trusted online casino malaysia
Karl Th. Birgisson 14/05/2014

Um dauð atkvæði

Þingmaður Pírata, Helgi Hrafn Gunnarsson, minnti í þingræðu í kvöld á þá nöturlegu staðreynd, að næstum tólf prósent kjósenda eiga engan fulltrúa á alþingi.auð sæti

Þetta eru þau sem kusu framboð sem náðu ekki fimm prósenta markinu til að koma manni að. Með réttu ætti þessi hópur kjósenda að eiga næstum sjö fulltrúa á þingi, en á engan.

Praktískt talað merkir þetta að stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, hafa um 60 prósent þingsæta þótt þeir hafi aðeins fengið um helming atkvæða. (Þessir flokkar högnuðust hlutfallslega meira en aðrir á „dauðu atkvæðunum“ vegna misvægis atkvæða á milli kjördæma.) Það er næstum örugglega þveröfugt við vilja þeirra sem greiddu „dauð atkvæði“ í fyrra. Ég nefni bara kjósendur Alþýðufylkingarinnar, Dögunar og Lýðræðisvaktarinnar. Þeir hefðu seint kosið Framsóknar- og Sjálfstæðisflokk.

Þetta er þörf upprifjun á nýju kosningavori. Í Reykjavík eru komin fram tvö til þrjú framboð (Alþýðuhreyfingin, Dögun – Framsókn á meiri séns) sem eiga hverfandi möguleika á því að ná manni inn, og líklega er staðan svipuð í Kópavogi. Atkvæði greidd þeim falla því hugsanlega dauð niður líkt og tólf prósentin í fyrravor.

Með þessu vil ég ekki að gera lítið úr þessum framboðum, þvert á móti. Þetta góða fólk hefur allan rétt – meira að segja alveg háheilagan rétt – til að bjóða fram sig og hugmyndir sínar, og því ber að fagna að svo margir vilji nota orku sína og tíma í þágu samfélagsins.

Ég er einfaldlega að lýsa staðreyndum sem kjósendur hljóta að velta alvarlega fyrir sér. Vilja þeir (sumir enn og aftur) að atkvæði þeirra nýtist og gagnist þeim sem eru á algerlega öndverðum meiði við sjónarmið þeirra?

Í Reykjavík er þetta sérstaklega aktúelt umhugsunarefni. Oddvitar Alþýðufylkingarinnar (Þorvaldur Þorvaldsson) og Dögunar (Þorleifur Gunnlaugsson) voru báðir áður í Vinstri grænum, og líklegt er að þessi framboð sæki fylgi sitt á svipaðar slóðir.

Kjósendur þessara framboð hljóta að spyrja sig: Vil ég að Framsóknarflokkurinn fái mann í borgarstjórn af því að mitt atkvæði fellur dautt og atkvæðin dreifast svona furðulega? Eða vil ég nota atkvæði mitt til þess að VG eða Píratar fái tvo menn, sem standa báðir tæpt núna?

Reynslan úr síðustu þingkosningum sýnir, að þetta er mjög raunverulegt val og raunveruleg áhrif sem þessir kjósendur geta haft.

1,410