eru iðrarök, viðbrögð við því sem fólki er framandi, þykir óþægilegt, það fær bakþanka án þess að vita nákvæmlega hvers vegna, því líður ónotalega með einhverja hugmynd.
Iðrarök eru oft mjög gagnleg og skiljanleg. Við eigum að hlusta á þau.
Prívat þykir mér til dæmis mjög ógeðfellt að Ásmundur Friðriksson og Bergþór Ólason eigi sæti á alþingi. En ég get ekki verið á móti lýðræðinu þess vegna. Kjósendur ráða.
Að sama skapi mega tilfinningar ekki ráða afstöðu okkar til uppkosningar í Norðvesturkjördæmi. Lýðræðið hlýtur að standa ofar tímabundnum kláða í maganum.
Ein nothæf rök eru til gegn uppkosningu: Í henni hefðu kjósendur í Norðvesturkjördæmi meiri upplýsingar en aðrir, nú þegar ljóst er hver úrslit urðu í kjördæmum þar sem rétt var talið. Það er einhvers konar ójafnræði.
Þetta er hárrétt.
Ég læt alveg slæda að það sé slæmt í sjálfu sér að fólk hafi meiri upplýsingar en minni, en undirliggjandi þankinn í röksemdinni er að með þessar verðmætu upplýsingar í kollinum fari fólk að kjósa „taktískt.“ Eins og hverjir aðrir innherjar á markaði.
Olræt. Þetta er alveg boðlegt og umræðu vert.
Ég gef að vísu lítið fyrir tilhneigingu fólks til þess að kjósa taktískt. Það gerist kannske enn á afmörkuðum fundum flokka og félaga, þar sem kjósendur eru fáir og litlar blokkir þeirra geta haft talsverð áhrif á niðurstöðuna.
Norðvesturkjördæmi er ekki fjölmennt, en ég fullyrði að samantekin ráð um taktíska kosningu yrðu í bezta falli hjákátleg. Enda getur enginn – ekki einu sinni Þorkell Helgason – reiknað vægi atkvæðis síns þannig í því stórbrogaða kosningakerfi sem við búum við.
Atkvæði greidd Sjálfstæðisflokknum gætu orðið til þess að Helga Thorberg næði kjöri á þing fyrir sósíalista. Eða eitthvað allt annað.
En samt. Setjum ólíkega sem svo, að einhvers konar taktísk atkvæðagreiðsla hefði áhrif á úrslitin.
Og hvað með það? Það er ekki bannað kjósa taktískt. Fólk hefur vonandi enn atkvæðisrétt, frelsi til að kjósa heimskulega eða gáfulega, taktískt eða bara út í loftið.
Við getum ekki svipt fólk lögbundnum og stjórnarskrárvörðum kosningarétti bara af því að við óttumst að niðurstaðan verði asnaleg.
Iðrarök eru oft fín.
En kjósendur og lýðræðið verða að ráða.
Karl Th. Birgisson
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021